3.3.2007 | 15:34
Forræðishyggjan er marghöfða skepna.
Við umræður um ýmis málefni er mönnum tamt ad leggja fram ráðleggingar sem varða okkur hin. Eitt gott dæmi er óhollt mataræði. Félagshyggjuflokkarnir á alþingi vilja með sínum góða ásetningi hafa áhrif á neyslu samborgara sinna med boðum og bönnum. Frjálslyndir menn og skynsamir eru þessum boðum og bönnum ósammála, svona almennt séð alla vegana. Vegna þess að sum mál varða okkur meira en önnur geta þau öfl sem þrýsta á um frekari leiðsögn ofan frá, til handa borgurunum, treyst því að við hin sameinumst ekki um að þrýsta á móti.
Vegna þess að við búum í flóknu samfélagi getum við ekki haft áhuga á öllum innviðum þess. Við eigum jafnvel í vandræðum með að sinna öllum okkar áhugamálum - en við getum treyst því að sérhvert málefni á sér sterka fylgismenn þar sem menn eru tilbúnir til þess að láta festa sinn góða vilja í lög og opinber fjárútlát. Þessi aðferð hefur tryggt að hið opinbera er komið med sína velviljuðu fingur í nær öll okkar mál. Í ofanálag er málfrelsi okkar settar skorður í víggirtum faðmi pólitískrar rétthugsunar þar sem fjölmiðlar dansa alla jafna í takt og sérhver andmæli eða óvinsæl skoðun gerð útlæg.
Það er löngu tímabært að slá skjaldborg um rétt einstaklinganna til þess að ráða eigin málum frekar. Slíkur réttur felur m.a. í sér frelsi til þess að hafa rangt fyrir sér, frelsi til framferðis sem mögulega skaðar okkur sjálf en ekki aðra, frelsi til þess að halda fram óvinsælum skoðunum - vegna þess að þannig viljum við hafa það. Vegna þess að við erum bestu dómarar þess hvað er okkur fyrir bestu en ekki misvitrir fulltrúar forræðishyggjunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.