Þreytt lið Króata hélt í jafntefli á móti lánlausum Norðmönnum.

Sóknarleikur Norðmanna bar þess veruleg merki að línumaðurinn sterki, Løke, gat ekki spilað vegna meiðsla. Norðmenn virðast ekki hafa næg vopn á hendi ef Løke er út úr myndinni. Jafnt var á flestum tölum lengi vel í síðari hálfleik, Norðmenn þó jafnan skrefi framar en svo tók reynsla Króata við undir lokin og þeir "lönduðu" verðskulduðu jafntefli, sem dugði til þess að koma þeim í undanúrslitaleik á móti Frökkum. Fögnuðu þeir vel og lengi í lok leiks á meðan Norðmenn tóku, þrátt fyrir allt, tapinu með nokkurri ró.

Varnir beggja liða voru sterkar en greinilegt að nokkur þreyta einkenndi sóknarleikinn, sérstaklega hjá Króötum. En þrátt fyrir þreytumerki börðust Króatarnir af mikilli grimmd og voru aldrei á því að gefast upp. Á sama tíma voru Norðmenn á köflum ráðalausir í sókninni. Balic gerði Norðmönnum lífið leitt en greinilegt að hann gengur samt ekki alveg heill til skógar. Hann hefur nú einn hvíldardag framundan áður en kemur að næstu átökum. Norðmanna bíður uppgjör við nágranna Svía um fimmta sætið - og sæti ofar en þeir hafa áður náð á Evrópumóti (að ég held).

Norðmenn geta að nokkru sjálfum sér um kennt. Taugar þeirra voru ekki nógu sterkar og átök síðustu leikja setti mark sitt á sóknarleikinn. Vörnin var eftir sem áður að skila sínu en í sókn, og þá sérstaklega í hraðaupphlaupum, náðu leikmennirnir ekki nógu vel saman. Króatarnir geta nú hvílt lúin bein, en lið þeirra er að mestu skipað sömu leikmönnum og hafa staðið í toppbaráttu stórmóta um margra ára skeið, með Balic fremstan í flokki sem fyrr.

Ofan á allt annað fengu Íslendingar farmiða í forkeppni Ólympíuleikanna með þessum úrslitum. Ja hérna.


mbl.is Ísland í forkeppni Ólympíuleikanna og Króatía áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband