Útrýmið þeim!

Þegar kaldastríðið stóð hvað hæst var Afríku leikvöllur blóðugra átaka á milli austurs og vesturs. Kínverjar tóku þátt í þeim hildarleik, aðallega þó nær heimaslóð, en þeir teygðu einnig anga sína allt til Afríku, aðallega með sölu vopna. Kínverska alþýðulýðveldið varð til á svipuðum tíma og Ísrael. Til uppbyggingar síns lands höfðu Ísraelar farið óhefðbundnar leiðir en náð eftirtektarverðum árangri. Þeir ræktuðu upp eyðimerkur og náðu á undravert stuttum tíma að komast til bjargálna og hófu m.a.s. útflutning landbúnaðarvara - hver kannast ekki við Jaffa appelsínurnar, þ.e. ef þeir hafa aldur til?

Á árunum fram að sex daga stríðinu litu sumar Afríkuþjóðir til þeirrar uppbyggingar, sem hafði átt sér stað í Ísrael og vildu læra af þessum dugmiklu Gyðingum, sem hafði tekist að breyta eyðimörk í gjöfula akra. Þessa þróun var m.a. ekki Kínverjum að skapi, hvað þá Sovétinu gamla. Það truflaði þeirra áform um áhrif í Afríku. Þó svo að samyrkjubúin, sem leiddu það byltingarkennda starf að breyta eyðimörk í grösugar lendur, væru í grunninn félagslegt fyrirbæri, var Ísrael þrátt fyrir allt í vinfengi við Vesturlönd. Bretar og Frakkar sáu Ísraelum að mestu um vopn fram á sjöunda áratuginn en Bandaríkjamenn í ríkari mæli eftir það.

Þegar Nasser var í óða önn að festa sig í sessi sem leiðtogi Arabaþjóða á sjöunda áratugnum og kalla Araba til vopna gegn Ísraelsríki, var það m.a. Sovétleiðtogum í hag að efla nýfengið vinfengi við sömu lönd. Þeir sáu Egyptum og fleiri Arabaríkjum fyrir vopnum í þeirri viðleitni Nassers og annarra leiðtoga Araba að ætla sér að má Ísraelsríki af yfirborði jarðar. Kínverjum var sérstaklega umhugað um að Ísrael gæti ekki "flutt út" sinn góða árangur á sviði landbúnaðar og þróunar en á þessum árum voru Ísraelar reiðubúnir að rétta nýfrjálsum Afríkulöndum hjálparhönd á þessu sviði.

Í aðdraganda sex daga stríðsins í júlí 1967 bárust Nasser og Arabaþjóðum frómar óskir frá Kínverjum. Þeir voru hvattir til þess að gereyða Ísrael í krafti þeirrar stríðsvélar sem beindi öllum sínum spjótum að Ísrael á hinum örlagaríku dögum fyrir stríðsátökin. Nasser hafði m.a. safnað á annað þúsund skriðdrekum á Sinai skagann, af nýjustu gerð frá Sovétinu, og allt um kring Ísrael stóð óvígur her manna reiðubúinn að greiða Ísrael náðarhöggið. Ísraelsmenn biðu ekki innrásar herja Nasser og ákváðu þess í stað að sækja fram að fyrra bragði. Þrátt fyrir að tvísýnt væri um úrslit í þessu skammvinna en örlagaríka stríði þekkjum við öll útkomu átakanna á sumarmánuðum ársins 1967.

Kínverjar urðu að sínu leyti að ósk sinni. Í kjölfar sex daga stríðsins hætti því sem næst þróunaraðstoð Ísraela í Afríku og þessi vanþróaða heimsálfu varð leiksoppur stríðsátaka á vígvelli kalda stríðsins. Í stað þess að hin nýfrjálsu ríki sæktu fyrirmyndir til landa á borð við Ísrael tóku við blóðug átök vítt og breitt um álfuna, með þeim afleiðingum að mörg Afríkuríki hafa fjarlægst efnahagslegt sjálfstæði og orðið skorti og hungri að bráð. Í stað framþróunar hefur álfan í ríkari mæli þurft að styðjast við matargjafir og almenna aðstoð. Þetta er grætilegt í ljósi þess að Afríka gæti ekki einungis brauðfætt eigin íbúa, heldur eflaust allan heiminn, ef svo bæri undir.

Viðleitni Kínverja nú er vafalaust byggð á öðrum grunni en þeim sem einkenndi áök kalda stríðsins í Afríku. Með því að veita vanþróuðum ríkjum eða svæðum aðstoð hjálpa þeir einnig sjálfum sér. Þannig verður samvinnan til þess að báðir aðilar hafa hag af. Ef þetta er sá grunnur sem liggur að baki viðleitni Kínverja nú, alla vega að hluta til, má ýmislegt gott um þessa aðstoð segja. En hitt er víst að um leið vex pólitískt áhrifavald Kínverja og um það má hafa mörg orð og ekki öll falleg. Eftir því sem Kínverjum vex styrkur á alþjóðavettvangi mun umheimurinn í ríkari mæli þurfa að gefa eftir í kröfugerð sinni um aukin mannréttindi í Kína, að ekki sé nú talað um að aflétta kúgun og hernám Tíbets. Er þá einungis fátt eitt upptalið.


mbl.is Flytja út bændur til Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég óska þér alls hins besta á nýju ári, Óli minn!

Þorsteinn Briem, 1.1.2009 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband