Frá, frá, þingmanni liggur á - eða var það ráðherra?

Enn á ný stefnir í færibandaafgreiðslu þingmála í lok þings. Mér er það algerlega óskiljanlegt af hverju þingmenn hafi ekki fyrir margt löngu tekið á sig rögg og lagt grunn að nýjum starfháttum með það að leiðarljósi m.a. að koma í veg fyrir upphleðslu mála af þessu tagi. Mér er í raun sama hvort stjórnarliðar eða andstæðingar eiga hér stærri sökina, nú verður þingheimur að taka sig á, stokka spilin og gefa upp á nýtt. Virðing alþingis er hér m.a. að veði.

Sumir finna að því hve þingið varir stutt og að alþingismenn uppfylli ekki einhvers konar vinnuskyldu. Þeim áhyggjum deili ég ekki enda felast störf þingmanna í mörgu öðru en að sitja þingfundi. Miklu fremur mætti dreifa vinnutímanum yfir árið og brjóta upp innihald þingfunda enn frekar. Er mögulegt t.d. að fjölga fyrirspurnartímum sem gætu m.a. reifað álitamál hvers tíma? Setja forsætisrádherra fyrir að mæta oftar og gera grein fyrir og svara fyrirspurnum? Setja hefðbundnar fyrirspurnir til ráðherra í annan farveg þar sem þingmenn spyrðu ráðuneitin milliliðalaust eða e.t.v. í gegnum sérstakan embættismann þingsins?

Ekki verður komist hjá því að minnast á ræðutíma þingmanna og þingfundi fram á nætur. Endurbætur hafa vissulega átt sér stað en hér má gera betur. Of oft hefur alþingi breyst í íþróttamót þar sem hver maraþonfundurinn rekur annan og pirringur og vanstilltar yfirlýsingar flæða frá Austurvelli yfir land og lýð - að ekki sé nú talað um leiðindin! Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur þingræðið í sumu látið undan gagnvart framkvæmdavaldinu og ýtt enn frekar undir upphleðslu mála og almennan pirring.

Alþingi er vettvangur lagasetningar og stjórnmálaumræðu. Hófsemi, virðing og skynsemi hafa ekki verið efst á mælendaskránni um langt skeið enda sér þess merki í fallandi virðingu almennings fyrir æðstu stofnun landsins. Sá sirkus sem kenndur er við fjölmidlana hefur dregið lappirnar í þessum efnum enda nærast margir fjölmiðlamenn á rifrildinu og pirringnum sem einkennir sum samskipti alþingismanna. Maður saknar þess að sómamenn, karlar og konur, stigi fram og kalli á breytingar. Er hér ekki t.d. kjörið tækifæri fyrir þingkonur að taka sig saman og syna þingheimi fram á ágæti kvenlegra viðhorfa? Alla vega þarf að koma fram þverpólitískur þrýstingur til þess að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum breytingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband