13.1.2010 | 14:19
Á framsókn von á góðu?
Framsóknarmenn mega alveg eiga það að hafa verið að mestu sjálfum sér samkvæmir í Icesave-málinu. Jafnvel fleiri málum ef grannt er skoðað. Sigmundur Davíð náði fljótt athygla margra og hefur náð að snúa gengi síns flokks á betri veg. Hins vegar hefur ímynd formannsins skaddast lítillega að undanförn, í mínum huga að ósekju, en stundum verður ekki ráðið við þær staðalímyndir sem fjölmiðlar enduróma og birtast í huga okkar.
Síðastliðið misseri hefur Sigmundur Davíð ekki einasta birst okkur sem ötull baráttumaður fyrir hag þjóðarinnar í Icesave-málinu heldur einnig sem sá sem vissi betur en stjórnvöld og bendir nú á, enn einu sinni, að stjórnvöld hefðu betur átt að hlusta á hann og samflokksmenn sína. Þannig er formaðurinn ekkert öðruvísi en aðrir að bæta á sig blómum. Hve mikill tími fór í þennan málflutning í ræðu hans veit ég ekki en það er jú alltaf gott að mæra sjálfan sig - sérstaklega þegar menn eiga það inni hjá sjálfum sér og öðrum.
Fjölmiðlar hafa ekki verið sérlega hagstæðir framsókn í seinni tíð. Fyrir all nokkrum árum var gefið út skotveiðileyfi á framsóknarflokkinn, sem nánast allir notfærðu sér. Sumir segja að framsókn hafi í ofanálag stundað sjálfseyðingu, eins og málflutningi forystumanna hennar var háttað á mektardögum Halldórs og Valgerðar. Það kann að vera nokkuð til í því. En fjölmiðlar voru óvægnir í garð maddömmunnar, jafnvel hinn hlutlausi ríkismiðill lét ekki sitt eftir liggja. Hann hefur reyndar orðið uppvís að hlutdrægni í meira lagi að undanförnu, og dregið taum hagsmunamála krata, svo eftir hefur verið tekið.
Það er á tvennum vígstöðvum sem RUV hefur sýnt óhlutleysi sitt í málflutningi af t.d. Icesave-málinu. Það er í sjálfu fréttavalinu en einnig í því við hverja er rætt á hverjum tíma. Álitsgjafar fjölmiðlanna eru gjarnan sérfræðingar úr háskólaumhverfinu en fjölmargir þeirra eru leynt eða ljóst tengdir tiltekinni stjórnmálahreyfingu. Þá munar oft ekki um að ausa úr viskubrunni sínum, blandað eigin pólitíska kryddi. Þetta eru sömu aðilarnir sem kvarta undan spillingu, kalla eftir bættum vinnubrögðum og siðbót - en vilja svo ekki kannast við að þeirra viðhorf litist af eigin pólitísku skoðunum.
Framsóknarmenn mega alveg berja sér á brjóst en þó tel ég að þeir verði brátt að skipta um gír. Það ríkir nokkur óvissa í mínum huga, og mig grunar hjá fleirum, hvert hið pólitíska hlutverk framsóknar er í raun. Við þekkjum afstöðu þeirra í Icesave, jafnvel einnig gagnvart ESB, en önnur mál hafa næsta lítið komið til umræðu og gefið manni færi á að meta þessa nýju framsókn, sem þau stæra sig af að hafi tekið við af þeirri gömlu. Ég mun gefa þeim færi á að flytja sitt mál og meta þau í framhaldi af því - það munaði minnstu að framsóknarflokkurinn hefði fengið atkvæði mitt síðast en mér fannst þó of margir vera volgir gagnvart ESB. Það varð á endanum til þess að atkvæði mitt fór annað.
Vöruðum við en ekki var hlustað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér Ólafur :) Sigmundur Davíð hefur staðið sig mjög vel fyrir íslenska þjóð.
Axel Pétur Axelsson, 13.1.2010 kl. 15:11
Ég kann mjög vel við Sigmund Davíð og það er rétt að menn hafa notað ómálefnaleg rök gegn honum, en það er langt frá því að Framsókn sé einlit hjörð.
Svo mikið er víst að Einar Skúlason er langt frá því að vera Sigmundarmaður.Hann er þvert á móti í slagtogi við Samfylkingararminn. Ég hef unnið dálítið með Óskari Bergssyni og finnst hann hafa hafa vaxið í viðkynningu. Það verður fróðlegt að sjá hvort viðmót fjölmiðla á ekki eftir að breytast.
Sigurður Þórðarson, 14.1.2010 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.