Eru landvarnir Ísraelsmanna hryðjuverk?

Í gær lenti ég í umræðu við einstaklinga sem er í mun að sýna fram á að Ísrael stundi hryðjuverk, að þeir fari með Palestínumenn sem væru þeir svín og að þeir hefðu vafasaman rétt á að svara fyrir sig vegna þess að Palestínumenn hafa ekki yfir jafn öflugum vopnum að ráða. Margt fleira mætti telja upp en forvitnilegast þótti mér að í lokin tók viðmælandi minn einn fram að honum væri ekki í nöp við Ísrael. En svo hélt hann áfram og í sömu setningu tókst honum að níða skóinn af landinu en taka fram að hann hefði ekkert á móti því. Ofan á annað gerði hann atlögu að Bandaríkjastjórn, þessari þjóðaríþrótt Íslendinga margra, og vildi m.a. kenna Bush og hans fólki um ófriðinn með vísan í að allt of lítið hefði verið að gert og að friðarviðleitni Bush nú kæmi allt of seint. Honum var heldur ekkert sérlega í nöp við Bandaríkjamenn, einungis ósáttur við utanríkisstefnu núverandi stjórnvalda en fór reyndar langt út fyrir þá gagnrýni í umræðu sinni.

Þorri Íslendinga hefur um langt skeið atyrt Bush og stjórn hans og fundið honum allt til foráttu. Fjölmiðlar í V-Evrópu og víðar hafa verið nokkuð samstíga í að birta upp mynd af forseta Bandaríkjamanna sem væri hann fáráður eða fulltrúi öfga í trúmálum sem færði hann í stríð á fjarlægar strendur. Heima fyrir hefur einnig blásið um forsetann og stjórn hans. Óvinsældir Bandaríkjanna hafa ekki verið meiri í langan tíma og margir horfa með vonarneista til þess að nýr og allt annar forseti setjist í stólinn að ári liðnu. Einnig margir Bandaríkjamenn. Ofan í þennan jarðveg óánægju, fyrirlitningar og jafnvel haturs í garð Bush og hans stjórnar, er erfitt að sá jákvæðu orði um manninn. Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi Bush yngri, hef t.d. ótrú á mönnum sem blanda um of saman trúmálum og stjórnmálum, sem hann hefur á köflum orðið uppvís að. Hins vegar er það sérleg heimska ef ætla má manninum allt slæmt, meira að segja þegar hann er að gera góða hluti. Í gröf slíkrar heimsku hafa allt of margir Íslendingar fallið undanfarin ár.

Ég hef áður fjallað um för Bush til miðausturlanda og tilraunir stjórnar hans til þess að fá Ísraelsmenn og Palestínumenn til þess að setjast að samningaborði. Bush er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hefur lýst því yfir að Palestínumenn hafi sama rétt og Ísraelar til stofnunar eigin ríkis. Hann hefur og sagt við Ísraelsmenn að þeim beri að skila landi sem þeir tóku í sex daga stríðinu og við Palestínumenn hefur hann endurtekið að ríki þeirra verði ekki stofnað á grunni hryðjuverka. Við báða aðila hefur hann ítrekað að samningar náist ekki án sársauka og að báðir aðilar muni þurfa að gefa eftir. Hér mælir forsetinn afar skýrt og ákveðið, sem er ólíkt því sem hefur verið fyrr í hans forsetatíð, um málefni fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hvort sem Bush er í mun að fegra ímynd sína, eða eitthvað annað, er ljóst að hann getur ekki þvingað erkifjendur til þess að fallast í faðma og hefja nágrannasamskipti undir friðarfána. Í "fjarveru" Bushstjórnarinnar undanfarin 7 ár hefur Gaza losnað undan hæl Ísraelsmanna og heimastjórnin fengið aukin völd í hendur. Má þá kenna fjarveru, eða áhugaleysi bandarískra stjórnvalda, um þessa þróun eða má einungis kenna þeim um ef þeir skipta sér af, hvort heldur seint eða snemma? Hér verður ekki bæði sleppt og haldið, nema vegna þess að það skiptir suma engu hvað núverandi stjórnvöld gera eða segja: Bush og félögum skal kennt um allt. Í ofanálag er sumum svo í nöp við manninn að þeir óska honum einskis annars en kúlu í hausinn. Eins og gefur að skilja verður fátt um viðræður eftir slíkar yfirlýsingar.

Hvað Ísraela varðar er það og siður margra að ata þá auri og saka þá um verstu glæpi. Þeim er jafnvel líkt við Nasista, þeir vilji í raun ekki frið og sérhver vopnuð átök er þeim að kenna og þeir mega ekki nota sín góðu vopn vegna þess að "óvinurinn" hefur ekki yfir jafn góðum drápstólum að ráða. Albest í þessu er þegar rætt er um steinvölukast eða þá eldflaugaárásir frá Gaza. Mér hefur stundum dottið í hug hvort sömu gagnrýnisraddir myndu ekki finna að því ef Ísraelsmenn reyndust betri í að kasta steinvölum? Svo hafa sumir líkt eldflaugum Palestínumanna við heimagerðar rakettur. Hér víla menn ekki fyrir sér að slá ryki í augum fólks, allt til þess að svala vanþóknun, og jafnvel hatri, á Ísraelsmönnum og Gyðingum. Vinstri menn hafa sem dæmi alið á Ísraelsandúð í meira en fjóra áratugi, eða allt frá því að Bandaríkjamenn urðu helstu bandamenn Ísraels og nú fylgja þeim að málum allt of margt ágætt fólk.

Réttur Ísraelsmanna til landvarna er sífellt dreginn í efa og látið að því liggja að þeir hafi með aðgerðum sínum stuðlað að hryðjuverkum á eigin landi. Ef þeir beittu mildari aðferðum væri mun friðvænlegra umhorfs og þeir ættu að leyfa einstaka eldflaug að lenda á eigin landi. Þegar sömu aðilum er bent á að suma mánuði er á annað hundrað eldflauga skotið frá Gaza, að sumar geti náð 10 km inn fyrir landamæri Ísraels og nýjasta gerðin, allt að 22 km, verður fátt um svör. Viðbrögð Ísraela við eilífri ógn og ögrun í 60 ár eru ekki hryðjuverk. Hins vegar hafa verið framin ódæðisverk í stríðsátökum þessara aðila sem eru fylgifiskur stríðsátaka allra tíma. Allt fram til Yom Kippur stríðsins snerust landvarnir Ísraela um að verja tilvist sína. Eftir það hafa þær að mestu snúist um öryggi og rétt Ísraela til þess að lifa án hryðjuverkaógna. Þennan rétt er ekki hægt að taka frá neinni þjóð, jafnvel þó hún beiti til þess harkalegum aðferðum.

Gagnvart hugmyndafræði sem leyfir foreldrum að senda börn sín í sjálfsmorðsárásir til þess að drepa sjálf sig og saklausa borgara, eru fá ráð. Halda menn að undir slíkum kringumstæðum sé ekki erfitt að halda aftur af heift og andúð af hálfu Ísraelsmanna? Að sama skapi skil ég þúsundir Palestínumanna sem sætta sig ekki við hersetu Ísraels og vilja grípa til vopna. Innan Ísraels eru og öfl sem kjósa ekki frið að svo stöddu; draumurinn um stór-Ísrael er drifkraftur þeirra. En meginþorri Ísraelsmanna vill frið og nú er í fyrsta sinn um nokkurt skeið von um að slíkt sé í augsýn. Palestínumegin er Abbas, sem talar ekki tungum tveim líkt og Arafat gerði. Á hans bæ takast á öfl sem vilja frið og öfl sem vilja eyða Ísraelsríki og helst losa heiminn undan tilvist Gyðinga. Ef Abbas nær að halda aftur af öfgaöflunum og Ísraelsmenn að sýna stillingu er von. Hún er ekki stór en hún er til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Ólafur, þetta er mjög góð analýsa hjá þér. Meginþorri Ísraelsmanna þráir frið og ég held að það sé líka æðsta ósk venjulegra Palestínumanna. Meðan Ísraelsmenn lifa í lýðræðisríki, þar sem þeir geta tjáð sig og mótmælt, þá er allt slíkt enn mjög framandi meðal Palestínuþjóðarinnar. Lausn vandamálsins liggur því miður ekki í sjónmáli og Abbas, sem ekki er í miklu uppáhaldi hjá mér, á ekki auðvelda daga.

Árásir Hamas verða að hætta og hryðjuverk Palestínumanna líka. Allt hjal um útrýmingu Ísraels er heldur ekki vænlegt til friðar og ruglið um að helförin sé svindl til að koma Palestínumönnum fyrir kattarnef, er einfaldlega lélegasta röksemdin fyrir því að friður sé í nánd. Palestínumenn eiga leikinn, þeir verða láta af ófriði, sem aldrei hefur þótt vænlegur til friðs.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.1.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband