24.1.2008 | 16:07
Íslenskt raunsæi ...
Eins og við var að búast áttu spönsku nautabanarnir ekki í vandræðum með íslenska lambakjötið. Þeir gæddu sér á því af bestu list og þurftu ekki einu sinni að setja grillið á fullt. Annars langar mig ekki að ræða sérstaklega þennan síðasta leik okkar á mótinu heldur hið sérstaka viðhorf íslenskra fjölmiðlamanna gagnvart ágæti eigin íþróttamanna. Eftir að hafa hlustað á leikinn í beinni útsendingu í útvarpinu rifjast upp sú eilífa munnræpa sem einkennt hefur þulina okkar í lýsingum á kappleikjum Íslands og annarra þjóða.
Ekki svo að íslenskir þulir geti ekki lýst leikjum, heldur eru kommentin sem þeir gefa við sérhvert tækifæri ótrúlega óraunhæf og jafnvel barnaleg. Ef íslensk skytta skýtur framhjá þá er það í lagi vegna þess að skotið er svo rosalega fast - auglýsingaskilti fær að finna fyrir því og ekki við neinu að gera; skyttan er svo illa fyrirkölluð, á ekki góðan dag. Varnir andstæðinganna eru líka svo rosalega hávaxnar að hvernig eiga drengirnir að geta náð yfir slíka mannlega múra? Hetjur okkar ganga ekki heilar til skógar, eru eitthvað slappar, við erum líka svo fáir - upplesturinn er langur. Ofan á allt annað, þegar ræða á við leikmenn og þeir bjóða upp á einfaldar og heiðarlegar skýringar, gefast þulirnir ekki upp og eru tilbúnir með afsakanir til vinstri og hægri.
Eftir að hafa hlustað á lýsingar í sænsku, dönsku, norsku og jafnvel þýsku sjónvarpi er manni ljóst að ekkert er unnið með þessu afbrigði af vorkunnsemi sem landlæg er í íslenskum fjölmiðlum og er jafnvel að finna innan íþróttahreyfingarinnar. Ef menn ætla sér að læra af mistökum sínum verður að geta horfst í augu við þau en ekki vera reiðubúinn með eilífar afsakanir. Slíkt kennir mönnum ekkert annað en vorkunnsemi - og er ótrúlega leiðinlegur ávani.
EM: Sjö marka tap gegn Spánverjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.