Ákall þingkonunnar ...

Auk hinnar forvitnilegu lýsingar þingkonunnar á aðdraganda Icesave-samningsins, sem ríkisstjórnin á sínum tíma neitaði að hefði orðið með þeim hætti sem hún lýsti, er ljóst að stjórnvöld standa ráðalaus frammi fyrir aðsteðjandi efnahagsvanda þjóðarinnar. Það er ískyggilegt að verða vitni að því að ríkisstjórn Íslands stendur á brauðfótum. Samviska hennar, uppreisnararmur VG undir forystu Ögmundar, er kominn í eyðimerkurgöngu og kallar hvað hann getur til félaga sinna í ríkisstjórnarflokkunum. Guðfríði Lilju er tamt að minna þjóðina á pólitísk hjartans mál; um heiðarleg og þingræðisleg vinnubrögð, svo nokkuð sé upp talið.

Það hvílir þó nokkur skuggi á endurtekna kviðlinga Guðfríðar Lilju um gagnsæi, fagmennsku og heiðarlega aðkomu síns fólks og þau veigamiklu mál sem þingmenn uppreisnararmsins standa fyrir og þeir voru kosnir til að framfylgja á Alþingi Íslendinga. Í jafn veigamiklu máli og ESB málið er var VG sett í pólitíska bóndabeygju og eftir dýr orð varð þingkonan uppvís að því að ganga á bak orða sinna og gegn sannfæringu sinni í einu stærsta pólitíska máli sem hefur borið á fjörur Alþingis.

Það má kannski segja að Ögmundur hafi, með afstöðu sinni í Icesave-málinu, komið samvisku Guðfríðar Lilju nokkuð til hjálpar. Þar vann uppreisnararmurinn innan VG þarft verk í samstarfi með stjórnarandstöðunni. Þar fundu menn sameiginlega snertiflleti en jafnframt sást glöggt hve ríkisstjórnin stendur veikt. Í viðleitni sinni til þess að sverfa til stáls í annarri lotu endavitleysunnar, sem Icesave málið er orðið, er ekki víst að ríkisstjórninni takist að fá fram sinn vilja. Píslarvætti Ögumundar kann að verða hennar banabiti.

Hvað sem líður tilfinningalegum áköllum þingkonunnar er ljóst að ríkisstjórnin er komin í hugmyndafræðilegt þrot. Ráðherra félagsmála er allt að því aumkunarverður þegar hann grípur til slagorða á borð við hrunflokkana og á þá við framsóknarflokkinn og sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin kannast ekki við að hafa verið í þremur síðustu ríkisstjórnum. Sjálfbyrgingsháttur þeirra er slíkur að jaðrar við sjúkleika.

Þjóðin þarf ekki á því að halda nú að Guðfríður Lilja geti friðþægst við sína samvisku og félaga sinna í ríkisstjórnarflokkunum. Landsmenn þurfa ekki á því að halda að samfylkingin svari gagnrýni með skætingi og hroka. Umfang þeirra vandamála sem blasa við kalla eftir því að stjórnmálastéttin taki höndum saman á þeim flötum sem samvinna leyfir. Ef ekki vill betur verður þessi ríkisstjórn einfaldlega að biðla til stjórnarandstöðunnar um úrlausn vandans. Nú, einu ári eftir hrunið, standa íslensk yfirvöld á pólitískum nærklæðum einum en merkilegt nokk, þá er það íslenskur almenningur sem sýpur hveljur. Honum er ætlað að borga fyrir mistök stjórnvalda, fyrir og eftir hrun.


mbl.is Samþykktu Icesave blindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Datt nokkrum það nokkurn tíma í hug að það yrðu ein hverjir aðrir en Íslaenska þjóðin sem mindu borga brúsann.  Þetta er löngu ljóst, og líka það að við stöndum ein þangað til að Icasave málið er leist.  Allt annað tal er aðeins til að seinka því að uppbygging geti hafist.  Og það er líka spurning hvort þjóðin sem heild borgar eða eingöngu almennngur með meiri niðurskurði,  en þeir sem hafa tekjur og eiga egnir eigi að sleppa eins og Íhaldið vill.  Hversu ósangjarnt sem það er, og hversu gjarnan sem við vildum vera lausir við að greiða kostnaðinn af veislugleði uppáhalds drengja Hrunflokkanna, þá komumst við ekki hjá því.

Guðmundur (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 02:30

2 Smámynd: Ólafur Als

Guðmundur, þú virðist fastur í hjólfari slagorða úr kistu vinstri manna, t.d. talandi um hrunflokkana, eins og félagsmálaráðherra hafði uppi svo ósmekklega í Silfrinu í gær. Líkt of samfylkingin hefði ekkert vitað af eigin stjórnarsetu í aðdraganda hrunsins. Um ábyrgð sjálfstæðismanna og framsóknar vitum við öll, og innan þessara flokka er jafnvel til fólk sem þykist kannast við fyrri mistök. Sjálfstæðisflokknum var refsað kyrfilega í síðustu kosningum, svo nokkuð sé nefnt. Framsókn segist skilið við fortíðina með nýjum áherslum og nýju fólki. Gott er ef rétt er.

Það er flestu fólki ljóst að almenningur þarf að taka á sig byrðar. Hins vegar bíður þjóðin í ofvæni eftir framtíðarsýn; að lagður sé grunnur að uppbyggingaráformum sem koma megi hjólum atvinnulífsins í góðan gang. Án þess er tómt mál að tala um verndun velferðar, skjaldborgir, velferðarbrýr eða annan fagurgala úr munni stjórnmálamanna.

Auknar skattaálögur mun leggjast þyngst á millistétt þessa lands, fólk með millitekjur og jafnvel hærri. Hins vegar er sérhver króna úr hendi hinna efnaminni sársaukafull eftirgjöf en eftir sem áður er það millistéttin sem er bakbeinið í skatttekjum hins opinbera. Þar á bæ standa menn einna verst hvað skuldsetningu varðar - þar sem það á við. Því segi ég að það er fyrsta skylda stjórnvalda að róa að því öllum árum að koma uppbyggingu af öllu tagi af stað hið snarasta og því verður maður t.d. að taka undir orð Tryggva Þórs að t.d. úrskurður umhverfisráðherra nýverið er sem skemmdarverk í þeirri viðleitni.

Icesave málið hvílir eins og mara á þjóðinni og vissulega einnig stjórnvöldum. Það er vítavert hvernig þau hafa haldið á því máli en lausn þess er e.t.v. innan sjónmáls. Yfirlýsingar ESB-sinna og stjórnvalda á síðustu mánuðum gefa ekki tilefni til bjartsýni; þau virðast föst í einhverju fari sem þjóðin öll óskar þeim að komast upp úr.

Ólafur Als, 5.10.2009 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband