Nærast eins og púkinn á fjósbitanum

Á undanförnum misserum hefur stjórnarandstaðan beint spjótum sínum mun meira að öðrum stjórnarflokknum, Framsókn. Sérstaklega hafa Samfylkingarmenn verið óvægnir í gagnrýni sinni en almennt viðhorf margra, m.a. fjölmiðlamanna, hefur verið að þar sé allt leyfilegt. Eitt skýrasta dæmið um þetta eru ýmis ummæli Egils Helgasonar, sem er alla jafna tilbúinn með háð og palladóma um þann flokk. Hann á það reyndar til að láta fleiri finna fyrir háðinu, en Framsókn er í uppáhaldi hjá þáttastjórnandanum. Minnir einna helst á ósjálfráð viðbrögð eða óskilgreint skotveiðileyfi.

Á meðan Framsókn hefur átt fullt í fangi með að verjast hafa Sjálfstæðismenn átt náðugri daga. Ein helsta dægradvölin hefur verið að gera góðlátlegt grín að gengi Samfylkingarinnar, minnugir þess að hún ætlaði sér svo stórt hlutverk í íslenskum stjórnmálum. Áður en Samfylkingin snéri sér að Framsókn hafði hún lengi vel haft Davíð Oddsson á heilanum. Sjálfstæðismönnum fannst nú stundum sem menn færu full langt í þeirri athygli sem beindist að foringja þeirra en að sama skapi má segja að pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar hafi byggst á því að fá að etja kappi við "erkióvin sinn", Davíð.

Nú sakar Samfylkingin Sjálfstæðismenn um að hafa stuðlað að slæmu gengi með óvæginni gagnrýni, sem m.a. á að hafa falið í sér kvenfyrirlitningu vegna þess að formaður Samfylkingar er kona. Svona er Ísland í dag, Samfylkingin kennir öðrum um slæmt gengi og ganga jafnvel svo langt að segja konur vera svikara og almenning heimskan. Á sama tíma hefur forræðisflokkurinn Vinstri græn komið undan vetri með allt sitt á hreinu. Ferskan formann, sem að vísu hefur verið lengur á þingi en sumir muna, stefnuskrá sem sækir visku sína í vöggustofu sósíalisma, allt fléttað inní bleikan pakka um náttúruvernd og fjallagrasatínslu.

Fjölmargir kjósendur hafa flúið Samfylkinguna yfir til systurflokksins til vinstri. Samfylking og fleiri voru of sein að átta sig á mikilvægi nýrra áherslna í umhverfismálum og nú reyta menn hár sitt og skilja fátt. Ekki einu sinni þegar uppbyggilegar ábendingar berast þeim og þeir hvattir til að standa vaktina gegn forræðinu og til varnar frjálslyndum viðhorfum. Er orðið of seint að snúa þróuninni við? Munu rúmar fjórar vikur duga Samfylkingunni til þess að fá vind í seglin og stöðva veisluna hjá forræðispúkanum?

Vinstri græn líta á sig sem femenista og hafa til þessa náð eyrum fjölmargra kvenna. Þau búa að því að vera nokkurn veginn sjálfum sér samkvæm og Sjálfstæðismenn hafa verið óþreyttir við að lofa formann þeirra og afstöðuna til Evrópusambandsaðilar. Nú er staðan önnur og ekki lengur hægt að klappa vinalega á koll Steingríms. Honum hafa vaxið horn og framgangur flokks hans er ógn við efnahagslega uppbyggingu komist hann til valda í skjóli annarra en Sjálfstæðisflokksins. Forvitnileg staða er nefnilega komin upp þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er eina stjórnmálaaflið sem getur tamið óargadyrið.

Ég heyri suma segja að fylgið muni fara af Vinstri grænum þegar fulltrúar á borð við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ögmund Jónasson munu sjást meira. Ég er ekki svo viss um það. Þau eru bæði reyndir stjórnmálamenn og einna helst að horfa til hinna yngri og óreyndari. Róttækir femenistar og aðrir vöggustofu sósíalistar munu fá tækifæri á næstu dögum og ef frjálslynd öfl innan annarra flokka ná ekki að svipta hulunni af málflutningi þeirra er allt eins líklegt að öfundin og allar hennar systur fái allt að 15 fulltrúa á alþingi að afloknum kosningum.

Verði okkur að góðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll og kvitt fyrir að lesa!

Áhugavert. Kveðja til kóngsins!

Sveinn Hjörtur , 10.4.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband