Berlínarmúr velferðarstjórnarinnar.

Fjölmiðlar flytja nær endalausar fréttir af því að almennar niðurfærslur lána séu ekki mögulegar. Við, sem teljum slíka leið færa, tjáum okkur að vísu í bloggheimum og á mannamótum - en stjórnvöld, ríkisútvarpið og einkafjölmiðlarnir stærstu láta sér fátt finnast. Sú skjaldborg, sem slegin hefur verið um fjármagnseigendur - sem að hluta erum jú við öll í gegnum lífeyrissjóðina - virðist óyfirstíganleg og ofan á virkinu stendur forsætisráðherra í fullum herklæðum með sína klofnu tungu. Skjaldborgin er orðin að Berlínarmúr; í stað þess að vernda almenning frá hákörlum, kemur hún í veg fyrir að almenningur hafi nokkuð um hagi hákarlanna að segja.

Ég hef sagt að 18% almenn niðurfærsla kunni að vera of kröpp aðgerð. Hef lagt til að fara í ca. helming, t.d. 9-10%. Teldi það afar sanngjarnt út frá alls kyns sjónarmiðum, m.a. til þess að skapa sátt, ryðja veginn fyrir samningum í vetur, hægt en sígandi auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu og þar með ýta undir nokkur hjól atvinnulífs og skapa störf. Að hve miklu leyti þetta myndi vega upp á móti kostnaði með auknum skatttekjum og auknum greiðslum í lífeyrissjóði er óvíst. Það virðist enginn hafa haft fyrir því að setja upp reiknistokkinn á slíka leið og komast að vitrænni niðurstöðu, í stað þess velja stjórnvöld að hlusta á úrtöluraddirnar en ekki á hróp almennings.

Fjármálastofnanir hafa í raun þegar lagt til hliðar fé til þess að mæta verstu skuldatilfellunum. Það gefur augaleið, að veðsetning sumra eigna er með þeim hætti að afskriftir verða verulegar. Síðan þarf að leysa húsnæðisvanda þeirra sem missa alfarið eignir sínar. Í það munu fara einhverjir fjármunir, taldir í milljörðum. Blanda þessa og hinnar almennu niðurfærsla er lausn sem tekur tillit til flestra, nema menn líti svo á að fjármagnseigendur eigi ekki að bera nokkurn skaða af hruninu. Það kynni einhver að segja að væri ekki nýlunda en hugsunin er eftir sem áður frek og í andstöðu við almenna hagsmunagæslu.

Stjórnvöldum ber að dreifa byrðinni eftir bestu getu. Augljóst er að henni er að mistakast í þeim efnum. Mistök núverandi yfirvaldi í efnahagsstjórninni og allri almennri hagsmunagæslu hefur náð áður óþekktum hæðum. Innsti kjarni stuðningsmanna reyna þó enn að benda á Dabba og Halldór, pólitísku frasarnir eru á hraðbergi um nýfrjálshyggju og hvaðeina - flestir vita reyndar ekki hvað í orðinu frjálshyggja felst; vita t.d. ekki að sú stjórnmálastefna var megin hvatinn að baki stjórnarbyltingunum vestan og austan hafs, sem reynda að kasta af sér oki aðals og konunga og leggja drög að stjórnarskrám Vesturlanda.

Einhver kynni að segja að við Íslendingar ættum ekki annað skilið en þá stjórnmálamenn, sem við höfum kosið yfir okkur. Í Reykjavík var hinum hefðbundnu stjórnmálaöflum refsað dyggilega en í staðinn fengum við Reykvíkingar trúð við stjórnvölinn, sem tjáir sig einna helst um erfiðleika í starfi en minnist vart á erfiðleikana sem snúa að borgurunum. Við Reykvíkingar hljótum að eiga slíkt skilið, góður þriðjungur kjósenda gaf Besta flokknum atkvæði sitt og þar með lyklana að stjórn borgarinnar. Ég hef hins vegar engann áhuga á stjórnmálaleiðtogum sem eru í fíflaskap og persónulegu óöryggi. Ég vil að þeir taki af alvöru á þeim vanda sem að þeim snýr og ef það gerir þá eilítið leiðinlega, fyrirgef ég þeim það; þeir eru jú að vinna að hag mínum en ekki að skemmta mér eða sinna sérhagsmunagæslu.


mbl.is Niðurfærsla talin bótaskyld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband