28.3.2007 | 08:09
100 ára lán
Það kom fram í fréttum hér í Danmörku að bankarnir hyggðust bjóða upp á 100 ára húsnæðislán. Hér er um að ræða tilraun fjármálastofnana til þess að glæða danska fasteignamarkaðinn sem hefur verið í lægð í nokkrar vikur og fyrirséð að hún muni halda áfram, og jafnvel leiða til verðfalls, ef ekki verður brugðist við. Afborgun af meðalláni myndi lækka um allt að 1.500 danskar krónur en á móti kemur að kaupandinn mun aldrei ná að greiða niður lánið. Reyndar hafa hér einnig verið í boði lán þar sem einungis eru greiddir vextir en höfuðstóllin látinn halda sér. Sumir hafa veðjað á að taka slík lán í von um að fasteignaverð myndi hækka eins og gerst hefur á undanförnum árum.
Danski fasteignamarkaðurinn er nokkuð flóknari en heima á Íslandi. Auk eignarhalds og leiguíbúða eru í boði "andelsboliger" sem kalla má hlutdeildaríbúðir. Í þeim er keyptur hlutur á móti eignarhaldsfélagi sem greidd er leiga til, alla jafna lægri en í sambærilegri leiguíbúð. Eigandi slíkrar fasteignar er háður reglum félags hlutdeildareigenda og má t.d. ekki leigja út sína eign nema með leyfi o.s.frv., ekki ósvipað og ef um leigjanda væri að ræða. Hins vegar er eignarhlutur kaupanda háður verðsveiflum á markaði en þó með þeim annmörkum að hlutdeildarfélagið tekur ákvarðanir um verðbreytingar á almennum eignarhlutum. Hlutdeild er hægt að selja beint af eiganda, ellegar í gegnum hlutadeildarfélagið, sem væntanlegir kaupendur geta sótt um hjá.
Reyndar er leigumarkaðurinn að sumu leyti sérkennilegur í augum Íslendings. Réttur leigjanda gagnvart leigusala er allt að því gerræðislegur. Hafi einu sinni verið skrifað upp á opinn samning getur leigjandi haldist í íbúðinni svo lengi sem húsið stendur og hann lystir. Á móti kemur getur leigjandi sagt upp leigunni hvenær sem er með 3ja mánaða uppsagnafresti. Réttur leigutaka er hér varinn á kostnað leigusala í skjóli þess að koma í veg fyrir leiguokur. Þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag sé leigutökum til hagsbóta hefur það einnig komið í veg fyrir nauðsynlegar endurbætur á fjölmörgum eignum og svo vitanlega skert möguleika eigenda til þess að njóta hækkana á markaði. Fjölmargir með gamla samninga greiða t.d. afar lága leigu, verulega langt undir markaðsverði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.