Færsluflokkur: Dægurmál
6.3.2007 | 07:42
Færsla til vinstri
Ég hef áður komið að því að pendúll stjórnmálanna sveiflast til vinstri þessa dagana. Um þetta vitnar m.a. nýjasta Capacent Gallup könnunin. Umhverfismálin valda hér nokkru en eflaust kemur fleira til. Frá miðjunni hafa margir færst til vinstri; Vg fá fylgi bæði frá Sf og Framsókn á meðan Sjálfstædisflokknum tekst að halda að mestu í sitt fylgi. Áberandi er hve margar konur hafa tekið þetta hliðarskref til Vg í stað þess m.a. að fylkjast að baki formanns Sf, ISG. Margar konur virðast þrátt fyrir allt kjósa femeniskar áherslur Vg umfram stuðning við kynsystur sína, ISG. Þetta hljóta að teljast merkileg tíðindi ef marka má niðurstöður skoðanakannanna.
Umhverfismálin, eins og þau eru sett fram þessa dagana, eiga sér trúverðugustu fulltrúana innan Vg. Að vísu eru þeir ekki hreinar meyjar í þeim efnum en stórt til tekið hafa þeir hreinasta skjöldinn. Samfylkingin getur hlaðið sig skrautfjöðrum, med Andra og fleiri í fararbroddi, fram í rauðan daudann; eftir sem áður stendur myndin af formanninum brosandi vid Kárahnjúkavirkjun í fölskvalausri aðdáun á framkvæmdunum þar. En vitanlega er batnandi mönnum best að lifa. Í öllum flokkum.
Síðustu daga hefur komið upp sérstakt mál sem hefur gefið Vg tækifæri til þess að sýna á sér sínar feminisku hliðar með keim af forræðishyggju. Heldur hefur mér þótt undarlegt að fylgjast með því hve ötullega ýmsir fulltrúar Vg hafa reynt að afneita forræðishyggjunni sem birtist í þeirra málflutningi. Er Vg kannski ekki sósíalískur flokkur? Ætla menn nú að afneita róttækri félagshyggju sem alla jafna er tilbúin að fórna réttindum einstaklingsins og e.t.v. boða frjálslynda jafnaðarstefnu? Hið eina sem skilur þá Vg og Sf að er stefnan í Evrópusambandsmálum.
Vitanlega er þetta ekki svona, þrátt fyrir yfirlýstan vilja einstakra stuðningsmanna Vg. Á hægri kantinum eru e.t.v. ekki margir sannir frjálshyggjumenn, en þar afneita menn ekki sínum áherslum svo glatt. Það hefur ávallt verið styrkleikamerki Sjálfstæðisflokksins hve frjálshyggjuarmurinn hefur getað unnið vel inn á miðjuna í flokknum. Þessi samvinna einstaklingshyggju og e.k. frjálslyndrar jafnaðarmennsku hefur skilað flokknum forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Nú reynir á að flokkurinn komi fram með ferskar áherslur í sumum málum (undirstrika umhverfismálum) og hristi af sér doðann sem fylgir langri stjórnarsetu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2007 | 15:34
Forræðishyggjan er marghöfða skepna.
Við umræður um ýmis málefni er mönnum tamt ad leggja fram ráðleggingar sem varða okkur hin. Eitt gott dæmi er óhollt mataræði. Félagshyggjuflokkarnir á alþingi vilja með sínum góða ásetningi hafa áhrif á neyslu samborgara sinna med boðum og bönnum. Frjálslyndir menn og skynsamir eru þessum boðum og bönnum ósammála, svona almennt séð alla vegana. Vegna þess að sum mál varða okkur meira en önnur geta þau öfl sem þrýsta á um frekari leiðsögn ofan frá, til handa borgurunum, treyst því að við hin sameinumst ekki um að þrýsta á móti.
Vegna þess að við búum í flóknu samfélagi getum við ekki haft áhuga á öllum innviðum þess. Við eigum jafnvel í vandræðum með að sinna öllum okkar áhugamálum - en við getum treyst því að sérhvert málefni á sér sterka fylgismenn þar sem menn eru tilbúnir til þess að láta festa sinn góða vilja í lög og opinber fjárútlát. Þessi aðferð hefur tryggt að hið opinbera er komið med sína velviljuðu fingur í nær öll okkar mál. Í ofanálag er málfrelsi okkar settar skorður í víggirtum faðmi pólitískrar rétthugsunar þar sem fjölmiðlar dansa alla jafna í takt og sérhver andmæli eða óvinsæl skoðun gerð útlæg.
Það er löngu tímabært að slá skjaldborg um rétt einstaklinganna til þess að ráða eigin málum frekar. Slíkur réttur felur m.a. í sér frelsi til þess að hafa rangt fyrir sér, frelsi til framferðis sem mögulega skaðar okkur sjálf en ekki aðra, frelsi til þess að halda fram óvinsælum skoðunum - vegna þess að þannig viljum við hafa það. Vegna þess að við erum bestu dómarar þess hvað er okkur fyrir bestu en ekki misvitrir fulltrúar forræðishyggjunnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2007 | 15:39
Hægri grænn = umhverfisvernd med málamiðlunum
Í umræðunni um umhverfismál hér á landi gætir fjölmargra sjónarmiða, allt frá öfgafullri umhverfisvernd yfir í fölskvalausa stóriðjustefnu. Umhverfisvernd af hvers kyns tagi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum jafnframt því að s.k. stóriðjustefna hefur átt undir högg að sækja. Sem aldrei fyrr er tekist á um þessi mál en umræðan og baráttan hefur verið óvægin og máluð sterkum litum. Ein birtingarmynd umhverfisverndar hefur því miður verið sem úr smiðju öfgaafla fyrri tíma og fulltrúar þeirra hafa stundum haldið umræðunni um umhverfismál í gíslingu með ofbeldi og vafasömum áróðri. Á meðan hafa sjónarmið sem vilja sjá fram á sættir og horfa til málamiðlana ekki fengið ad njóta sín.
Eftir að hugsjónaeldar sósíalismans kulnuðu, ásamt fleiri áföllum á vinstri væng stjórnmálanna, hafa all margir vinstri menn verið ötulir talsmenn umhverfisverndar án málamiðlana en ekki allir þó. Í henni hafa margir fundið nýjan tilgang fyrir sín gömlu baráttumál og sumpart brostnu drauma; n.k. réttlætingu fyrir undangengin mistök og jafnvel fært í búning trúarbragða. Í ofanálag hafa ýmsir aðrir ákveðið ad fylkja sér undir þennan fána þar sem náttúran er færð á stall ofar mönnum og í baráttunni fyrir vernd hennar eru meðölin sveipuð heilögum tilgangi.
Náttúruvernd hefur vitanlega verid mönnum hugleikin langt út fyrir raðir vinstri manna, m.a. byggð á draumum um fegurra Ísland og bættri umgengni um landsins gögn og gæði. Draumar af þessu tagi hafa t.a.m. ýtt úr vör landgræðslu og skógrækt sem landið hefur þurft á ad halda eftir þúsund ára illa meðferð. Á allra síðustu árum hafa m.a. yfirvöld lagt æ ríkari áherslu á þetta starf, sérstaklega í formi skógræktar. Til viðbótar þessu má benda á að jarðvegur á Íslandi er vegna gosefnainnihalds vel til þess fallinn ad binda koltvísyring. Á þessum vettvangi bíða því Íslendinga mikil tækifæri, ekki bara til þess ad græda landid og fegra, heldur jafnframt ad leggja baráttunni gegn losun gródurhúsalofttegunda lið.
Æ fleiri segja að nóg sé komið af vatnsaflsvirkjunum og áformum um fleiri álver og tiltaka fjölmörg rök máli sínu til stuðnings. Eins og málin hafa verið sett fram virðist sem sátt um þennan málaflokk sé ekki framundan. Ef svo reynist yrði fyrsta fórnarlamd þessara átaka lýðræðið. Í ljósi öfganna er ljóst að full sátt mun aldrei nást en einhvers konar millivegur verður að finnast sem felur í sér skynsamlega nýtingu þeirrar orku sem landið hefur upp á að bjóða samfara vernd helstu náttúruperla landsins. Fyrir þessu mættu allir skynsamir menn berjast, hvar í flokki sem þeir finnast. Fyrir þessu mættu s.k. hægri grænir berjast, þ.e. umhverfisvernd med málamiðlunum.
Med því að nýta hina vistvænu orku landsins leggjum við okkar af mörkum á vogarskálum baráttunnar gegn auknum gróðurhúsalofttegundum í andrúmslofti. Med því að gefa umhverfisvernd aukið vægi, eins og vera ber, mun áformum um vatnsaflsvirkjanir fækka verulega en jafnframt getum við med aukinni tækni horft fram til þess að virkja jarðhita í auknum mæli á stöðum sem falla utan þeirra svæða sem við viljum vernda. Í mínum huga er þetta sú lausn sem allir frjálslyndir menn ættu að leggja áherslu á, grænir eður ei, en jafnframt vinna að aukinni uppgræðslu lands og verndun umhverfisins, heima í héraði eða á vettvangi landsmálanna.
Sérhver virkjanaáform í framtíðinni og nýting okkar vistvænu orku verða ad uppfylla skilyrði um umhverfisvernd, fjárhagslega afkomu, sátt við íbúa og aðlögun að almennri efnahagsstjórnun í landinu. Menn skyldu hafa í huga að sérhver framkvæmd af þessu tagi er ad auki framlag til þess að spara útblástur kola-, olíu- eda gasorkuvers annars staðar í heiminum. Sátt um slík sjónarmid eru vonandi framundan og undir slíka sátt geta hægri grænir vonandi skrifað undir. Alla vega geri ég það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2007 | 00:09
Fyrsta bloggfærsla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)