Heyrði ég rétt?

„Það skiptir mjög miklu máli að þegar svona stórpólitískt mál er rætt á þessum vettvangi, að mér hafi gefist kostur á að hitta stjórnmálamenn, ráðamenn og fulltrúa ýmissa samtaka, svo ég hafi tilfinningu fyrir viðhorfi þarlendra aðila."

Bíðið nú við. Er ekki þessi vitleysa með að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu einum of langt gengin? Nú kemur í ljós að þriggja ára áætlun er í gangi um málefni Afghanistan. Utanríkisráðherra Íslands ætlar að lágmarki kynna sér allar hliðar átakanna í Afganistan.

Fyrri ríkisstjórn hóf heldur óheppilega vegferð til þess að afla fylgis við setu Íslands í öryggisráði S.Þ. Af ástæðum sem erfitt er að skilja töldu ráðamenn það þjóðráð að fá að leika sér með stóru strákunum á sviði alþjóða öryggis- og stjórnmála. Að vísu skyldi kosta til einhverjum hundruðum milljóna af skattfé borgaranna en það eru smáaurar einir fyrir svo ríka þjóð sem okkur, sem svo viljug er til þess að sjá embættismenn og stjórnmálamenn þeytast heimshorna á milli.

Núverandi utanríkisráðherra er fyrir löngu búin að slíta sínum róttæku rauðsokkuskóm og telur það ekki eftir sér að starfa í nánu sambandi við hernaðarsamtök á borð við NATO. Að vísu í tengslum við borgaraleg verkefni, sem Íslendingar hafa sinnt ágætlega, sbr. tímabundin verkefni í stjórnun flugvalla á fyrrum stríðshrjáðum svæðum. Þess utan hafa Íslendingar fengið tækifæri til tess að stunda stríðsleiki í afmörkuðum verkefnum, sem hafa m.a. falið í sér að bera vopn, heilsa að hermannasið og bera ábyrgð á lífi og limum annarra.

Að íslenskir ráðamenn hafi sérstakar áætlanir til margra ára um málefni Afganistan er dæmi um að menn hafi færst of mikið í fang. Formaður Samfylkingarinnar taldi fyrir skömmu að hún hefði eitthvað fram að færa í átt til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs og um ástandið í Afganistan vill hún kynnast öllum hliðum málsins. Hvað ætlar hún að gera við slíkar upplýsingar? Hvar er sérfræðiþekkingin sem við getum byggt ofan á, sem gæti komið fólkinu í Afganistan til hjálpar? Er yfir höfuð einhver sem talar mál innfæddra - og hvenær hófu Íslendingar að viða að sér her manna sem alla jafna þarf til þess að sinna slíkum málefnum?

Ef umheimurinn leitar eftir sérfræðiaðstoð Íslendinga í málefnum stríðshrjáðra svæða er sjálfsagt að liðsinna eftir bestu getu, hvort heldur er með mannskap eða framlögum. En þessi árátta að halda að Ísland hafi eitthvað sérstakt fram að færa, m.a. byggt á að við höfum ekki okkar eigin her, er mikill misskilningur - nálgast reyndar hræsni ef nánar er skoðað. Íslendingar eru ekkert sérlega friðsöm þjóð, ofbeldi er ekkert minna þekkt hjá Íslendingum en hjá öðrum, og við getum í raun verið þakklát fyrir að vera ekki betur vopnum búin - við værum fyrir löngu búin að fara okkur að voða.


mbl.is Fer til Afganistan á sunnudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún er löngu búin að rústa möguleikum á sæti í öryggisráðinu með yfirlýsingum sínum undanfarið. Hún vill fá "tilfinningu" fyrir "viðhorfi" þarlendra. Er ekki frekar augljóst hvert viðhorf þeirra er? Væri ekki betra að kynna sér viðhorf samlanda sinna fyrst?

Kellingin er bara á einhverju egóflippi.

Linda (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband