Af lögum um hringamyndun

Lögin um hringamyndun vestur í henni Ameríku hafa verið til umræðu á meðal fræðimanna og leikmanna þar um langan aldur og hafa frjálshyggjumenn aðallega gagnrýnt tilvist þeirra með ýmsum góðum rökum. Í mínu námi hafði ég prófessor sem kenndi viðskiptasiðferði, Dominick T. Armentano, sem er á meðal leiðandi andmælenda þessara laga og sýndi hann fram á með forvitnilegum dæmum og fræðilegum tökum hvernig lagasetning af þessu tagi vinnur gegn hagsmunum neytenda.

Með lagasetningu, sem er ætlað að koma í veg fyrir markaðsráðandi stöðu eins aðila á markaði, hefur verið stuðst við skilgreiningu á innviðum markaðar sem best á að tryggja hag neytenda. Nú, hundrað árum síðar, sýnir reynslan að lagasetningin frá 1906 í USA og síðari viðbætur, hefur ekki náð að tryggja hag neytenda sé hann mældur í verði á vöru og þjónustu. Bent er á að lögin hvíla á þeim gallaða grunni, að einungis samkeppni með fjölda keppenda á markaði tryggi lægsta verð vöru og þjónustu, þ.e. að fákeppni geti einungis falið í sér hærra verð og slakari þjónustu.

Vandamálið er hér af tvennum toga. Í fyrsta lagi er næsta víst að með því að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili stækki um of er skussinn verðlaunaður á kostnað hins duglega (sjá m.a.: http://runaro.blog.is/blog/runaro/entry/149468/). Rökin að baki lögunum eru þau að með því að halda í sem flesta samkeppnisaðila er tryggt að einn aðili ráði ekki markaðnum og misnoti sér aðstöðu sína til þess að hagnast umfram það sem eðlilegt er. Að slíkur aðili geti ekki boðið vöru og þjónustu tímabundið til þess eins að sölsa undir sig markað og því næst misnota sér aðstöðu sína til þess að hækka verð. Reynslan sýnir að þessar áhyggjur eru ekki verðskuldaðar eins og eðli viðskipta í stærra samhengi sýna vel.

Önnur megin brotalöm laganna snýr að skilgreiningu á umfangi og eðli markaðar. Vegna þess hve margir innviðir markaðshagkerfisins eru gagnsæir er gengi sérhverrar atvinnugreinar stöðugt borið saman við gengi annarra. Ef eitt fyrirtæki reynir, vegna ráðandi markaðsstöðu, að tryggja sér hagnað umfram það sem kalla má efnahagslega eðlilegt, er næsta víst að fyrirtæki úr óskyldum greinum (eða öðru landi!) vilja taka þátt í veislunni. Til langframa sýna dæmin að þetta hefur dugað til þess að halda aftur af fyrirtækjum sem hafa áunnið sér slíka stöðu. Önnur hlið á sama teningi er meira tæknileg, en afar lýsandi fyrir vanda löggjafans og þeirra sem eiga að framfylgja lögunum, en hún varðar hvernig við skilgreinum suma markaði og hvort það sé yfir höfuð mögulegt.

Vandi löggjafans kristallast í lítilli dæmisögu sem þar sem einfaldlega er spurt: Ef þú eignast t.d. öll appelsínutré heimsins muntu þá hafa einokun á markaði? Svarið er vitanlega nei, því þrátt fyrir að þú gætir aleinn sinnt neytendum, sem ekkert láta inn fyrir sínar varir annað en appelsínusafa, keppa framleiðendur nær allra annarra svaladrykkja (vatn, gosdrykkir, mjólk o.m.fl.) um hylli neytenda. Að ekki sé nú talað um að sumir myndu fjárfesta í ræktun appelsínutrjáa á nýjum stöðum og með tímanum brjóta á bak aftur einokun þína á appelsínuafurðum.

Þessi hráa gagnrýni á hringamyndunarlög er háð ýmsum skilyrðum, m.a. að hið opinbera trufli ekki um of myndina á öðrum sviðum, m.a. með veitingu einkaleyfa eða sértækra ívilnana, að starfsemi utan laga og réttar sé ekki verulega umfangsmikil og svo vitanlega tilvist ríkisfyrirtækja. Annmarkarnir sýna í raun fram á réttmæti gagnrýninnar þar eð samkeppnisaðilar eiga afar erfitt uppdráttar gagnvart fyrirtækjum með slík sérréttindi, sem geta í skjóli þeirra krafist hærra verðs en ella. Óhagræðið og hærra verðlag, sem af þessu leiðir, er síðan sótt í vasa neytenda, því alla jafna er hér um að ræða vöru eða þjónustu sem þorri fólks getur ekki verið án.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband