Kristin trú, stjórnmál og umræðan

Fjölmargir hafa á orði að stjórnmál og trúarbrögð eigi ekki að leiða saman. Hér á landi horfa margir til þess að þeim þyki afskipti t.d. kristinna manna, með biblíuna að vopni, óheppileg, fornfáleg eða jafnvel stór hættuleg. Sumir geta ekki leynt hneykslan sinni og krydda hana með alls kyns yfirlýsingum og jafnvel formælingum. Forvitnilegasti hluta þessara viðbragða snýr að því þegar gagnrýnendur bregða fyrir sig ritningunni og skilningi þeirra á boðskap kristinnar trúar. Sökum fákunnáttu fara their margir ranglega með ýmsar tilvitnanir og á öðrum stundum oftúlka þær. Forvitnilegt hefur t.d. verið að fylgjast með skrifum á bloggsíðu Jóns Vals Jenssonar, guðfræðings, í þeim efnum en hann hefur gefið manni innsýn í merkingu sumra orða biblíunnar, sem var manni dulin.

Nú er það ekki svo að ég sé sammála öllu sem Jón Valur og aðrir fulltrúar kristinnar trúar halda fram. Þeir eru reyndar ekki alltaf sammála innbyrðis. Ég er ákafur fulltrúi þess að kirkja og stjórnvöld hafi sem minnst af hvort öðru að segja. Ríki á t.d. ekki að skipa kirkju fyrir um giftingar eða almenn viðhorf fulltrúa hennar. Aðskilnaður ríkis og kirkju á öldum áður var nauðsynleg til þess að hugmyndir frjálsræðis, einstaklingsfrelsis og lýðræðis fengu brautargengi. Án þess hefði efnahagsleg stöðnun haldið áfram í Evrópu og hrottafengin grimmd hinna rétttrúuðu hefði áfram verið daglegt brauð. Fórnarlömb hins alvitra viðhorfs voru mörg og mennirnir, í valdabrölti sínu, víluðu ekki fyrir sér að bera fyrir sig orð Guðs síns til þess að réttlæti sín voðaverk og valdboð. Við þekkjum þessa mynd á okkar dögum í klerkaveldum Múslimaheimsins og víðar og jafnvel í hinum kristna heimi segja sumir.

Síðan á dögum hins alvakandi auga kirkjunnar hafa Evrópumenn reynt fyrir sér með aðra isma og alvitra hugmyndafræði með hörmulegum afleiðingum. Hér á ég vitanlega við fasismann og kommúnismann. Hann er hættulegur hinn alvitri sannleikur og það vita margir sem gagnrýna afskipti kristinna manna af stjórnmálum nú. En þeir gleyma sér sumir og verða jafn heilagir og þeir sem þeir gagnrýna. Vitanlega er mönnum frjálst að berjast fyrir sínu með eigin sannleika að vopni. Ekki viljum við meina fulltrúum forræðishyggju og gerræðis af vettvangi ismafræðanna að tjá sig? Hvert við sækjum hin ólíku siðferðisgildi er svo misjafnt sem við erum mörg. Hér á landi er stór hluti þeirra byggð á kristinni trú en einnig á hugmyndinni um að við ráðum okkur sjálf. Persónulega tel ég að sérhver maður hefði gott af því að fylgja kristnu siðferði en ég mun aldrei kaupa þá hugmynd að lögmál biblíunnar taki yfir mannanna löggjöf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband