Ísland verður einungis byggt upp á forsendum Íslendinga

Það er erfitt að átta sig á ýmsum rökum þeirra sem vilja skrifa upp á nýjasta Icesave-samninginn. Hið skáldlega svartsýnisraus forsætisráðherra hefur fyrir margt löngu misst sitt bit. Hver ógnin á fætur annarri, sem undirskrift Icesave-samninga átti að ryðja úr vegi, hefur alls ekki reynst sú ógn sem af var látið - einna helst að ESB umsókninni sé hætta búin. En það vilja menn ekki kannast við á stjórnarheimilinu - alltjent ekki hjá Samfylkingunni.

Í umræðunni á Alþingi hætti einn þingmaður Samfylkingarinnar sér í ræðustól í dag og flutti ræðu um nauðsyn þess að skrifa undir - slíkt væri forsenda efnahagslegrar uppbyggingar og endurheimt á trausti á meðal þjóða heims. Þessa möntru er búið að bera í þjóðina um skeið en hún stenst ekki nána skoðun - ekki frekar en loforð um að ESB umsókn átti að laga gengið og opna fyrir lánsfé eða að við fengjum ekki lánafyrirgreiðslu frá AGS eða Noregi án undirskriftar Icesave.

Stjórnarherrunum virðist standa á sama þó svo að í hverju stórmálinu á fætur öðru verði þeir berir að stórtækum mistökum, uppvísir að því að loforð þeirra standast ekki og jafnvel að því að hafa sagt ósatt við landsmenn. Stuðningsmenn stjórnarinnar svara með útúrsnúningum og skætingi ef þeim er bent á ótalin mistök og hve illa hefur tekist að standa við stóru orðin um heiðarleg vinnubrögð, opna stjórnsýslu og samráð. Og enn grasserar spillingin.

Nú á sem sagt að telja manni trú um að með því að stórauka skuldabyrði þjóðarbúsins (sem bókfærist með 40-50 milljarða skuld ár hvert næstu 7 árin af vöxtum Icesav-samningsins) og jafnframt styðjast við fyrirvara, sem vafi leikur á að standist stjórnarskrá, að þá fyrst geti uppbygging hafist á Íslandi. Svo virðist sem stjórnarliðar flestir trúi þessu (í blindni?) en þó læðist að manni sá grunur að samviska þeirra sé ekki hrein. Alltjent var vandræðalegt að hlusta á svör þingmanns Samfylkingarinnar, sem hætti sér í ræðustól Alþingis í dag. Ef hægt er að segja að vanþekking sé yfirgripsmikil, þá átti það vel við þennan þingmann og reyndar fleiri fulltrúa stjórnarflokkanna.

Fjöregg þjóðarinnar er í höndum fólks sem hvorki vill né getur fært haldbær rök fyrir máli sínu. Auðmýking forystumanna stjórnarinnar er einnig alger. Ráðamenn erlendra ríkja, sem við eigum í deilum við, nenna varla að svara erindum forsætisráðherra. Þeir vita líka sem er að ríkisstjórnin er með allt niðrum sig, hún telur sig seka, eins og fyrrum formaður Samfylkingarinnar benti svo réttilega á, og með þannig hugsanagang í farteskinu er ekki nema von að á erlendum vettvangi séum við virt að vettugi. Það vill enginn hlusta á sakamenn með bónstaf í hendi.

Það er til her manna, gerður út af stjórnarflokkunum, sem fer mikinn í bloggheimi og reynir hvað hægt er til þess að hafa áhrif á fjölmiðlafólk og umræðu í fjölmiðlum. Ein birtingarmynd þessa er að gagnrýna og sverta orð þeirra sem héldu uppi vörnum fyrir Ísland á þingi norrænna þjóða í Stokkhólmi fyrir skömmu. Með skætingi og útúrsnúningum vill þetta fólk færa stjórnmálaumræðu hér heima út fyrir landsteinana og skammast sín, að því er virðist, ef einhver dirfist að halda uppi vörnum fyrir hagsmunum Íslands og lýsir vanþóknun á þjónkun s.k. vinaþjóða við málstað breskra og hollenskra stjórnvalda.

Langlundargeð mitt gagnvart þessari stjórn er á enda runnið. Ég sé ekki fyrir mér það kraftaverk að stjórnarherrarnir nái að snúa vörn í sókn fyrir land og þjóð. Ekki kaus ég þetta fólk en hef þó óskað þess að þau myndu bretta upp ermar, koma fram hér heima og erlendis með röggsemi og áætlanir að vopni - jafnvel á kostnað þess að tryggja framgang þessara flokka til næstu framtíðar. En stjórnarflokkarnir eru of uppteknir af eigin ágæti til þess að geta með góðu móti tæklað það risaverk sem felst í að endurreisa Ísland. Þeir eru ekki reiðubúnir til nauðsynlegs samstarfs og þeir eru of uppteknir af því að benda á sökudólga.

Á meðan er okkur skattborgurum gert að greiða reikninginn. Eftir höggið frá hægri á endanlega að tryggja að við liggjum í því með höggi frá vinstri. Með því að rota okkur gerum við vart uppsteyt á ný. Alla vega munu mótmælaskiltin í kjöllurum VG ekki verða tekin fram á næstunni.


mbl.is Frostavetur falli Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð færsla hjá þér félagi. Mótmælaskiltin í kjallara VG geta nýst eins vel við að koma þessari stjórn frá og þeirri sem síðast var steypt. Stóð ekki "vanhæf ríkisstjórn" á þeim flestum? Það slagorð á ekki síður við núna.

En ef það dettur í okkur að lemja saman nokkur mótmælaspjöld og fara með þau á Austurvöll til að mótmæla verður það okkur ekkert ofaukið.

Og það er alveg rétt hjá þér, enn grasserar spillingin og vanhæfnin. Hvort er það fólkið eða stefnan, eða er það kerfið sem fólkið starfar í sem er svona skynsemissnautt. Er ekki bara komin tími á alvarlegar kerfisbreytingar? Eða jafnvel byltingu? Friðsama að sjálfsögðu :)

Toni (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 03:48

2 Smámynd: Ólafur Als

Stórt er spurt, Toni, og því fátt um svör. Nema þá helst að ekki deili ég þeirri skoðun að kerfinu sé einu um að kenna - það er einu sinni eðli kerfa að vera í senn góð og slæm en mestu máli finnst mér skipta aðhaldið sem við veitum því, til þess m.a. að forða innbyggðu eðli þess að viða að sér völdum.

En skiltagerðin er okkur öllum fær, þó svo að borgaralegt langlundargeð okkar haldi nokkuð aftur af manni. Ætli maður láti sig ekki hafa það að fara á Austurvöll á morgun og hver veit nema fólk láti sjá sig. Þannig veitum við núverandi stjórnvöldum aðhald og þannig finnum við kraftinn til þess að hafa áhrif.

Ólafur Als, 27.11.2009 kl. 21:54

3 identicon

Við sjáumst þá þar félagi hressir og kátir.

Fólkinu breytum við ekki en kerfinu getum við breytt, og með því gæti okkur miðað eitthvað áfram. Og borgarar -þá í einhverjum klassískum skilningi- láta ekki vaða endalaust yfir sig. Hægrið okkar brást og vinstrið okkar ætlar að gera það líka, á jafnvel fyrirsjánlegri máta en hægrið.

Og þá er aðeins tvennt í stöðunni, gefast upp og hrökklast í esb, eða taka sénsinn á að hægt sé að byggja upp samfélag þannig úr garði gert að það væri talin hin mesta firra að fórna því fyrir esb aðild, og áróðursræður evrópusambandssinna verða eitt helsta skemmti og hlátursefni okkar í framtíðinni. Jafnvel náinni framtíð.

Toni (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband