17.3.2007 | 19:54
Steikt lifur
Fékk mér kálfalifur í kvöld, næstum bleika en þó ekki, með steiktum lauk, brúnni sósu og kartöflum. Meiraháttar veisla fyrir bragðlaukana. Komst í uppáhald eftir að mér lærðist að meðhöndla þennan úrvalsmat með natni og af virðingu. Ósjálfrátt rifjast upp sá tími þegar íslenska lifrin minnti á illa elt skinn og fátt annað sem vakti jafn litla kátínu hjá ungmennum, nema ef vera skyldi dönskukennsla. Gilti þá einu hvort lifrin var falin í þykkri, brúnni sósu með lárviðarlaufum og borin fram með úrvals kartöflum. Kartöflurnar hurfu og sósan með en ólseiga lifrin dagaði uppi, illa tuggin á börmum diska á heimilum um land allt.
Danska lifrin bragðaðist vel, kartöflurnar þokkalegar, en eins og gefur að skilja stendur sú íslenska þeirri dönsku framar - úha! Fróm íslensk remba á verðugan fulltrúa í rétt steiktri lambalifur með gullauga kartöflum (rauðum fyrir þá sem endilega vilja þær!). Í næstu heimsókn upp á klakann verður það lifur, heillin, ásamt ýsu, malti og öllu hinu. Var að fá mér viskí á klaka. Brosið breikkar. Kíki kannski á kaffihús á eftir. Sjáumst!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:00 | Facebook
Athugasemdir
Merci - ég held að orðið lungamjúkt hafi ekki orðið hluti af íslensku máli fyrr en mamma þín og tengdó lærðu listina - reyndar ásamt með fleirum af þeirra kynslóð.
Ólafur Als, 17.3.2007 kl. 20:25
Heyrðu Ólafur, held að þú sért búinn aðeins og lengi í Danmörku. Þyrftir að koma til Íslands í nokkra daga. Hvaða virðing er það eiginlega að elda lifur??
kv.
Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 11:56
Svona verður maður að hegða sér í henni Danmörku, Steini - ekki ráð á öðru en að elda sér ódyra lifur - lítið eftir í buddunni, eftir að skattarnir hafa rúið mann inn að skinni - tilboðin í matvöruverslunum rétt ná að halda í manni líftórunni - vildi að ég hefði ráð á að fara í veislur með hetjum á borð við Gunnar bæjarstjóra ... !
Ólafur Als, 18.3.2007 kl. 15:27
hehe, Gunnar er góður að halda veislur, svo þurfti ég ekki að borga mikið fyrir herlegheitin þar sem ég er líka bæjarstarfsmaður.
Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.