30.3.2007 | 08:52
Kosning í ljósi vafasams andáróðurs
Nú keppast menn hver um annan þveran að hvetja Hafnfirðinga til þess að hafna nýju deiliskipulagi ... og stækkun álversins. Í hita leiksins hafa margir farið fram úr sjálfum sér og láta sér ekki nægja að vera á móti af þeim alkunnu ástæðum sem við þekkjum og varða m.a. mengun, ást á landinu, uppbyggingu orkuvirkjana o.s.frv. Um sumt er t.d. ekki hægt að rökræða enda málið hlaðið tilfinningum og menn verða því að sættast á að vera ósammála. Hins vegar er ótækt þegar andmælendur telja til fjölmörg rök sem ekki standast eða eru borin uppi með alls kyns frösum og fordómum.
Hagur bæjarfélagsins af stækkun er ótvíræður og umtalsverður, t.d. mun, mun meiri en það sem hefur komið fram í umræðu sumra andmælenda. Med blekkingum og vankunnáttu hefur sumum tekist að lesa út úr orðum sérfræðinga að hagur á bæjarbúa nemi einungis 8-10 þ. króna, þegar samlegðaráhrifin nema hundruðum þúsunda á hvern íbúa. Síðan er það umræðan um arðsemi virkjana og á hvaða hátt gagnrýnin er sett fram. Sú umræða á vitanlega rétt á sér, en andmælendur hafa alla jafna ekki sannleikann að leiðarljósi, heldur dugar þeim að sá óvissu með vísan í alls kyns dæmi, en forðast að minnast þess að reynslan sýnir fram á að virkjanir fallvatnanna til handa stóriðju hafa í öllum tilfellum skilað almenningi arði og lægra orkuverði.
Af fjölmörgu öðru er að taka, t.d. að stækkunin hindri eðlilega þróun íbúðabyggðar, landið sé náttúruperla, Hafnarfjörður sé að selja sitt eina hagkvæma land, álver eigi heima í 3.heims landi (verulega smekklegt!) en ekki í nútíma samfélagi eins og okkar o.fl, o.fl. Sumt af þessu er rangt á meðan annað er vafasamt. Vitanlega er sérhver þúfa eða hraunskiki ekki náttúruperla. Slíku ofstæki vísar allt heilbrigt fólk á bug. Þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu þolir vel stærra álver sé horft til stækkunar til vesturs, í átt að Suðurnesjum. Með þéttingu byggðar er t.d. alls óvíst að þörf sé á slíkri stækkun. Bærinn á nægt land til sölu og stækkun álvers yrði hrein viðbót við efnahagsreikning bæjarfélagsins. Rökin um að landið sé náttúruperla eru eins og gefur að skilja óskiljanleg, því ef það á ekki að fara undir álver á það að fara undir annars konar uppbyggingu. Það á sem sagt ekki að vernda landid, bara að hindra að þessi tiltekna uppbygging fari þar fram.
Hér verður ekki farið ofan í kjölinn á málflutningi andmælenda, einungis að reifa nokkur "mismæli" þeirra en að öðru leyti ekki gera lítið úr þeirra afstöðu. Þrátt fyrir að ég sé fylgjandi hóflegri uppbyggingu orkufreks iðnaðar, sbr. stækkun álversins í Hafnarfirði, og frekari uppbyggingu orkuvera, set ég almenna fyrirvara við slíkt. Hvað ÍSALS stækkunina varðar eru þeir einkum þrír:
1. Tryggja bestu mengunarvarnir og stöðuga endurnýjun þeirra
2. Minnka sjónmengun; fela álverið betur í landslaginu, t.d. með gróðri og lágreistum byggingum (grafa þær að nokkru niður)
3. Almenn gjaldtaka CO2 skatts, sem rynni til gróðuruppbyggingar og þar með bindingu koltvísýrings
Fleira mætti eflaust taka til en eftir stendur sem áður að Hafnfirðingar hafa síðasta orðið um uppbyggingu í eigin bæjarfélagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.