18.3.2007 | 13:55
Fasteignaverð á niðurleið?
Berlingske Tiderne hefur eftir helsta sérfræðingi Dana í fasteignaviðskiptum, Jens Lunde hjá Handelshøjskolen í Kaupmannahöfn, að fasteignaverð þar í landi geti fallið (brase sammen) um allt að 25% á næstunni. Hagfræðingar OECD hafa um skeið bent á að danski fasteignamarkaðurinn væri í hættu á verulegri niðursveiflu (større prisfald) og Danske Bank talar nú einnig um að hætta hafi aukist á verðfalli. Sé horft til fyrri tíma er bent á að byrji verð að lækka muni þróunin halda áfram um nokkurt skeið. Í því ljósi varar Jens Lund við að minnkandi líkur séu á mjúkri lendingu (kunnuglegt orðalag).
Tekið er sem dæmi að verð á íbúðum á Kaupmannahafnarsvæðinu hefur lækkað lítillega undanfarið og hafa sérfræðingar fram til þessa talið að um n.k. leiðréttingu væri að ræða; að markaðurinn væri að fletjast út, ná jafnvægi, svo notað sé kunnuglegt orðalag úr þessari atvinnugrein. Fjöldi íbúða til sölu hefur aldrei verið meiri og í nýja hverfinu í Kaupmannahöfn, Ørestaden, er salan nær engin. Ef illa fer gætu Danir horft fram á verulega erfiðleika á fasteignamarkaði, sérstaklega eigendur húsnæðis, ekki ósvipað og fyrir rúmum 20 árum.
Á Fjóni hafa menn ekki upplifað sama uppgang og víða annars staðar. Fasteignaverð hefur haldist fremur lágt, e.t.v. að undanskildu Middelfart, og mun því vart lækka hér í sama mæli (ef verstu spár ganga eftir). Hins vegar gæti það tafið fyrir ráðgerðri og tímabærri uppbyggingu hér í Odense. Maður á eftir að sjá hvernig fjármálastofnanir bregðast við þessum tíðindum, t.d. með bættum lánakjörum enda hlýtur eftirspurn eftir fjármagni til fasteignakaupa að hafa minnkað að undanförnu. Bætt lánakjör gætu mögulega ýtt undir fasteignaviðskipti en lánakjör eru hér t.d. lakari en hjá nágrönnum þeirra, Svíum, að því mér er sagt.
Íslenskir aðilar hafa og verið stórtækir í fasteignaviðskiptum í Danmörku en þessar spár hljóta að valda þeim nokkrum áhyggjum. Að öðru leyti ættu viðskiptin að ganga vel. Danir hafa það að eigin sögn nokkuð gott, atvinnuleysi er í lágmarki og neysla í hámarki. Um daginn keypti ég meira að segja jakkaföt, skyrtu og bindi hjá Magasin Odense, sem vonandi léttir íslenskum fjárfestum lundina og hjálpar þeim að takast á við hugsanleg áföll á fasteignamarkaði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það var gaman að lesa þessa úttekt hjá þér hún er góð. Ég var að skrifa um það sama á síðunni hjá mér. Það var þó út frá öðrum vinklu og af minni þekkingu. Þannig að það var gaman að sjá þessa umfjöllun þína.
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 14:21
Mange tak, Jón. Best að líta á gripinn hjá þér.
Ólafur Als, 18.3.2007 kl. 14:34
min bara farinn ad sletta dönskunni !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Sæmi (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.