Er græna byltingin ferð til fjár?

Evrópusambandið hefur komist að samkomulagi um að auka vægi endurnýtanlegra orkugjafa í framtíðinni. Því til viðbótar mun kjarnorka spila stærri rullu á komandi árum, m.a. til þess að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Horfa menn einkum til vind- og rólarorku enda fátt annað sem býðst nema til komi ný tækni. Enn fremur verður í auknari mæli væntanlega horft til bættari orkunýtingar en ýmsar hugvitssamlegar lausnir i þeim efnum hafa litið dagsins ljós á seinni árum, m.a. við skipulagningu byggðar.

Gera má ráð fyrir að þessi háleitu markmið muni kosta sitthvað en á móti kemur að til langframa mun iðnaður sem tengist framleiðslu vindmylla og sólarorkustöðva eflast og um síðir skila einhverju í kassann. Hér er vitanlega verið að horfa til þess að "græna byltingin" mun m.a. verða studd af markaðsöflum með bættri tækni og lækkun framleiðslukostnaðar sem mun gera hina nýju tækni aðgengilegri fyrir alla jarðarbúa.

Hins vegar hefur verið á það bent að m.a. framleiðsla sólarraforkustöðva sé afar mengandi, að ekki sé minnst á hve mikið landrými fer undir þær. Eins eru vindmyllur fyrirferðarmiklar og að sínu skapi sjónmengun. En í þessu verður ekki bæði haldið og sleppt. Þetta þekkjum við m.a. frá Íslandi þar sem ýmsir virkjunarkostirnir fela í sér skerðingu á öðrum landgæðum.

Hræðsluáróður í tengslum við heimsendaspár er farinn að hafa áhrif í hugum margra og er það miður. Eitt er að horfa framan í vandamál og reyna að leysa þau með yfirvegun og skynsemi - annað er að hrópa á torgum endalok siðmenningarinnar en svo virðist sem margur góður drengurinn hafi fallið í þá gryfju. Þrátt fyrir að ég sé ekki aðdáandi Evrópusambandsins er mögulegt að með þessu samkomulagi ráðamanna þess sé framundan vaxtarskeið iðnaðar og viðskipta sem stutt geti hina s.k. grænu byltingu. Við sjáum til hverju fram vindur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Vissulega fer mikið landrými undir sólarraforkustöðvar þ.s ef þær eiga að vera afkastamiklar. Hinsvegar vill ég benda á að þær eru afturkræfar. Við getum skilað landinu aftur til komandi kynslóða í sama horfi.

Undanfarin tvö, þrjú ár hafa stórhýsi í U.S.A. verið rekin með sólarrafhlöðum sem duga fyrir daglega notkun. Þetta er gert með nýrri tækni þar sem sólarrafhlaðan er sett í sjálfa gluggana í byggingunni sem síðan umbreytir sólarorkunni í rafmagn sem sparar víst mikið í rekstarkostnaði.

Birgir Guðjónsson, 9.3.2007 kl. 22:48

2 Smámynd: Ólafur Als

Hér kemurðu inn á svið sem þegar er í mikilli gerjun, sem snýr að n.k. byltingu á heimavelli. Merkilegt nokk, með nýjustu sólarsellum geta hús jafnvel í henni Skandinavíu nýtt sér orku sólarinnar til þess að draga verulega úr orkukaupum og eftir því sem sunnar dregur, jafnvel framleitt umframorku. Bætt tækni og lægri framleiðslukostnaður gæti orðið til þess að almenn raforkunotkun yrði að stóru leiti knúin áfram með sólarsellum, vindmyllum eða öðrum hreinum orkugjöfum - en slík framtíðarsýn er æði langt undan.

Hér í Danmörku, þar sem ég bý tímabundið, er horft aukinna til tækifæra í smíði og sölu vindmylla en Danir eru framarlega á því sviði. En ég kom reyndar inn á að þessu fylgdi verðmiði: land á borð við Pólland fær 95% sinnar orku með brennslu olíu og kola og skref í átt til nýtingu hreinna orkugjafa er þeim og fleiri löndum í austanverðri Evrópu afar dýrt í upphafi - að ekki sú nú talað um aðra stóra hluta heimsins.

Ólafur Als, 10.3.2007 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband