Vonsvikin ríkisstjórn - tækifæri til að halda í stólana

Eins og ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli frá upphafi var ekki von á góðu, ekki á neinu stigi málsins. Vonbrigðin yfir ákvörðun forsetans hljóta að vera mikil á stjórnarheimilinu og á meðal helstu stuðningsmanna. Yfirvöldum býðst nú tækifæri til þess að sameina þjóðina í erfiðleikum ef hún heldur rétt á spilunum. Hins vegar er það henni pólitískt ill mögulegt, eins og málflutningi hennar hefur verið háttað, en þó ekki ómögulegt. Til þess þurfa ráðamenn að breyta aðkomu sinni að málinu.

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar benti á hve hrapallega yfirvöldum tókst að bera sig að í samningunum við Breta og Hollendinga. Þó svo að það væri eflaust hennar pólitíski vilji að klína öllu á sjálfstæðisflokkinn, eins og komið hefur fram í máli ýmissa stjórnarþingmanna, áttar hún sig á að hennar flokkur ber einnig nokkra sök. Formaðurinn fyrrverandi nálgaðist því málið útfrá hagsmunum íslenskra skattborgara. Nú býðst stjórnvöldum að gera slíkt hið sama en af fyrstu viðbrögðum að dæma virðast ráðamenn ætla að fara í það far að halda EKKI uppi vörnum fyrir Ísland á erlendri grund.

Eftir að hafa flett í gegnum nokkrar erlendar fréttaveitur þá er ljóst að flestir hafa litla sem enga hugmynd um hvað málið snýst. Meira að segja á CNN var því haldið fram að lánið ætti að greiðast upp fyrir árið 2024, að forsetinn hefði hafnað lögum um að borga hollenskum og breskum yfirvöldum lán sem Ísland átti að hafa þegið. Svona er þetta víðar, jafnvel í skandinavíu virðast fáir, ef nokkrir, vita um hvað málið snýst. Er nema von að erlendir ráðamenn, margir, séu andsnúnir hagsmunum íslenskra skattgreiðenda þegar þeim er sagt að við ætlum ekki að borga fengin lán.

Blákalt halda hollensk og bresk stjórnvöld því fram að Íslendingar ætli ekki að borga lán sem þau hafi fengið og enginn ráðamaður er til þess að andmæla þessum málatilbúnaði. Þær eru í raun ámáttlegar yfirlýsingar stjórnvalda, sem þó er vitnað í, en sem ég ætla að fáir skilji - enda er engin sannfæring að baki þeim. Engum raunverulegum vörnum er haldið uppi, engar rangfærslur reknar ofan í Hollendinga og Breta og eftir situr sá sem les hugsandi sem svo að á Íslandi býr fólk sem vill ekki borga lánin sín. Engum dettur í hug að efast um yfirlýsingar breskra og hollenskra ráðamanna sem eru básúnaðar í fréttaveitum heimsins og því hljóti þær að vera sannar.

Þetta getuleysi yfirvalda til þess að halda uppi einhvers konar vörnum í málinu á erlendum vettvangi er í raun glæpsamlegt. Í ofanálag er klifað á því hve umheimurinn er okkur óvinveittur í þessu máli. Hvernig má annað vera, þegar hann þekkir ekki hliðar þessa máls aðrar en þær sem Bretar og Hollendingar bera upp og íslenskir ráðamenn og þeirra dindlar halda einnig á lofti? Sumir kratar segjast vera í vinfengi við erlenda ráðamenn og hafa vart undan við að vara þjóðina við áliti þeirra. Þeim dettur ekki annað í hug en að þjóðin eigi að borga og í yfirlætinu er borin upp sú lygi að skuldin gæti jafnvel orðið hærri. Að Bretar og Hollendingar hafi í raun verið okkur afar hagstæðir.

Svona fólk getur ekki komið fram fyrir Íslands hönd og unnið að rétti og hagsmunum Íslands og Íslendinga. Þeir eru orðnir svo alþjóðlegir í hugsun að þeir eru ekki lengur raunverulegir þegnar þessa lands; n.k. Evróþegna mætti e.t.v. kalla þessa menn. Þeirra pólitík blindar þá og þeir virðast vinna því máli framgang að sanna sem best að íslenskir þegnar beri klafa fjárhagsbindinga Icesave-samkomulagsins.

Þó svo að fjölmargir séu ósáttir við að nokkuð falli á íslenska þegan vegna falls Landsbankans þá vilja flestir að frá þessu máli verði gengið með einhverjum sóma. Margir vilja og að e.k. lagaleg niðurstaða fáist í málið áður en lengra er haldið, sem myndi auðvelda mörgum að takast á við slæmar afleiðingar þess. En fyrst of fremst er krafa um að stjórnvöld vinni að hagsmunum Íslendinga á erlendri grund og þeim býðst nú síðasta tækifærið til þess á meðan hún enn lifir. Ef ráðamönnum er nokkuð um vert að sitja áfram verður það þeim farsælast að sameina þjóðina á bakvið kraftmikla réttindabaráttu í þessu máli, e.t.v. að koma málinu í hendur Evrópusambandsins en það ætti m.a. að hugnast sumum sem vilja ganga því stórveldi á hönd. Við hin sættum okkur við að stjórnvöld vinni að hag Íslands.


mbl.is Sammála um að lágmarka ókyrrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband