Hvað skal segja?

Enn eitt skipbrotið í stjórnun borgarinnar er í uppsiglingu. Þrátt fyrir að allir flokkar hafi komið að þeim hrunadansi þetta kjörtímabilið stendur upp úr að Samfylkingin virðist hafa tekið við því forystuhlutverki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í í borginni frá því að elstu menn muna. Hvort sem það er nú verðskuldað eður ei virðist Samfylkingin hafa komist í gegnum ólgusjó borgarátakanna áfallalaust, sem verður að teljast nokkuð merkilegt í ljósi þess að þeir voru frammi í stafni þegar átakahrinan hófst í borginni. Dagur og kó hafa róið sínum fögru árum í gegnum hvern pólitíska brimskaflinn á fætur öðrum og eftir situr að kjósendur í Reykjavík virðast treysta þeim best.

Margt og mikið hefur verið fjallað um þátt Sjálfstæðisflokksins í því leikriti sem hefur verið á fjölum ráðhúss borgarinnar þetta kjörtímabilið. Í fyrsta þætti virtist allt með felldu, gamli góði Villi virtist vera með góð tök á málum og svei mér ef borgarbúar könnuðust ekki við fyrri tök Sjálfstæðismanna á málefnum borgarinnar. En svo komu upp vandræði sem auglýstu vel innbyrðis átök innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarmenn urðu uppvísir að óheilindum sem því miður hefur einkennt þeirra valdabrölt og sérhagsmunapot um langan aldur. Í framhaldinu steig hver lukkuriddarinn fram af öðrum á vinstri vængnum og sló sig til nafnbótar.

Afganginn þekkjum við. Spunameistarar flokkanna hafa vart haft undan, Sjálfstæðisflokkurinn hefur liðið fyrir forystuveikleika á meðan Samfylkingin hefur notið sín á hliðarlínunni. Borgin situr uppi með borgarstjóra sem hefur að undanförnu dansað einn á dansgólfinu, ekki einu sinni ljótustu stelpurnar vilja dansa við hann. Ætlar Framsókn að taka við líflínu Sjálfstæðisflokksins eða verður valdafíkn Samfylkingar skynseminni yfirsterkari? Eitt er víst, Ólafur F. mun kveða sinn svanasöng með alkunnum orðum um að hann hafi ekki gefið eftir í sínum prinsipmálum og standi eftir heill. Sjálfstæðismenn, ásamt með nýjum samstafsaðila, munu enduróma raddir um að stjórn borgarinnar þurfi að koma í lag og að framundan bíði verkefni sem krefjist styrkra handa.

Á hliðarlínunni munu aðrir jafnvel brosa í kampinn en jafnframt hneykslast og lýsa yfir miklum kvíða yfir því í hvernig farveg stjórn borgarmálanna verða komin. Orðin leikrit og farsi munu eflaust hljóma síendurtekin á meðan ný borgarstjórn mun þurfa að ráða ráðum sínum og reyna að koma einhverju skikki á borgarskútuna. Ef til vill munu þessi nýjustu tíðindi ekki koma borgarbúum á óvart sé tekið mið af því sem á undan er gengið en víst er að Sjálfstæðisflokknum mun reynast afar erfitt að krafla sig fram úr þeim vandræðum sem hann hefur komið sér í.


mbl.is Samstarfið á „endastað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband