Vík burt - þið hafið þegna ykkar að fíflum!

Eftir því sem fleiri kurl koma til grafar í þessu máli má ljóst vera að ekki einasta er verið að hafa íslenska þjóð að fífli heldur er í gangi ljótur leikur af hálfu yfirvalda þessa lands. Sá leikur er allt að því glæpsamlegur og ef ráðamenn venda ekki sínu kvæði í kross er voðinn vís.

Ýmsir hafa haldið því á lofti að Íslandi beri ekki að greiða fyrir framferði Landsbankans, einkabanka, með mikla starfsemi á erlendri grund. Þeir hinir sömu hafa bent á sterk rök fyrir máli sínu en ég, ásamt eflaust með fleirum, höfum tekið að nokkru mark á þeim hræðslu- og ólíkindaáróðri sem stjórnvöld og aðilar á borð við Jón Baldvin Hannibalsson, Þorvald Gylfason og fleiri hafa haft fram að færa. Nú er að koma æ betur í ljós að málflutningur þeirra er litaður af öðru en að verja hagsmuni íslenskra skattborgara.

Það er einnig ofarlega í mínum huga sú hugsun að við erum sem reifabörn í höndum erlends valds og að fákunnátta ráðamanna og þeirra handbenda er með þeim hætti að maður skammast sín ofan í kjölinn. Reyndar eru fjölmargar tilfinningar aðrar sem hrærast innra með manni utan skammarinnar yfir vangetu stjórnvalda og fulltrúa þeirra; sorg, reiði, vantrú kemur mér t.d. í huga. Hvernig má það vera að til séu einstaklingar, jafnvel stjórnmálaöfl, sem svo berlega hafa orðið uppvísir að því að vinna gegn málstað eigin þjóðar, til þess m.a. að þóknast sínum annarlegu, pólitísku markmiðum.

Ég hef að undanförnu kallað eftir því að stjórnvöld vendi sínu kvæði í kross og reyni á þessari ögurstundu í sögu þjóðarinnar að sameina alþingi og þjóð að baki raunverulegri hagsmunabaráttu í viðskiptum sínum við hinar eitilhörðu stjórnir Bretlands og Hollands, að ekki sé nú talað um á meðal hinna svo kölluðu norrænu vinaþjóða.

Ég þykist merkja viðhorfsbreytingu hjá stjórnvöldum en óttast að henni muni mistakast - að eiginhagsmunir verði settar ofar heildarhagsmunum. Í tilraun minni til þess að láta ekki reiði mína ná tökum á mér í afstöðu minni til yfirvalda, finn ég fyrir sorg í hjarta mér yfir því hlutskipti sem stjórnvöld hafa valið sér. En reiðin er skammt undan.

Nú, þegar stjórnvöldum hefur tekist að hafa þjóð sína að fíflum, að sýna þegnum sínum fram á hve auman málstað þau hafa að verja, er sýnt að hún getur ekki lifað lengi. Jafnvel þó svo að fróm ósk um kúvendingu yrði niðurstaðan, er ekki víst að það dygði henni.

Fyrir tveimur sólarhringum var ég reiðubúinn að horfa framhjá mistökum yfirvalda að því skilyrði uppfylltu að þau sæju sig um hönd en nú get ég illa réttlætt fyrir sjálfum mér að á valdastóli sitji mikið lengur einstaklingar og stjórnmálaöfl sem eru orðin ber að því að vinna gegn hagsmunum þegna sinna. Svo vitlaus get ég ekki leyft mér að vera mikið lengur.

Ég hef fengið mig fullsaddan af hráskinnaleik núverandi valdhafa og frábið mér og þjóðinni allri að veita þeim starfsfrið mikið lengur.


mbl.is „Ekki einhliða innanríkismál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Já, sorglegt hvernig Steingrím hefur tekist að "rústa ímynd sinni & trúverðugleika" - hvað er eiginlega að gerast upp í hausnum á SteinFREÐ & Jóhönnu??  Ég & fjöldi fólks hef fengið mig fullsaddan af hráskinnaleik núverandi valdhafa og frábið mér og þjóðinni allri að veita þeim starfsfrið mikið lengur.  Eða með orðum Ingibjargar Sólrúnar: "Nú er mál að linni" svona getur þetta ekki haldið áfram...!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is) 

Jakob Þór Haraldsson, 10.1.2010 kl. 23:37

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ekki er það glæsilegt. Samfylkingin er að splundra þjóðinni með þessari Evró þráhyggju. Farið hefur fé betra en þessi vanhæfa stjórn.

Sigurður Þórðarson, 10.1.2010 kl. 23:52

3 Smámynd:

Nei og þetta rugl byrjaði með því að Geir Haarde og Ingibjörg töldu betra að við færum samningaleiðina en ekki fyrir dómstóla með innistæður Hollendinga og Breta úr því að við ábyrgðumsst innistæður íslendinga. Þannig kom þessi samningur til hjá núverandi Ríkistjórn. Nei bara að minna á þetta. Verið alveg róleg fólið í landinu er svo upplýst og gáfað að það er ekkert búið að gleyma þessu það verður líka með síðasta orðið í þessu í lýðræðislegum kostningum.

, 11.1.2010 kl. 12:10

4 Smámynd: Ólafur Als

Áslaug, hvað hefur þetta með málið að gera? Ertu virkilega að reyna að verja hinn vonda málstað yfirvalda með tilvísunum í mistök fyrri stjórna? Þau höfðu þó sér til afsökunar að þá var skammt liðið frá hruni en síðan hefur komið í ljós að það var einbeittur vilji þeirra að t.d. ekki notast við títtnefndan minnismiða, ekki að líta á reikninga í útlöndum sömu augum og reikninga hér á landi. En þetta skiptir engu máli, því núverandi stjórnvöld sögðust hafa miklu betri tök á málinu en fyrri stjórnvöld - þau báðu um þann bikar og hrósuðu sjálfum sér fyrir ný og betri vinnubrögð. Þeirra er því að horfast í augu við mistök sín nú og súpa seiðið af vondum samningi og vondum málstað, sem traðkar á hagsmunum almennings. Þessi samningur er jafn vondur, þó svo að Geir og Ingibjörg hefðu borið hann upp, eða hver annar sem er. Innihald hans er vont og innihald þeirra sem verja hann er einnig vont. Hafi þeir eilífa skömm fyrir.

Ólafur Als, 11.1.2010 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband