3.2.2008 | 13:48
Demókratar sjálfum sér verstir - ekki yfirstaðið hjá Repúblikönum
Forvitnilegt er að fylgjast með skoðanakönnunum í Kaliforníu, þar sem fyrrum forsetafrúin var með afgerandi forystu fyrir fáeinum mánuðum og jafnvel vikum. Í október síðastliðnum var Clinton með 25% forystu á Obama en fyrir 3 vikum var forystan fallin niður í 12%. Skv. nýjustu tölum er forystan nú einungis 2% og vart hægt að gera upp á milli frambjóðendanna. Sigur í Kaliforníu yrði gríðarlega mikilvægur fyrir Obama en algert áfall fyrir Clinton. Á sama tíma hefur McCain verið at styrkja stöðu sína á meðal frambjóðenda Repúblikanaflokksins, en einnig gagnvart frambjóðanda Demókrata í forsetavalinu sjálfu. Í Kaliforníu myndi Clinton rétt hafa það á móti McCain á meðan Obama myndi sigra með nokkrum mun. McCain hefur þó saxað verulega á forystu beggja frambjóðenda Demókrata síðustu vikurnar. Staða Romney er veik í Kaliforníu gagnvart hvort heldur Clinton eða Obama.
Demókratar fá fulltrúa í hverju ríki skv. hlutfalli og þó svo annar frambjóðandinn myndi sigra nú á þriðjudaginn er alls ekki víst að sá hinn sami væri búinn að tryggja sér útnefninguna. Demókratar gætu því séð fram á langa baráttu, allt til landsþingsins í Denver í águst næstkomandi. Stundum er sagt að Demókratar séu sjálfum sér verstir og óeining og sundrung hafi hjálpað höfuðandstæðingnum, Repúblikönum, sem hafa alla jafna haft lag á að sameinast að baki frambjóðenda sínum. Þrátt fyrir að McCain sé nú á beinu brautinni og leiði í skoðanakönnunum, mun hann ekki sigra í öllum ríkjum næstkomandi þriðjudag. Í sumum þeirra er búist við að kristnir muni hafa áhrif og veita Huckabee gott brautargengi. Það gæti haft áhrif því ólíkt Demókrötum hafa Repúblikanar það þannig í sumum ríkjum að sigurvegari forkosninganna fær alla fulltrúa viðkomandi ríkis. Ef einhverra hluta vegna Huckabee tekst að næla sér í góðan skerf af fulltrúum og Romney einnig, munum við sjá fram á þriggja manna keppni hjá Repúblikönum, með McCain í forystunni, fram yfir kosningadaginn stóra.
Clinton og Obama hnífjöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.