10.2.2007 | 15:39
Hægri grænn = umhverfisvernd med málamiðlunum
Í umræðunni um umhverfismál hér á landi gætir fjölmargra sjónarmiða, allt frá öfgafullri umhverfisvernd yfir í fölskvalausa stóriðjustefnu. Umhverfisvernd af hvers kyns tagi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum jafnframt því að s.k. stóriðjustefna hefur átt undir högg að sækja. Sem aldrei fyrr er tekist á um þessi mál en umræðan og baráttan hefur verið óvægin og máluð sterkum litum. Ein birtingarmynd umhverfisverndar hefur því miður verið sem úr smiðju öfgaafla fyrri tíma og fulltrúar þeirra hafa stundum haldið umræðunni um umhverfismál í gíslingu með ofbeldi og vafasömum áróðri. Á meðan hafa sjónarmið sem vilja sjá fram á sættir og horfa til málamiðlana ekki fengið ad njóta sín.
Eftir að hugsjónaeldar sósíalismans kulnuðu, ásamt fleiri áföllum á vinstri væng stjórnmálanna, hafa all margir vinstri menn verið ötulir talsmenn umhverfisverndar án málamiðlana en ekki allir þó. Í henni hafa margir fundið nýjan tilgang fyrir sín gömlu baráttumál og sumpart brostnu drauma; n.k. réttlætingu fyrir undangengin mistök og jafnvel fært í búning trúarbragða. Í ofanálag hafa ýmsir aðrir ákveðið ad fylkja sér undir þennan fána þar sem náttúran er færð á stall ofar mönnum og í baráttunni fyrir vernd hennar eru meðölin sveipuð heilögum tilgangi.
Náttúruvernd hefur vitanlega verid mönnum hugleikin langt út fyrir raðir vinstri manna, m.a. byggð á draumum um fegurra Ísland og bættri umgengni um landsins gögn og gæði. Draumar af þessu tagi hafa t.a.m. ýtt úr vör landgræðslu og skógrækt sem landið hefur þurft á ad halda eftir þúsund ára illa meðferð. Á allra síðustu árum hafa m.a. yfirvöld lagt æ ríkari áherslu á þetta starf, sérstaklega í formi skógræktar. Til viðbótar þessu má benda á að jarðvegur á Íslandi er vegna gosefnainnihalds vel til þess fallinn ad binda koltvísyring. Á þessum vettvangi bíða því Íslendinga mikil tækifæri, ekki bara til þess ad græda landid og fegra, heldur jafnframt ad leggja baráttunni gegn losun gródurhúsalofttegunda lið.
Æ fleiri segja að nóg sé komið af vatnsaflsvirkjunum og áformum um fleiri álver og tiltaka fjölmörg rök máli sínu til stuðnings. Eins og málin hafa verið sett fram virðist sem sátt um þennan málaflokk sé ekki framundan. Ef svo reynist yrði fyrsta fórnarlamd þessara átaka lýðræðið. Í ljósi öfganna er ljóst að full sátt mun aldrei nást en einhvers konar millivegur verður að finnast sem felur í sér skynsamlega nýtingu þeirrar orku sem landið hefur upp á að bjóða samfara vernd helstu náttúruperla landsins. Fyrir þessu mættu allir skynsamir menn berjast, hvar í flokki sem þeir finnast. Fyrir þessu mættu s.k. hægri grænir berjast, þ.e. umhverfisvernd med málamiðlunum.
Med því að nýta hina vistvænu orku landsins leggjum við okkar af mörkum á vogarskálum baráttunnar gegn auknum gróðurhúsalofttegundum í andrúmslofti. Med því að gefa umhverfisvernd aukið vægi, eins og vera ber, mun áformum um vatnsaflsvirkjanir fækka verulega en jafnframt getum við med aukinni tækni horft fram til þess að virkja jarðhita í auknum mæli á stöðum sem falla utan þeirra svæða sem við viljum vernda. Í mínum huga er þetta sú lausn sem allir frjálslyndir menn ættu að leggja áherslu á, grænir eður ei, en jafnframt vinna að aukinni uppgræðslu lands og verndun umhverfisins, heima í héraði eða á vettvangi landsmálanna.
Sérhver virkjanaáform í framtíðinni og nýting okkar vistvænu orku verða ad uppfylla skilyrði um umhverfisvernd, fjárhagslega afkomu, sátt við íbúa og aðlögun að almennri efnahagsstjórnun í landinu. Menn skyldu hafa í huga að sérhver framkvæmd af þessu tagi er ad auki framlag til þess að spara útblástur kola-, olíu- eda gasorkuvers annars staðar í heiminum. Sátt um slík sjónarmid eru vonandi framundan og undir slíka sátt geta hægri grænir vonandi skrifað undir. Alla vega geri ég það.
Athugasemdir
Lokaorð greinar þinnar segir allt sem segja þarf í umhverfismálum. Hægri-grænn er svo sem ágætis hugtak yfir þá einstaklinga sem eru á sömu skoðun og koma fram í þessari grein svona til aðgreiningar frá vinstri-grænum sem virðast vilja vernda alla náttúru. Nauðsynlegt er að opin umræma fari fram og síðan fái lýðræðið að njóta sín e.t.v með þjóðaratkvæðagreiðslu um virkjanakosti. Eða treysta alþingismenn ekki íbúum þessa lands eða er stórum meirihluta íbúa allveg nokk sama.
birgir guðjónsson (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.