Verður Bjarni Benediktsson skörungur?

Þetta fór eins og marga grunaði. Ég hefði að vísu orðið sáttur við að Kristján hefði náð kosningu, enda þykist ég sjá í Kristjáni góðan dreng og fullgildan leiðtoga. Fyrir mér er Bjarni meira spurningamerki en sé þó glitta í forystuhæfileika. Mikið hefur verið gert úr hans ætterni en erfitt að henda reiður á slíkt tal enda ómarkvisst og sérdeilis ómaklegt að kenna manninum um af hvaða fólki hann er kominn. Ef eitthvað er ætti hann að vera stoltur af ætterni sínu, líkt og flestir aðrir Íslendingar.

Hins vegar má mögulega finna að aðkomu hans að N1 og forvera þess fyrirtækis. Mér fannst t.d. sérstakt að hann sagði sig frá störfum fyrir N1 nú nýverið en á því fyrirtæki (forvera þess) hvílir myrk fortíð og nýlegar  ásakanir um að hafa stóraukið álagningu sína til þess að greiða fyrir óráðsíu undangenginna ára. En Bjarni er ungur að árum og ekki hægt að sakfella manninn fyrir syndir feðranna - nema menn telji hann e.k. uppvakningsprins Kolkrabbans sáluga.

Það sem mun skipta meginmáli er hvernig Bjarna tekst að snúa vörn í sókn. Það hefur fjarað undan tiltrúnni á Sjálfstæðisflokkinn og það mun taka tíma að endurvinna fylgið. Hvort Bjarni er maðurinn til þess að auka tiltrúna verður að koma í ljós. Ef hann gerist afdráttarlaus talsmaður þeirra gilda sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og víkur sér ekki undan að takast á við afturhaldsöflin á vinstri vængnum kann vel að fara. En flokksins bíður seta utan stjórnar hvernig sem fer.


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

"Ef hann gerist afdráttarlaus talsmaður þeirra gilda sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir..."  Besti formaðurinn hefði verið einstaklingur sem að tæki við embætti af auðmýkt og til í að vinna að áframhaldandi og dýpri naflaskoðun út frá skýrslunni um enduruppbyggingu. Slíkur einstaklingur þarf að geta hlustað og dregið ályktanir út frá reynslu. Tel að Árni Sigfússon hefði verið bestur í slíka vinnu. Nú er ég að tala líkt og ég sé innvígður og múraður. Mbk, G 

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.3.2009 kl. 23:01

2 Smámynd: Ólafur Als

Ég fæ ekki skilið af hverju jafnaðarmaður þykist hafa svona mikinn áhuga á hvernig Sjálfstæðismenn ættu að haga sínum málum. Sérstaklega er það ótrúverðugt að þiggja ráð frá sjálfhverfum krötum um það hvernig læra megi af hremmingum undangenginna mánaða og þeirri þróun sem leiddi til hrunsins. Kratar vilja ekkert við neitt kannast, ekki einasta sitt frjálslyndi nú þegar hæst er hrópað eftir félagslegum gildum.

Það er rétt að litið sé til félagslegs réttlætis í þeirri bjargráðaáætlun sem forða má einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum frá falli. Það er eina leiðin þegar vá steðjar að og um það eru allir sammála, hvar í flokki sem menn standa. Það sem skilur á milli er hvernig tekið er á í framhaldinu. Hvernig á að byggja upp nýtt samfélag sem áfram geti fjármagnað vegferð og velferð.

Of mikil áhersla á félagshyggju mun ekki tryggja þetta, nema menn séu sáttir við einhvers konar hokur með tilheyrandi landflótta ungs fólks og hruni þess samfélags sem ásættanlegt er. Meira að segja öndunarvél frá ESB gæti ekki komið í veg fyrir atgervisflótta í boði félagshyggjulausna.

Vitgrannir menn boða að frjálshyggja hafi ráðið hruni bankanna. Þeir horfa framhjá því að það voru frjálshyggjumenn svo kallaðir sem vöruðu við hruninu úti í hinum stóra heimi og því má það kallast merkilegt að kenna eigi sömu mönnum um hrunið. Frelsið, sem svo margir segja að hafi verið of mikið eða illa grundað, var frelsi á kostnað annarra en ekki með þeirri ábyrgð sem ætti að vera.

Frjálshyggjan er sú hyggja sem stendur að baki stjórnarskrám vesturlanda og varðar það frelsi sem við teljum sjálfsagðast. Ekki vilja menn kasta því fyrir róða? Frelsi til athafna, að nýta frumkvæði einstaklinga og vilja þeirra til að vinna sjálfum sér og sínum velgengni verða áfram þeir frumkraftar sem knýja mun efnahag samfélaga okkar. Sá dugur og það áræði sem býr þar að baki er sú uppspretta auðs og velferðar sem vestræn samfélög hvíla á og án þessara krafta mun hokrið og meðalmennskan ráða för.

Þetta vitum við í raun en sumir kjósa í ljósi aðstæðna að lýðskrumast og telja sjálfum sér trú um að hægt sé að fara aðrar leiðir, jafnvel til frambúðar. Menn tala í því sambandi fjálglega um nýja tíma og betra samfélag. Efnahagskerfi vesturlanda er blandað hagkerfi og það er ekki hægt að horfa framhjá því þegar hrunið er skoðað. Telja menn t.d. að aðkoma hins opinbera hafi verið til góðs? Á í ljósi reynslunnar að auka afskiptin og eftirlitið? Eru e.t.v. önnur úrræði betri sem varða tengsl frelsis og ábyrgðar?

Hver veit nema hið opinbera skipti sér allt of mikið af sumum málum; í stað þess að huga að því að setja almennar og góðar reglur - sem m.a. taka mið af persónulegri ábyrgð leikenda á markaði - er ávallt reynt að fullnægja pólitískum duttlungum á hverjum tíma. 

Ólafur Als, 30.3.2009 kl. 00:13

3 identicon

Hvað eru þessi kommar að þusa?

Sjá ekki allir að nú drýpur velsældin af hverju strái eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokkins?

Ertan (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband