Hvenær voru Íslendingar víkingar?

Nú grunar mig að Íslendingar séu komnir í enn eina skógarferðina hvað varðar víkinga og víkingatímann. Ef það hefur ekki farið framhjá okkar ágæta menntamálaráðherra, þá voru Íslendingar aldrei víkingar. Þó svo að örfáir höfðingjasynir og nokkrir glæpamenn hafi villst í barbarí víkinga komu Íslendingar í stórum stíl aldrei nálægt slíku. Að upplagi voru þeir sem settust hér að á landnámsöld bændur og í besta falli verslunarmenn. Að vísu var þeim tekið að leiðast þófið er kom fram á Sturlungaöld, er þeir drápu nágranna sína og öfundarmenn úr næstu landsfjórðungum í stórum stíl en aldrei datt bændum á Íslandi í hug að herja á aðrar þjóðir í stórum stíl.

Blóðþorsti af því tagi sem drepur samlanda hefur hingað til ekki dugað til þess að kenna þjóðir við víkinga, ekki einu sinni forfeður Jóns Páls. Meira að segja útrásina í vestur, undir forystu útlagans Eiríks Rauða, er ekki hægt að líkja við víkingaferðir. Ekki fer neinum sögum af ófriði á milli nýbúanna á Grænlandi fyrir þúsund árum og þeirra sem bjuggu þar fyrir. Að vísu segir sagan að Þorfinnur Karlsefni hafi komist í hann krappann við skrælingja á meginlandinu en hann hafði vit á því að forða sér. Konan hans varð m.a. fræg fyrir að heimsækja Róm á efri árum sínum og e.t.v. vilja einhverjir kalla hana víking fyrir vikið.

Litlum sögum fer af vesturferðum Íslendinga frá Íslandi eða Grænlandi eftir lætin á meginlandinu við innfædda. Ég geri ekki ráð fyrir að ferðir frá V-Grænlandi yfir til meginlandsins að sækja timbur flokkist undir ránsferðir að víkingastíl - og uppdiktaðar ræningjaferðir manna á borð við Egil Skallagrímsson verður seint hægt að heimfæra upp á heila þjóð, jafnvel þó móðir hans hafi mælt svo.

Hann er undarlegur þessi háttur Íslendinga að vilja láta kalla sig víkinga. Uppblásið en misskilið mont. Arfleifð okkar er af allt öðru tagi og höfum við vart getað haldið henni á lofti svo vel sé. Hér er ég vitanlega að vitna í bókmenntaarfleifðina og þá staðreynd að stór hluti auðs þjóðarinnar um aldir fór í að skrifa bækur. Ég vil nú helst ekki saka sanna víkinga, skandinavíska um að hafa setið mikið að skriftum og bóklestri. Þrengsli í heimalöndum þeirra, eða hvað það nú var, dreif þá í blóðþyrstar ránsferðir til nágrannalanda í austri, vestri og í suður. Um síðir umbreyttust þessar ferðir í verslunarferðir, á sama tíma og Íslendingar voru í óða önn að drepa hver annan og eyðileggja þær fáu kænur sem til voru í landinu. Í besta falli höfðu Íslendingar því ekki tíma til þess að stunda barbarí að hætti víkinga.


mbl.is Víkingaminjar tilnefndar á heimsminjaskrá UNESCO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ólafur, þetta er þörf áminning hjá þér. Þetta víkingafár er farið úr böndunum. Íslendingar voru bændur, meðaljónar úr Noregi og nágrannalöndum, sem vegna landleysis leituðu til Íslands.

Ég veit hvað ég er að tala um. Ég er fornleifafræðingur og ég var í fyrsta íslenska vinnuhópinum sem tók þátt í að setja Norrænar minjar á UNESCO-listann og skrifaði fyrstu frumskýrsluna um Þingvelli.

Eins og allir vita, var UNESCO ekki yfir sig hrifið af Þingvöllum.

Þetta UNESCO-World Heritage dæmi hefur nú farið úr böndunum og sýnir að þetta er snobb og rugl eins og flest annað sem gert er á vegum UNESCO.

Svo er talað um "Danewirke" í fréttinni. Ætlir Danir séu harðánægðir með það?

Ég fékk reundar forláta frakka út úr vinnu minni við UNESCO listann. Þegar fyrrverandi þjóðminjavörður, sá sem tíndi milljónum út og suður án þess að vita hvað hann var að gera, kom úr "starfsleyfi", var farið að reyna að koma mér úr UNESCO hópnum. Aðrir, gæðingar hans, vildu vera með.  En þegar það var ekki hægt, var reynt að setja út á klæðnaðinn hjá mér. Ég átti nefnilega í júní 1996 að hitta sænska konunginn með öðrum í vinnuhópnum, þetta var lokafundur. Þegar tískufrömuðir á Þjóðminjasafninu voru búnir að sjá að ég átti hörku jakkaföt, var mér boðinn frakki, sem var keyptur fyrir 29000 krónur í verslun í Reykjavík.

Ég var betur klæddur en Svíakonungur og líktist sjálfstæðismanni á 17. júní.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.2.2008 kl. 13:12

2 Smámynd: Ólafur Als

Vilhjálmur,

til hamingju með frakkann - og að hafa slegið Svíakonung út.

Geta menn annars ekki verið ánægðir með gullaldarbókmenntir sínar og reynt að gera veg þeirra meiri? Gaman væri að sjá sett upp skemmtilegt og aðgengilegt safn utanum bókmenntaarfinn með nýjustu tækni sem ungt skólafólk gæti notið og ferðamenn í stórum stíl - hálfgert þemasafn með alls kyns skemmtilegheitum sem tvinnur saman bókmenntaarfinn og söguna.

Ólafur Als, 5.2.2008 kl. 13:28

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll Ólafur.

Ég tek undir með þér og bloggvini mínum dr. Vilhjálmi Erni með þetta uppdigtaða víkingablóð okkar. Við höfum aldrei víkingar verið. Þegar Björgólfur reyndi að markaðssetja bjórframleiðslu sína, Viking beer, á Bretlandi þá var hann snarlega beðinn af þarlendum auglýsingastofum að hætta við . Bretar hefðu ekki sælar minningar af blóðþyrstum víkingum og ránsferðum þeirra og nauðgunum kvenna. Það er lítil upphefðin sem hlýst af því að spyrða sig í ætt við víkinga.

Óttalega fer líka í taugarnar á mér þetta stagl um "frændur okkar á norðurlöndum". Við erum fyrir það fyrsta ekki hluti "norðurlanda" og í engum skyldleika við þetta fólk, utan sáralítill hluti landsmanna, sem eiga kannski ána þaðaní 2-4 lið þaðan.

Predikarinn frábiður sér tal fjölmiðla og stjórnmálamanna sem gerir því skóna að hann sé skyldur þessum þjóðum. Mér hefur skilist af ættfræðirannsóknum að við eigum flestar rætur inn í meginland Evrópu, Írland, Frakkland og til Herúla ásamt fleirum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 5.2.2008 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband