Verðug verkefni

Ég vil ítreka það hér að ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fara vel yfir stöðuna á næstunni og hreinsa til í sumum málaflokkum. Að vísu er ekki von á neinni byltingu í þeim efnum, stuðningsmönnum flokksins er mörgum illa við miklar breytingar þegar flokkurinn er við stjórn. Einu sinni var boðið upp á kúvendingu í stjórn efnahagsmála, sbr. hugmyndir um leiftursókn gegn verðbólgu árið 1978, en það féll ekki í góðan jarðveg hjá kjósendum - þrátt fyrir að eflaust hefðu þær hugmyndir flýtt fyrir að leiðrétta innbyggða vankanta efnahagskerfisins á þeim tíma.

Boðun mikilla breytinga er hægt að túlka sem vantrú á fyrri gjörðir og stefnu. Eftir sem áður hafa ýmsir aðilar gefið frjálslyndum öflum tækifæri til þess að setja fram spennandi markmið á sviði skattamála, menntamála, heilbrigðismála og umhverfismála. Frjálslyndir jafnaðarmenn hafa t.d. tekið undir eldri hugmyndir, eða viðrað nýjar, um hagræðingu í mennta- og heilbrigðismálum. Vinstri menn hafa sumir endurómað hugmyndir um breytingar á skattkerfinu í þá átt að samræma skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja. Ungt fólk í öllum flokkum tekur í auknari mæli undir viðhorf sem afneita forræðishyggju, reyndar með eftirtektarverðum undantekningum hjá róttækum femenistum en málflutningur þeirra er kapituli út af fyrir sig.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að setja fram trúverðuga stefnu sem tekur mið af breyttu viðhorfi fjölmargra Íslendinga í umhverfismálum, ellegar missir hann æ fleiri kjósendur annað. Hér bíður verðugt verkefni þar sem hugmyndir um frekari uppbyggingu orkuvera og/eða stóriðju yrðu háðar strangari skilyrðum um umhverfisvernd. Menn mega, eftir sem áður, ekki gleyma að fjölmargir Íslendingar eru reiðubúnir til þess að virkja landsins gögn og gæði svo fremi menn uppfylli skilyrði um sátt við íbúa, mengunarvarnir, arðsemi, vernd náttúruperla og aðlögun að almennri efnahagsstjórn.

Fleiri málaflokka mætti nefna en mest er um vert hvernig þessi baráttumál verða kynnt - að almennur kjósandi telji að stefnumiðin muni gagnast þeim. Frambjóðendur Sjálfstædisflokksins ættu sem best að beina orðum sínum að kjósendum en eyða ekki um of miklum tíma í að rífast um gærdagsins gjörðir. Fyrri tíð má reyfa í stuttu máli en mestu er um vert að standa fast á sínu og bjóða upp á lausnir sem bæti hag borgaranna og jafnframt að huga að þeim sem minna mega sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband