Sorgleg afstaða prófessorsins

Það er mér algerlega óskiljanlegt af hverju íslenskur þegn skrifar í erlend blöð til þess að halda uppi málstað Icesave-samninganna. Ég hélt ekki að menn legðust svo lágt. Eitt er að fjalla um þetta mál og biðla til erlendra áhrifamanna, jafnvel almennings, að hafa skilning á málstað Íslands - að þrátt fyrir að hér séu einhverjir sem telji það ekki eftir sér að borga fyrir óreiðu Landsbankans, að þá megi t.d. vænta betri vaxtakjara, þó ekki annað stæði til boða.

Nei, prófessorinn vill berja í drumbur kúgunar og einbeitts vilja um að láta Íslendinga ekki komast upp með moðreyk. Hann stappar stálinu í huga þeirra sem líta svo á að Ísland og Íslendingar eigi að borga hina óræðnu skuld - sem hann, að því er virðist, telur ekki stóra, en sýnir fullan vilja til þess að meta alls kyns aðrar óræðar stærðir og ógerða hluti til þess að kalla fram "væga" hryllingsmynd af ástandi efnahagsmála - lúti menn ekki í gras eins og þægir litlir samfylkingarstrumpar.

Á maður ekki að skammast sín fyrir svona lagað?


mbl.is Dýrt að hafna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála, væri bara best að þessi prófessor fengi sér vinnu hjá vinum sínum í Bretlandi eða Hollandi

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 17:27

2 Smámynd: Ólafur Als

Sem ég segi, þetta er alveg furðulegt framferði hjá þessum annars lærða manni. Hann titlar sig ósjaldan prófessor, telur sig fara fram með lærðan texta, sem er á köflum svo gótóttur að maður hlýtur að setja spurningarmerki við tilgang mannsins. Hvernig svo lærður maður telur sig vita það sem aðrir vita ekki - þ.e. um hina óræðu skuld - en þykist svo viss um einhverjar óræður afleiðingar, að hann telur sig geta sett fram "væga" hryllingsmynd - það skil ég ekki. Er prófessorinn að ganga erinda samfylkingarstrumpanna? Hvað vakir fyrir manninum?

Ólafur Als, 2.2.2010 kl. 17:35

3 identicon

Ég varð öskuill þegar ég heyrði af þessu. Hvað er eiginlega að manninum? Það er líklega engin hætta á að hann verði spurður að því á RÚV eða Stöð 2 - mönnum er hlíft við svo óþægilegum spurningum

Eva Sól (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 18:06

4 Smámynd: Ólafur Als

Já, það er einhvern veginn svo, að reiðina útilokar maður úr sálartetrinu - nú er ég er fyrst og fremst sorgmæddur yfir því að svo áberandi hjörð fólks skuli telja sér trú um að sekt okkar sé svo mikil að það sé ýmislegt til þess vinnandi að skuldsetja þjóðina - í huga sumra á þetta að vera e.k. bautasteinn mistaka fortíðarinnar, sem á að klína á tiltekin stjórnmálaöfl, OFAN Á það sem þegar er orðið. Það vitlausasta í þessu er að samfylkingarstrumparnir líta svo á að þeirra fólk hafi verið meðvitundarlaust í ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar - e.t.v. réttilega - og að það firri þá allri ábyrgð. Þegar ég reyfa þetta með sjálfum mér, er reyndar ekki langt í reiðina hjá manni. Að það sé til fólk sem afsaki nú löðrunginn frá vinstri vegna löðrungsins frá hægri - sú reginfirra gengur svo nærri manns skynsemi og siðferðisvitund að maður veit ekki hvort maður á að öskra eða gráta.

Ólafur Als, 2.2.2010 kl. 20:08

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ótrúlega ómerkilegt af þessum Samfylkingarvinavæna prófessor!

Hann vinnur þarna gegn öllu því sem bezt er gert fyrir Ísland erlendis.

Jón Valur Jensson, 2.2.2010 kl. 21:39

6 Smámynd: Ólafur Als

vað er maðurinn að skrifa í norsk blöð um nauðsyn þess að Íslendingar meðtaki Icesave-samninginn í núverandi mynd? Er þessu fólki alls varnað? Er það með fullri vitund og vilja að verið er að leggja stein í götu þess að mögulega fá fram betri samninga en þá sem nú liggja á borðinu? Myndi prófessorinn slá hendi á móti, þó ekki væri nema, litlu lægri vöxtum - sem myndi spara árlega milljarða króna, jafnvel tugmilljarða króna? Nei, frekar skal rýnt í óræðar tölur framtíðarinnar um óræðin viðbrögð erlendis frá um óræðinn mögulegan nýjan samning - enda stendur ekki annað til en að reyna að semja upp á nýtt - sem gæti e.t.v. valdið óhagstæðari kjörum á erlendum lánamörkuðum. Þessi "fræði" fræðimannsins eru svo vitlaus að maður skilur hvorki upp né niður í neinu. Prófessorinn getur ekki með nokkru móti séð fyrir sér að mögulegur nýr samningur geti orðið betri fyrir hönd íslenksra skattborgara - minnki greiðslur úr landi, aflétti þrýsingi á gengið og almennt skapað betri lánakjör vegna lægri lánsþarfar. Nei, prófessorinn skal einungis sjá eina hlið málanna og í yfirlætislegri tilraun sinni til þess mögulega að hljóma sannfæarandi setur hann fram hugmyndir um "vægar" hörmungar. Nei, það er eins gott að maður mæti ekki manninum á förnum vegi, ég held að ég myndi ekki geta setið á honum stóra mínum - hann fengi að fá að heyra það.

Ólafur Als, 2.2.2010 kl. 22:41

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta staðfestir alveg, hver hugur hans var, þegar hann var að masa um þetta mál í fjölmiðlum hér heima. Ég hygg hann fái seint þvegið af sér óþjóðhollustustimpilinn, þennan sem hann smellir á sjálfan sig í bak og fyrir.

Jón Valur Jensson, 2.2.2010 kl. 22:57

8 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Er þetta ekki einn af Hringormunum úr drulludíki óstjórnarinnar?

Eyjólfur G Svavarsson, 3.2.2010 kl. 00:53

9 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Landráða stjórn er nú að tröllríða öllu þjóðfélaginu ekkert upp á borðunum Jóhanna læðist með veggjum og fer til útlanda gefur ekki upp um það hvað hún er þar að gera jafnframt á meðan hún svíkur sína eigin þjóð er ekkert gert í því að klára málin til handa landanum í sanngirni, steypum þessari stjórn hún er ekki að vinna fyrir þá sem vilja búa á íslandi.

Sigurður Haraldsson, 3.2.2010 kl. 01:04

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hann er prófessor við ríkisháskóla, með afar aumlegt merrit í sinni fræðigrein. Álitið snerti raunar hagfræði ekki nokkurn hlut, heldur er hann leigupenni að leggja út af hótunum og ógnum, sem að okkur steðja og eru að mestu orðin tóm.  Stóra spurningin er: Hver fékk hann til að skrifa álitið? Hann gerir ekki slíkt af eigin hvöt, enda hefur hann engan fræðilegan grunn til að leggja heilstætt mat á  þetta flókna mál. Þetta er ekki hagfræðiissue.  Hvaða samfylkingarhænsn sem er hefði getað skrifað þetta. Hvaða Hólfríður á kaffistofunni eða á blogginu, sem er. Hann er ekki dýrari en næsti samfylkingarbloggari og ekki hefur hann frekar þekkingu til að fjalla um það en kerling, sem rekur bændagistingu í afdölum.

Það verður að finna út úr því hver kallaði á álitið.  Það er lögreglumál.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.2.2010 kl. 02:12

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú segir hann lærðan mann.  Ég er nú á því að slíkir stimplar séu orðum auknir.  Svo er spurningin hér: Er þetta á færi miðlungs hagfræðings að meta?  Nei segi ég. Málið er miklu flóknara en svo.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.2.2010 kl. 02:18

12 identicon

Jón Steinar,

   Hvernig væri ef þú myndir skella þér á geðdeild núna!! Ég held að það sé kominn tími á þig

Hans (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 02:37

13 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Svona uppvakningar verða til þegar vænum skammt af Icesave er blandað saman við óstjórnlega ESB þráhyggju sem svo er kryddað með VG valdadraumum.

Eina markmið SF í ríkisstjórn er að koma þjóðinni í ESB, það gerist ekki nema með ofbeldi þar sem þjóðin gengur ekki í þetta bandalag sjálfviljug, spámaðurinn Mattías er einn liður í þessari vegferð SF.

Eggert Sigurbergsson, 3.2.2010 kl. 05:23

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það merkilega er að þetta þykir jákvæð frétt í herbúðum Samfylkingarinnar. Það virðist enginn skilningur fyrir því hversu viðkvæmt orðspor Íslands er og hversu auðvelt er að hindra það að hlustað verði á málstað Íslendinga. Þessi orð koma upp í huga minn, ekki vegna trúarlegra skoðana, heldur vegna þess að þetta er dæmigert fyrir skilningsleysi yfirvalda:

"Fyrirgefið þeim, þeir vita ei hvað þeir gjöra."

Þessi prófessor væri sjálfsagt í stuðningshóp Frakka gegn Íslendingum í handbolta.

Hrannar Baldursson, 3.2.2010 kl. 07:09

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Með sinni meðvirkni með Bretum, Hollendingum, Icesave-stjórninni og Þórólfi eru ýmsir Samfylkingar- og VG-menn smám saman að draga sína eigin flokka á bólakaf, því að mörgum öðrum í flokkunum blöskrar þessi málflutningur, þegar þeir átta sig á honum og bera hann saman við drengilegan stuðning hæfustu manna erlendis, og því mun fylgi stjórnarflokkanna fara ört dvínandi úr þessu, þeir eiga ekki betra skilið.

Jón Valur Jensson, 3.2.2010 kl. 10:01

16 identicon

Það er ekki nóg að segja hlutinn strákar. Það er eitthvað til sem heitir rökstuðningur. Sá sem þið eruð að tala um beitið einhverju slíku. Aftur á móti eruð þið algjörlega lausir við að rökstyðja hlutina.

  Svo sem ekki í fyrsta skipta, en maður heldur þó í vonina, að þið hafið eitthvað til málanna að leggja, þó ekki væri nema fyrir Íslands hönd......

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 11:03

17 Smámynd: Ólafur Als

Jóhannes,

af tvennum toga er fundið að skrifum prófessorsins, ef það skyldi nú hafa farið framhjá þér. Annars vegar, og það er sýnu alvarlegra, en það er að koma fram í erlendum fjölmiðlum og tala gegn hagsmunum Íslands. Hins vegar er hinn "fræðilegi" grunnur, enda er hann óspar á að titla sig, maðurinn, en á því svelli stendur hann ekki styrkum fótum. Ég fór lítillega yfir það í athugasemdum hér að ofan að hann gefur sér vissar forsendur en kýs að líta framhjá öðrum, sérstaklega er varðar möguleikann á því að fá fram nýja og hagstæðari samninga. Hann getur t.d. ekki gefið sér að ekki standi til að semja eða að ekki standi til að mæta því sem sumir nefna skuldbindingar vegna þess að Bretar og Hollendingar greiddu skuldbindingar tryggingasjóðsins og gott betur. Hann virðist hafa kristalkúlu sér til halds og trausts þegar hann metur áhættuna, sem hann einn virðist þekkja - og bara á annan veginn. Í ofanálag tekur hann þann vitlausa pól í hæðina að ræða heildarskuldbindingar og að Icesave séu ekki nema viss prósenta af því. En hann skautar framhjá því að sumar þessara skuldbindinga eru gefnar (fasti), aðrar ekki. Sú viðbót, sem í Icesave samningnum felst er sú þúfa sem kann að velta hlassinu og þar með seinka um ókomin ár eða áratugi efnahagslegri uppbyggingu í þessu landi. Að ekki sé vilji til þess að gera þessa viðbótar skuldbindingu sem minnsta - sé þess nokkur kostur - er með eindæmum.

Ólafur Als, 3.2.2010 kl. 13:37

18 identicon

Ég verð að svara þessu, og vona að þú getir svarað til baka,

  1) Hann er ekkert að tala gegn hagsmunum Íslands. Þú talar um eins og útlendingar viti ekki um þetta, sem hann er að segja. Þetta eru ekkert hálfvitar, sem láta okkar komast upp með hvað sem er. 

2) Ég veit ekki betur en að hann sé prófessor í hagfræði, og virtur á því sviði. Einnig hefur hann gagnrýnt líka ríkisstjórnina fyrir ýmislegt. Einnig veit ég ekki betur en að hann fór almennum varnaðarorðum um efnahagsstefnuna hérna á fyrsta áratug, 21. aldar. 

3) Hann fer einfaldlega yfir hvernig staðan er í dag. Umræðan á Íslandi er RUGL RUGL RUGL OG RUGL. Við segjum í eitt skiptið: ah við eigum ekki að borga neitt, síðan að við ætlum að borga, síðan ekki, síðan að fara dómstólaleiðina o.s.frv. Það verður að tala einum rómi til að það sé hlustað á okkur. 

 4) Þú minntist á að menn litu framhjá ákv. forsendum: Þú talar um að þetta sé alfa omega alls, þegar kemur að heildarskuldbindingum okkar Íslendinga. Þú talar um einhverja þúfu, sem eigi að rembast fram í rauðan dauðan, að koma í veg fyrir að borga.  Hugsaðu aðeins, og pældu í því hvað þetta er púkalegur hugsanaháttur. 

            Þessi blessaða þúfa þín, verður ekki til mikils halds, þegar allt hlassið er oltið. Þú kannski færð þína þúfu, en þá verður líka allt hrunið. 

    Nú þegar höfðum við líklega tapað tugum milljörðum út af þessu máli. Ef heldur fram sem horfir, og heimturnar í Ice-save verða góðar, eins og stefnir í, þá mun þessi mögulegi ávinningur í aðeins betri samningum, hvors sem er vera horfinn út um gluggann!!!

   Síðan ef allt fer á versta veg, og Ísland getur ekki borgað þetta, þ.e. vegna hrunsins, algjörlega burtséð frá Ice-save. Þá verður Ísland einfaldlega gjaldþrota, og þá verða þessir samningar teknir upp. 

Það er bara óvitaskapur að halda því fram að prófessorar sem þó bentu á að ástandið væri ekki nógu gott, og voru að benda á hagsmunum Íslands væri í voða stefnt, með sinnuleysi, og áhættusækni viðskiptalífsins. Þá sé þessum sömu mönnum núna kennt um að vinna gegn hagsmunum Íslands. 

      ---Það sér það hver maður að svona málflutningur er kjánalegur, og tilgerðarlegur!!  ....aftur á móti er ég nokkuð viss um að ykkur dugir ekki lífið að röfla um þetta, alvega sama hvernig málið fer. 

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 14:55

19 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Allt satt og rétt hjá prófessornum.

Engin kjarnorkuvísindi þar á ferðinni.  Aðeins hard fakts.

Staðreyndir máls eru öllum vitibornum mönnum ljósar.

Það sem öfgarugludallar feila á er, að þeir halda að það að þvaðra hérna td. á síðum moggabloggs eitthvað um málið þar sem línan er:  Öllu snúið á haus og lesið afturábak" etc - að þeir halda það hafi einhverja merkingu in the real world !

Bara sorrý - hefur enga merkingu og eigi relevant varðandi umrætt lánasamningsmál.

Staðreyndir varðandi málið standa alveg kjurrar á sínum stað eftir sem áður.  Hreifast eigi.  Gufa eigi upp.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.2.2010 kl. 15:21

20 identicon

Dæmigerð afstaða hjá skammfylkingar peðunum Ómari og Jóhannesi.

Innihald texta þeirra skiptist milli hræðsluáróðurs, hroka og spurninga um greind andmælenda.

Geðveiki er víst að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur og búast við mismunandi niðurstöðum...  virðist sem að siðspillingar pésarnir hafa ekki uppgötvað þennan einfalda sannleik.

YKKUR TEKST EKKI AÐ HRÆÐA UPPLÝST FÓLK MEÐ DRAUGASÖGUM !! 

P.S

Hve mörgum miljörðum höfum við nákvæmlega tapað Jóhannes ??

Vinsamlega sýndu okkur staðfestar/viðurkenndar tölur yfir tap Íslands vegna þrjósku/heimsku þegnanna !! Birtu þessar tölur eða hættu þessum dapra innihaldslausa lygafrasa !!

runar (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 16:52

21 Smámynd: Elle_

Alveg ertu nú að vaða reyk, Jóhannes.  Ef þú heldur að Icesave sé bara lítil þúfa og þú vilt endilega borga fyrir þúfuna, kannski geturðu og ættir að vísu, að fara með honum Ómari hér að ofan í bankann og borga skrattans þúfuna og halda okkur hinum utan við það. 

Og ég nenni ekki einu sinni lengur að lesa rökleysuna í honum Ómari.  Og ef þér, Jóhannesi, finnst líka eðlilegt að fólk sætti sig bara við kúgun, verðurðu bara að gera það upp við sjálfan þig.  Við skuldum ekki Icesave, hvað sem þú og hinir Icesave-sinnarnir viljið ólmir fara í skuldaþrældóm. 

Við munum líka aldrei sætta okkur við kúgun, hvað sem þið heimtið það oft.   Það er ekki okkur að kenna að umræðan hefur verið fáránleg, það er ykkur Icesave-sinnum að kenna að nauðunginni var ekki alfarið hafnað. Við hin vildum aldrei neitt Icesave. 

Það á ekkert að semja um Icesave, enda galið að ætla að semja við mafíu.  Það hefur enginn leyfi til að leggja neina Icesave-nauðung og Icesave-skatta ofan á börnin okkar og okkur sjálf.  Og þú talar um fjlótari endurreisn með Icesave: Það er nú alger firra og bara gamlar og rotnar lygar Samfylkingarinnar.  Það verður engin endurreisn með neinu Icesave. 

Elle_, 3.2.2010 kl. 18:40

22 identicon

runar,

  Ég hef ekki tekið þátta í umræðunni hérna áður. Aftur á móti virðist það vera mikil lenska að kalla alla sem eru ekki sammála hörðustu Ice-save anstæðingum SAMFYLKINGARMENN!!...þetta bendir til algjörs rökþrots!!

  Síðan er farið í það að benda þeim sem andmæla ykkur, og benda á EINFALDAR staðreyndir....ÞVÍ MIÐUR!!! , þá talið þið um að endilega þá borgi þeir Ice-save skuld. 

  Hvers konar málflutningur er þetta. Svona í alvöru talað, til að menn taki ekki EITTHVAÐ mark á fólki, þá verður það að sýna EINHVER merki um vitræna umræðu. 

   Hjá ykkur er málflutningur 1) Samfylkingarhyski, og 2) borgið þið þetta bara sjálfir. 

      GJÖRSAMLEGA GRÁTLEGUR MÁLFLUTNINGUR, OG SEGIR HELD ÉG ALLT UM AF HVERJU MÁLIÐ ER Í ÞESSUM FARVEGI. 

  Við skulum þá prófa að fara ykkar leið, og sleppa því að borga. Frábært, og væri ég meira en til í það!!!

   MÁLIÐ ER BARA AÐ ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ BLAÐRA ÚT Í LOFTIÐ, OG VONA ÞAÐ BESTA. þAÐ VERÐUR EFTIR SEM ÁÐUR AÐ BORGA ÞETTA, OG VONANDI VERÐUR ÞAÐ SEM MINNST.

   Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að íslenska ríkið skeit svo um munar upp á bak. ÞAÐ GERÐIST. Jú, við getum reynt að berjast og fá "sanngjarnari" samninga. Aftur á móti erum við þau einu í allri veröldinni, sem erum þeirrar skoðunnar. 

Það er margoft búið að fara yfir hvað þetta getur kostað okkur, og hefur gert nú þegar. Það hafa margir gert það, og eru þær upplýsingar út um allt. Aftur á móti erum við ekki smábörn, og vitum að þið hafið ENGAN ÁHUGA Á ÞEIM UPPLÝSINGUM!!!

  Þið 

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 19:49

23 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er afstaða Samfylkingarinnar, sumpart vegna þess að Samfylkingunni hentar að kenna þjóðinni um þetta og sumpart vegna þess að hún lítur á Æsseif bæði sem hindrun á leið til Evrópusambandsins og jafnvel stökkpall inn í það því mikil skuldsetning dregur úr mótstöðukrafti þjóðarinnar.

Sigurður Þórðarson, 3.2.2010 kl. 20:25

24 Smámynd: Ólafur Als

Jóhannes,

ekki ætla ég mér að spyrða þig saman við samfylkingarstrumpana, sem fara um rifvelli bloggsins, en þeir eru vissulega til. Nenni svo ekki að ræða það frekar.

Varðandi suma þína punkta;

1) Ég átta mig ekki alveg á því að útlendingar ætli ekki að láta "okkur" komast upp með hvað sem er. Hvað áttu eiginlega við? Í kröfugerð er viðtekin venja að setja fram ýtrustu kröfur. Í þessu tilfelli væri hún eitthvað á þá leið að íslensk stjórnvöld væru ekki í ábyrgð fyrir innistæðum tryggingarsjóðsins. Ef til vill ekki ósvipað og Bretar halda fram á öðrum vettvangi. Því næst væri hægt að deila "ábyrgðinni" með einhverjum hætti, m.a. með tilvísun í sameiginlega ábyrgð eftirlitsaðila, íslenskra annars vegar og hollenskra og breskra hins vegar. Í þriðja lagi væri hægt að fara fram á að dómstóll skæri úr um vandann - ef allar aðrar leiðir væru þrautreyndar. Það er því vel hægt að óska sér allra þessara þriggja leiða en vera sjálfum sér samkvæmur. Svona fara menn fram í samningum og ég skil einfaldlega ekki að svona hafi ekki verið haldið á málum af Íslands hálfu.

2) - 3) Í raun er persóna prófessorsins ekki til umræðu, heldur ekki hvað hann hefur sagt og ekki sagt á öðrum vettvangi, né á árum áður. Það sem skiptir máli er rökstuðningur hans nú. Þegar ég ræði um að hann standi ekki fastur á svellinu er ég að vísa í rökstuðning mannsins um þetta mál. Hann þykir mér vondur og færi ég að nokkru rök fyrir því. E.t.v. gætirðu farið yfir það á ný en í grundvallaratriðum gefur hann sér forsendur, sem hann kann ekki að skýra en horfir framhjá öðrum. Sem prófessor ætti hann að sjá fleiri hliðar á málinu en sína eigin pólitísku hlið, það væri hin heiðarlegar og sanngjarna krafa sem hann ætti að setja sjálfum sér; þ.e. svo fremi hann titli sig prófessor.

3) Ég skil vel að þér þyki umræðan hálfgert rugl, ég deili því með þér á köflum. En það er nú einu sinni svo að við búum í frjálsu landi þar sem menn hafa ólíkar skoðanir. Við tökumst á við þær hér heima, líklega meira og harðar en gerist og gengur víða annars staðar. Hvað prófessorinn varðar spyr maður sig; Fyrir hverju berst maðurinn á erlendum vettvangi? Til hverra er hann að reyna að ná? Um hvað vill hann sannfæra lesendur erlends blaðs? Eitt er að eiga orðastað við manninn á innlendum vettvangi en að áróðurinn fyrir núverandi Icesave-samningi sé með þessu færður inn á heimili erlendra þegna er illskiljanlegt.

4) Kann að vera að þú skiljir ekki umræðuna um þúfuna, Jóhannes? Til þess að forðast allan misskilning þá vil ég árétta að stór hluti heildarskuldabyrði íslenska þjóðarbúsins er gefinn, n.k. fasti sem þegar er ritaður í stein. Um annað er óvissa, sbr. Icesave. Afleiddar skuldbindingar gera okkur erfitt fyrir við endurreisn efnahagsins og satt best að segja eigum viðí vandræðum með greiðslur af þeim. Að bæta ofan á þessar skuldbindingar felur í sér greiðsluþrot af nokkurs konar tagi. Þó svo að verulega verði dregið saman í ríkisrekstrinum - ofan á það sem ráð er fyrir gert - er einfaldlega ekki til peningar fyrir þeirri viðbót sem í Icesave felst. Það þarf nefnilega að greiða vextina jafnóðum. Jafnvel, þó svo að við þyrftum ekki að gera það, þá væri efnahagsreikningur ríkiskassans svo slæmur að viðbótarskuldsetning yrði honum ofviða. Sá niðurskurður, sem af þessari "þúfu" hlytist og þyrfti að bregðast við er ríkinu og skattborgurunum ofviða. Niðurstaðan yrði landflótti af óþekktu tagi og gjaldþrot íslenska ríkisins. Að prófessorinn skuli ekki vilja bregðast við þessum möguleika í sinni "fræðilegu" úttekt er óskiljanlegt. Hann kýs því, eins og ég vil halda fram, að horfa einungis á eina hlið mála ... sem ég segi, svo ég noti þín eigin orð; hlassið er þegar orðið nær of stórt og því gæti þessi "þúfa" endanlega velt því um koll.

Varðandi heimturnar úr Landsbankanum gamla, þá vona ég að þú gerir þér grein fyrir því að þær upphæðir, sem ríkisstjórnir Bretland og Hollands, greiddu umfram lágmarkstrygginguna, eiga í núverandi Icesave-samningum jafnháa kröfu og lágmarkið. Ergó, 90% heimtur deilast því þarna á milli og því ekki nema rúmlega 50% sem fást upp í margnefndar lágmarkstryggingakröfu. Það er svo annað mál, hvernig menn fá það út að heimtur verði góðar - er það raunhæft eins og á málum var haldið hjá Landsbankanum? Ég veit það ekki, enda er upplýsingum haldið leyndum af skilanefndinni. Hvað telur þú?

- hvort mér dugi svo lífið til þess að röfla um þetta mál við þig og aðra, er annað mál, en vissulega er til nokkurs að vinna ef niðurstaðan yrði betri samningur, þó ekki væri nema hagstæðari vaxtakjör. Þar munar um tugi milljarða, jafnvel hundruði. Þeir peningar verða ekki teknir af steinunum.

Ólafur Als, 3.2.2010 kl. 20:58

25 identicon

Ólafur,

  Jæja, núna tölum við bara beint út. 

  1) Ábyrgðinni er deily! Bretar taka á sig helminginnn og við helminginnn. Þannig er það nú bara. Síðan ákváðu Bretar upp á sitt einsdæmi að greiða umfram lágmarksupphæðina, en það kemur okkur ekkert við. 

                                -Hugsaðu þér ef þeir hefðu ekki greitt út a)lágmarksupphæð, og b)umfram það. Hugsaðu þér hvernig staða okkar Íslendinga væri erlendis þá. Ég veit það er erfitt að ímynda sér það en samt....

                                   - Ef að Bretar hefðu ekki greitt umfram lágmarksupphæðina, þá hefðu þeir aðilar fengið forgang í kröfur Landsbankans, og upphæðin sem Ísland hefði fengið úr þrotabúinu væri miklu minni. 

2) Hann er ekki að hafna neinum hliðum málsins. Hann er einfaldlega að benda á hvað það kostar okkur að hafna samkomulaginu. Þú verður bara að komast yfir það. Ég hef komist yfir það að við þurfum að greiða töluverða peninga til Breta, og þetta er hin hliðin á málinu. 

3)  Ég held að langflestir erlendis, hafi lítinn áhuga á þessu máli. Hann er einfaldlega að segja sína skoðun. Gæti þetta ekki líka(ef við erum á annað borð fastir í PR-málunum), að þetta hafi góð áhrif, þ.e. á Íslandi sé líka lið sem geti horft á þetta frá báðum hliðum og án allrar móðursýki. 

4) Við þurfum ekki að greiða vexti af láninu fyrr en eftir 7 ár, þannig er það nú bara. Ef ég man rétt þá voru drögin sem voru kominn af "fyrsta" samningnum, sem var nú lítið gagnrýndur af sumum, með ákvæði um greiðslu eftir 3 ár, og 1% hærri vexti. Ég held að prófessorinn kjósi ekkert að líta framhjá þessum atriðum. Þetta er einfaldlega staðan!! SKAÐINN ER SKEÐUR!!! Það er einfaldlega sorglega staðreynd málsins, og í mesta lagi gætum við fengið aðeins betri samning, og minnkað greiðslubyrðina um einhverja tugi milljarða. 

  Hugsaðu þér t.d. 2 menn sem hafa barist mjög hart á móti þessu formenn Sjálfstæðisflokks og Framskóknar. Þeir eru í forsæti fyrir flokkum sem hannaði og valdi kerfið sem hrundi. Þeir voru báðir töluverðir þátttakendur í viðskiptalífinu, og þá í miklum og stórum fjárhagsgerningum, þá aðallega Bjarni. Síðan eru nátengdir Sigmunds búnir að vera miklir þáttakendur í hrunadansi síðustu ára. 

          ---Ég er ekki að saka þá um óheiðarleika. Bara þetta gerir þá þó frekar vanhæfa að taka málefnanlega afstöðu til málsins, það hlýtur hvert mannsbarn að sjá. 

     ---Einnig sér hvert mannsbarn að stjórnarandstaðan er að NOTA þetta mál til að koma höggi á stjórnina, og einnig til að fyrra sjálfa sig ábyrgð á málum. Maður þarf að vera ansi bláeygður(þá í hefðbundinni merkingu) til að viðurkenna það ekki. 

   Velti því fyrir mér, að ef við værum, þjóð sem væri ekki svona rík(já þjóðin er rík, bara soldil mikil misskipting), þá hefði þurft fyrir löngu að vera búið að leysa þetta mál. Núna eru síðan Norðmenn byrjaðir að vorkenna okkur svo mikið, og sjá að við völdum þessu máli ekki, og ætla að reyna tala við AGS, og þrýsta á lánin, áður en við förum til andskotans. 

        AÐ NORÐMENN MYNDU VORKENNA OKKUR ÁTTI ÉG EKKI VON Á. VÁ. VIÐ ERUM ENDALAUST AÐ VERÐA OKKUR AÐ ATHLÆGI. 

Jóhannes (IP-tala skráð) 3.2.2010 kl. 23:40

26 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þvílíkur rugludallur ertu, Jóhannes. Ég nenni nú ekki fara í gegnum alla þessa þvælu þína hér og nú, en veiztu ekki af því, að í 1. lagi eigum við ekki að borga eitt einasta penny né evruklink vegna Icesave, í 2. lagi er Evrópubandalagið bótaskylt vegna tilskipunar 94/14/EC!, í 3. lagi var fjarlæging Ragnars Hall-ákvæðisins megnasta ranglæti, í 4. lagi á ekki að vera nein vaxtagreiðsla af greiðslusamningum með ríkisábyrgð, en Bretar brutu í yfirgangi sínum lög um jafnræði í EES og ætla þannig að snuða okkur um (185 til) 270 milljarða vegna vaxtanna einna saman fyrstu sjö árin! (sbr. þessa grein líka: Það skeikar hundruðum milljarða í Icesave-vaxtaútreikningum fjármálaráðherrans!), í 5. lagi er ástæðulaus ótti ykkar, kjarklitlu úrtölumenn, við afleiðingar þess að hafna Icesave, og í 6. lagi er rétt að þú sem aðrir hugleiðir, hvað gerist, ef Icesave-frumvarpið verður fellt.

Jón Valur Jensson, 4.2.2010 kl. 01:11

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna síðast á ég reyndar (nú orðið) við Icesave-ólögin frá 30. desember, þau sem Ólafur Ragnar hafnaði því að skrifa upp á á þeim góða degi 5. janúar 2010.

Jón Valur Jensson, 4.2.2010 kl. 01:13

28 Smámynd: Ólafur Als

Jóhannes,

heldur þykir mér leitt að þú snertir lítið á þeim punktum sem þú barst upp sjálfur. Ýmsar rangfærslur nenni ég ekki að fara ítarlega yfir, sbr. að rugla minnisblaði við samningsdrög, að telja að kröfurnar umfram greiðslur Breta og Hollendinga séu út úr sögunni, alranga túlkun á hvað ýmsum í stjórnarandstöðu gengur til o.fl. Verð þó að bæta við að Bretar og Hollendingar greiddu innistæðueigendum tilteknar upphæðir í stað tryggingasjóðsins, sem íslenska ríkið bar ekki ábyrgð á. Ef þrotabúið ætti að standa undir þessum upphæðum, þá er það velkomið að fara þá leið, sem varðar þá íslenksa ríkið lítið sem ekkert - og málið úr sögunni af okkar hálfu. Bretar og Hollendingar gætu þá sótt útlagt fé til gamla Landsbankans. Reyndar væri það í sjálfu sér gott mál í ljósi aðfarar breska ríkisins á hendur þess banka og afleiðingum hryðjuverkalaganna á breskan banka í eigu Kaupþings og í kjölfarið hruns þess banka. Það olli sannarlega stórum búsyfjum á Íslandi hvernig það mál þróaðist.

Að þú áttir þig ekki á því að fleiri hliðar séu á málinu en þá sem prófessorinn setur fram er vitanlega þitt mál - en ég lít svo á að fræðimaður geti ekki stuðst við einsýni í svona máli, að hann geti ekki gefið sér forsendur sem erfitt er að henda reiður á og reyndar fleira - reyndar svo miklu fleira, sem ég og fleiri hafa rakið.

Útskýsirng þín um að grein mannsins geti opnað augu útlendinga fyrir því að hér geti menn séð málin frá ýmsum hliðum er eins og að segja að hér geti menn hugsað. Ég geri ráð fyrir að fólk í útlöndum gangi út frá því sem vísu. Grein prófessorins staðfestir hins vegar að sú hugsun er ekki öll á besta veg. Síðan fellur þú um sjálfan þig þegar þú segir okkur í besta falli geta fengið örlítið betri samning - það er það sem málið snýst um í huga flestra - að fá BETRI samning en prófessorinn er ekki að agetera fyrir því.

Ég legg að lokum til, Jóhannes, að þú gangir í lið með þeim sem berjast fyrir betri samningum, sama hvað býr þar að baki. Það sem vakir fyrir fólki er að berjast fyrir hagsmunum íslenskra skattgreiðenda en því miður virðist þú vilja færa málið í skotgrafir samfylkingarstrumpanna, hvort sem þú tilheyrir nú þeim ágæta söfnuði eða ekki.

Áfram Ísland !

Ólafur Als, 4.2.2010 kl. 02:51

29 identicon

Ég vona aða ég hafi ekki sært þig Jón Valur

  1) Við eigum sem sagt ekki að borga penny; þó að allar reglur sega til um það; þó að aðrar þjóðir hafi borgað innistæðueigendum í samskonar tilfellum; þó að við höfum mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni eða varnarþingi útibús; þó að allir stofnanir, seðlabankinn, ráðherrar, og eigendur bankanna hefðu sagt að það yrði ALLTAF staðið við lágmarkstryggingun; þó að bresk stjórnvöld reyndu með öllum ráðum að hjálpa eigendum bankanna að koma þessu undan íslenskri ábyrgð. Þrátt fyrir allt þetta þá ber okkur sem sagt engin skylda á nokkurn hátt að borga eitt penny til baka.......................ja hérna hér.......

2) Þarna er akkúrat lagagreinin sem kveður á um ábyrgð Íslands. Gott hjá þér að benda á hana. 

3) Kannski, má vera, en það er líka margt í samningnum sem er "megnasta ranglæti" gagnvart Bretum, og margt af því sem íslensk fyrirtæki og Íslendingar hafa gert erlendis er "MEGNASTA RANGLÆTI". 

4) Þú vilt s.s. að við borgum þetta nú þegar. Jæja, allt í lagi gerum það þá.  HHHMmmm, bíddu en það þorir engin að lána okkur. Af hverju ætli það sé

5) Þú talar um kjarklausa úrtölumenn. Þú verður ekkert kjarkaðri á að reyna fela getuleysi ykkar Ice-save andstæðinga, með því að kalla aðra kjarklausa. Þið sjálfir beitið hræðsluáróðri gagnvart fólki, og segið að við getum bara "flutt til Kanarí"(smá sögulegt komment...þá hótun, en varð að veruleika undir öðruvísi kringumstæðum). Þú getur sjálfur verið kjarklaus. 

 6) Já, það verður nefninlega áhugavert að sjá hvað gerist þá. Allavega eru engar líkur á því að það verði samþykkt, hvors sem er. Maður hefur lítið geð í sér að samþykkja eitthvað svona. Maður verður einfaldlega að treysta stjórnvöldum, og þar sem stjórnarandstaðan, og flestir aðrir hafa komið með hriplekan málatilbúnað, þá skilar maður kannski auðu. 

     Þetta mál er líka það flókið að það er ómögulegt fyrir hinn almenna borgara að gera sér grein fyrir málinu. Einnig er einfaldlega svo margt sem þolir ekki dagsins ljós. 

                     Fyrst er kvartað undan leynd, og svo þegar leyndinni er aflétt, þá er kvartað yfir að skaða hagsmuni þjóðarinnar. Þessi Ice-save andstaða er virkilega aum. 

.................ég vil samt ekki borga............

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 03:03

30 identicon

Það er líka margt sem hangir saman með þessum samningum, t.d. get ég ekki ímyndað mér annað, en að þar séu ákvæði um hvernig á að taka á málunum hér heima. T.d. varðandi rannsókn á málunum, og að Ísland fái alla þá hjálp sem þeir geta fengið frá breskum yfirvöldum, til að finna sakamenn. Möguleiki að þar verði líka að finna núverandi og fyrrv. ráðherra.

  Þeir hafa s.s. misst æruna, en það þarf líka að komast að sannleikanum í þessum málum, með hjálp Breta. 

   Aftur á móti virðist lítill áhugi hjá stjórnarandstöðunni vera á að t.d. frysta eignir auðmanna, skoða gjaldeyrisbrask, o.s.frv. 

    Af hverju ætli það sé??!!!  ..............auðvitað vitum við öll af hverju það er. Aftur á móti óska ég þessu fólki góðs gengis að segja skilið við þessu vafasömu fortíð sína. 

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 03:19

31 Smámynd: Ólafur Als

Heyrðu Jóhannes, hvað gengur þér annars til? Ertu í einhverju stríði gegn hagsmunum skattgreiðenda þessa lands? Heldur þú að Bretar geti ekki sótt sitt mál af sjálfsdáðum? Líður þér eitthvað illa ef þér er bent á rangfærslur þínar, sem m.a. ganga út á það að þessi ábyrgð, lagaleg, siðferðisleg o.s.frv. er með ýmsum hætti? Það er merkilegt að þér tekst að lesa útúr tilskipunum eitthvað annað en til dæmis erlendir aðilar gera, sem hafa það m.a. fyrir starfa að rýna í textann og sitja í nefndum og ráðum sem fjalla um sama texta. Er það þér á móti skapi ef þessi texti og sitthvað fleira segir að íslenska ríkinu beri ekki að borga?

Að það hafi farið framhjá þér að lánalínur hafi verið lokaðar til Íslands í alla vega tvö ár sýnir að þú hefur ekki fylgst vel með.

Og þetta með leyndina. Ertu að bera blak af henni?

Að finnast það aum afstaða að verja hag íslneskra skattgreiðenda er afar sérkennilegt. Afar.

Ólafur Als, 4.2.2010 kl. 03:29

32 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér ægir öllu saman af vanþekkingu þinni, Jóhannes (ertu föðurlaus? – upplýstu um það, hver þú ert!). En nú er ég reyttur orðinn að áliðinni nóttu og svara þér með nýjum degi. En þú getur ekki þvegið það af þér að vera Samfylkingar-Icesave-maður, nema þú upplýsir um það, hvder þú ert. Leigupennar og málaliðar þeirra flokka, sem hafa hagað sér jafnilla og SF og VG hafa gert í þessu máli, fela sig gjarnan undir dulnefnum, og það er á sinn hátt skiljanlegt! Nú er hneisa ykkar að verða öllum augljós, við erum að sigra í þessu máli í 2. sinn á einum mánuði, og þú virðist ekki vita af því greyið.

Jón Valur Jensson, 4.2.2010 kl. 03:35

33 Smámynd: Ólafur Als

Ég legg til að þú hættir nú þessu mótþráaviðhorfi þínu og gangir af alvöru í lið með þeim sem vilja berjast fyrir bættum samningi - hvort sem þér líkar nú vel við skrif eða viðhorfum sumra eða ekki. Við sem erum t.d. í heimssýn deilum ekki skoðunum í mörgu en sameinumst í andstöðunni gegn inngöngu í ESB - sama á eflaust einnig við um þá sem vilja fara þar inn. Á sama hátt ætti það að vera sameiginlegt hagsmunamál allra Íslendinga að sækjast eftir betri samningum.

Ólafur Als, 4.2.2010 kl. 03:36

34 Smámynd: Jón Valur Jensson

ÞREYTTUR – eins og sést á ásláttarvillunum!

Jón Valur Jensson, 4.2.2010 kl. 03:36

35 Smámynd: Elle_

Ég neita að við hin, Jóhannes, séum með móðurskýki og ekki að rökræða.  Við þurfum ekki allar rökræðu-málalengingarnar ef Icesave-sinnar geta hætt að ýta að okkur ólöglegum rukkunum.  Og vegna þess að enginn lögmaður hefur getað fellt rök allra lögmannanna og lagaprófessoranna um að ísl. ríkið beri enga lagalega ábyrgð á Icesave.  Það kemur okkur og börnunum okkar ekkert við þó þú og Ómar að ofan og Jóhanna, viljið játast undir fjárkúgun og ofbeldi.  Við munum ekki gera það og það eru næg rök að sættast ekki á kúgun.  Málið snýst  kannski mest um æru okkar.  ÞAÐ ERU LÖGIN SEM GILDA, EKKI HÓTANIR OG KÚGUN. 

Elle_, 4.2.2010 kl. 13:28

36 identicon

Jóhannes, góður að venju.... lítill áhugi hjá stjórnarandstöðunni á rannsókn á verkum glæpahundanna...

Eru núverandi geislaBAUGS stjórnvöldin á útopnu í rannsókn þessa mála ??

Ég er að tala um ALVÖRU rannsókn þar sem bjöggar, ólafar, finnar, wernerar og  hagar Íslands eru teknir í gegn.

Fær ekki aðstoðar"maður" forsætisráðherra andþjóðernislegt holdris með gagnrýni sinni gegn Evu, okkar erlenda verndarengli og einnig með spurningunni "er ekki sama hvaðan gott kemur" ??

Eflaust væru gyðingar sáttir við innkomu verktakafyritækis sem himler væri í forsvari fyrir, og það  í Ísrael ?? Er ekki sama hvaðan gott kemur......

Aumur er ykkar málstaður !!

runar (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 14:38

37 identicon

Ellie,

  Eflaust eru einhverjir þarna úti, sem eru af einlægni á móti þessum samningum, en ekki í einhverjum hráskinnaleika. Kannski, og ætla ég ekkert að gera lítið úr "baráttu" sumra á móti þessum samningum. Menn verða samt að passa sig að hlusta of mikið á stjórnarandstöðuna, og missa sig í flokkspólitík. Það er aftur á móti nákvæmlega það sem hefur gerst í þessu máli, nánast í öllum atriðum

 runar, 

    Þetta þvaður í þér er nú bara þvaður. Ég get alveg viðurkennt, og gagnrýnt stjórnvöld þar sem það á við. Aftur á móti, þegar þú ætlar að gagnrýna, þá verður þú líka að líta á stöðu og verk fyrri stjórnar, sem gerði nákvæmlega ekkert. 

   Við skulum aðeins rifja upp útnefningu Evu Jolie. Ég þekkti aðeins til starfa hennar, og fannst þetta mjög sniðugur leikur. Aftur á móti voru margir virkilega óánægðir, og sökuðu menn um undirlægjuhátt við útlendinga, og töldu að við gætum alveg leyst þetta sjálf. Til þess höfðum við nægt gott fólk, sem gæti skoðað hlutina á hlutlægan hátt, og allt væri í himnalagi. Þetta átti bara að fara sína venjubundnu leið, og svo videre;- ERGO= Það hefði ekkert verið gert. 

  Ég verð að segja eins og er að andrúmslofti hérna minnir mig helst á grískan harmleik Menn tala svo illilega gegn sannfæringu sinni(geta kannski verið á móti Ice-save, en engin rökstuðningur). Svo ótrúlegt að menn geti ekki séð að þetta ástand er afleiðing algjörs sinnuleysis stjórnvalda í að vilja sjá nokkurn skapaðan hlut. Reyndar fannst mér ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósinu um að endalaust klúður hjá útrásarvíkingum og stjórnkerfinu kæmi sér á óvart. 

   Auðvitað vissu stjórnvöld á sínum tíma hvað var í gangi hérna. Þau veðjuðu bara á að þetta kerfi myndi halda sér!! 

   Þú talar um auman málstað. Hver í andsk.... er málstaður minn. Ég hef engan málstað í þessu máli. Aftur á móti hafa þínir líkir MÁLSTAÐ að verja í þessu máli, af einverjum ástæðum

  Þú segir í einu orðinu að þú viljir berjast fyrir Ísland, og aldrei segja eitt orð sem hallar á þá baráttu. Síðan býstu við að vera hæfur til málefnanlegara rökræðu um þetta mál. WAKE UP AND SMELL THE COFFEE!!

     KVEÐJA, nemi, og hægri maður.

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 15:47

38 identicon

Þú ert ágætur Jóhannes. Ég virði þína skoðun þótt mér finnist hún fáránleg.

Ég stend með Íslandi, ekki neinum flokki !!

Ég er vissulega til í slag fyrir mitt fólk.

Ég, líkt og þú er einnig nemi, en ólíkt þér, þá er ég vinstri maður. Þess vegna geri ég stórar kröfur á núverandi stjórnvöld og er harkalega fúll yfir getuleysi nýju herrana.

D flokksóværan er hroði mikill, en það sem tók við er engu betra og þess vegna er ég urrandi fúll !!

runar (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 17:53

39 identicon

Ég held samt að það sem tók við er aðeins skárra, þó að mér er þvert um geð að segja það....en svona er þetta nú. Við skulum allavega vona að við Íslendingar lærum eitthvað af ruglinu sem var hérna. Það verður bara að vera svo. Eitt af því er að líta í eigin barm, og vona ég að við höfum þroska til að gera bæði, þ.e. líta í eigin barm, og passa upp á hagsmuni okkar í víða samhenginu erlendis.

Jóhannes (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband