4.5.2007 | 09:54
Hvenær virkar hræðsluáróður?
Framboð frú Royal virðist ekki heilla nógu marga Frakka þessa dagana og allt eins líklegt að herra Sarkozy muni sigra. Um daginn birtu gáfnatröll lista þar sem þeir vöruðu samlanda sína við að veita Sarkozy brautargengi og nú beitir Segolene Royal svipaðri taktík þar sem hún varar við hörmulegum afleiðingum þess ef kjósendur velja Sarkozy. Á góðum degi er þetta kallað hræðsluáróður og e.t.v. kemur hann úr verstu átt.
Nú hef ég ekki kynnt mér vandlega stefnuskrá þessara frambjóðenda og báðir þykir mér þeir koma vel fyrir. Veit þó að báðum er tamt að minnast á nauðsyn breytinga enda er sem Frakkar hafi misst sig í Evrópuvæðingu Chiracs og alþjóðavæðingu viðskiptalífsins. Sjálfsmynd Frakka hringsnýst um menningu þeirra og sérstöðu og þrátt fyrir að sérstaða þeirra sé ekki söm og áður telja þeir sér trú um að svo sé. Menningarleg remba er þeim í blóð borin.
Ef hræðsluáróður á að virka verður hann að snerta raunverulega strengi. Skírskotanir frú Royal virðast ekki hitta í mark né heldur viðvaranir gáfumannaliðs og menningarvita. Ofbeldi og átök eru Frökkum kunn og þrátt fyrir að fáir óski sér slíks verður frambjóðandi vinstri manna að bjóða betur en spár um átök. Sarkozy hefur verið einbeittur í málflutningi þegar komid hefur að því að bjóða upp á lausnir þar sem Royal hefur hins vegar verið varkárari. Ef að líkum lætur munu Frakkar kjósa yfir sig mann aðgerða nú um helgina.
Royal varar við ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.