12.3.2007 | 16:49
Af sjálfhóli krata
Í gegnum árin hefur maður heyrt ýmislegt um ágæti jafnaðarstefnunnar og af fyrirmyndum hennar. Hér áður fyrr héldu íslenskir kratar vart vatni yfir velferðarríkjum Skandinavíu og bentu óspart á hve gott allir hefðu það í þeim heimshluta. Á þeim sviðum, þar sem íslenskir jafnaðarmenn og róttæklingar höfðu komið sér vel fyrir, s.s. á sviði mennta-, menningar- og félagsmála, var jafnan sótt í smiðju Svía um hvers kyns ráð og lausnir. Þetta átti m.a. sinn þátt í því að margir Íslendingar fengu sig fullsadda af skandinavískri forræðishyggju.
Jafnaðarstefnan er öðrum þræði ríkisvarin uppeldisstefna þar sem lausnir í efnahags- og félagsmálum eru sprottin af pólitískri rétthugsun en ekki frjálsræði. Á áttunda áratugnum beið hin kratíska efnahagsstefna skipbrot, sbr. gjaldþrot sænska velferðarkerfisins og fleiri dæmi. Vöggustofu sósíalisminn var ekki einasta afburða leiðinlegur heldur tæmdi hann budduna: Hið blandaða hagkerfi N-Evrópu þoldi ekki forræðistök verkalýðsfélaga og útþenslu skrifræðisins. Með falli sósíalismans gafst krataflokkum Evrópu gullið tækifæri til þess að taka veigamikið skref til hægri og meðtaka markaðsvædda efnahagsstefnu. Að vísu eru all margir jafnaðarmenn ekki án samviskubits vegna þessa því þeir eru ekki allir frjálslyndir í eðli sínu - en þeir láta sig hafa það vegna þess að þeir ætla að gera svo gott með alla þá peninga sem þeir geta fengið frá hinum annars vondu kapítalistum.
Það er fagnaðarefni að jafnaðarmenn hafi afneitað svo víðtækri forræðishyggju í efnahagsmálum sem þeir áður aðhylltust. Ymiss annar málflutningur hefur og tekið á sig annan blæ í átt til frjálslyndis og nú er svo komið að krataflokkar víða um Evrópu líkjast æ meira hinum s.k. borgaralegu flokkum. Eitt skýrasta dæmið um þetta er ríkisstjórn Tony Blair í Bretlandi. Á sama tíma hafa margir hægri flokkar eflt hið félagslega forræði í sínum stefnuskrám og er Sjálfstæðisflokkurinn t.d. engin undantekning þar. Þessar breytingar endurspeglast í tvennu: annars vegar að miðjan hafi færst til hægri og hins vegar að æ fleri sækist inn á miðjuna.
En forræðishyggjan kraumar undir niðri í mörgum og er ávallt reiðubúin að leggja sitt af mörkum. Umræðan um róttækan femenisma sýnir þetta glöggt og svo hefur hún einnig fundið sér nýjan vettvang í róttækri umhverfisvernd. Á því sviði hafa t.d. hin borgaralegu og frjálslyndu öfl ekki fundið fjölina sína eins og glöggt má sjá í skoðanakönnunum. Helsti málsvari róttækrar umhverfisverndar vill efla forræði hins opinbera og vegna eldheitra viðhorfa í umhverfismálum, sem í senn eru þjóðleg og róttæk, eru fjölmargir reiðubúnir til þess að horfa framhjá frjálslyndum viðhorfum sínum í öðrum málaflokkum.
Í viðleitni sinni til þess að einoka miðjuna í íslenskum stjórnmálum, og um margt líkja eftir framgangi þess flokks sem þeir vilja velta af stalli, hafa erindrekar jafnaðarstefnunnar gleymt að næra forræðisöflin og það er að koma þeim í koll. Sjálfumgleðin yfir nýfenginni stöðu hefur villt þeim sýn og nú eru þeir að súpa seiðið af því að hafa ekki verið í málefnaforystu í jafn mikilvægum málaflokki og umhverfismálin eru orðin. Aðrir flokkar fara ekki varhluta af þessu heldur og allt eins víst að framundan muni baráttan taka á sig forvitnilegar myndir. Hin forna sjálfumgleði kratanna hefur t.d. tekið á sig þá mynd að halda því fram að allir séu inn við beinið jafnaðarmenn. Hér skjóta menn vitanlega hátt yfir markið því hér er lagt út frá þeirri reginfyrru að óskin um að allir hafi það gott tengist jafnaðarstefnunni umfram aðrar stefnur.
Þrátt fyrir að fullvissa jafnaðarmanna um eigið ágæti sé yfirþyrmandi og leiðigjörn verður ekki annað sagt en að hún er mun álitlegri en hin eldheita forræðishyggja sem birtist hjá frændum og systkynum þeirra til vinstri. Fjölmargir jafnaðarmenn eru skynsamt fólk og viðræðuhæft, sem á köflum eiga góða frjálslynda spretti, en vont er ef satt reynist að þeir eigi minni hljómgrunn nú vegna skorts á forræðishyggju. Eftir stendur að nú bíður allra frjálslyndra afla verðugt verkefni við að kveða niður forræðisdrauginn sem nærist á umhverfisstefnu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.