7.2.2008 | 18:06
McCain verður að fá íhaldsmenn í lið með sér!
Búist er við að Mitt Romney muni lýsa því yfir á þingi íhaldsmanna í kvöld að hann sé hættur þátttöku í forvali Repúblikana innan skamms. Þetta gerist nokkru fyrr en búist var við, þrátt fyrir að McCain hafi verið næsta öruggur með útnefningu flokksins eftir forvalið síðastliðinn þriðjudag. Romney gekk ekki alveg eins vel og sumir bjuggust við en hann hafði m.a. sett gríðarlega fjármuni úr eigin vasa í að kynna sig og stefnumið sín. Einhverra hluta vegna náði hann ekki eyrum Repúblikana sem skyldi og nú hefur hann ákveðið að hætta.
Eitt af því sem hefur verið óljóst í hugum margra Repúblikana er hver Mitt Romney er í raun og veru. Hann hefur efnast í viðskiptum, auk þess að ná því að verða ríkisstjóri í Massachusetts, ríki sem alla jafna styður Demókrata. Hann hefur reynt að staðsetja sig á meðal íhaldsmanna, en þurft að berjast við Huckabee um sömu kjósendur. Sumum hefur fundist hann hafa skipt of oft um áherslur til þess að teljast trúverðugur eða nægilega íhaldssamur. Segja má að stuðningsmenn Repúblikana hafi ekki kynnst manninum nógu vel, ólíkt því sem segja má um hvort heldur McCain eða Huckabee.
Í fjölmörgum ríkjum í forvali Repúblikana fá þeir sem fá flest atkvæði alla fulltrúana. Þetta fyrirkomulag laðar fram sigurvegara jafnan fyrr en hjá Demókrötum, sem notast við hlutfallskosningu. Repúblikanar munu fyrir vikið fá fram forsetaframbjóðanda mun fyrr að þessu sinni og veitast ráðrúm til þess að lægja öldur innan flokksins, sem ekki er vanþörf á, og mæta samhentir til forsetakosninga. Ekki er búist við að Romney styðji einn frambjóðanda umfram annan í ræðu sinni á eftir en hann mun eflaust benda á nauðsyn þess að flokkurinn standi einhuga að baki hverjum þeim sem nær útnefningu. McCain bíður nú fátt annað en sigur og það verður því forvitnilegt að heyra hvernig McCain muni biðla til fulltrúa fundarins í tilraun hans til þess að sameina íhaldssama og hófsama.
Romney hættur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:55 | Facebook
Athugasemdir
Hættan er sú að íhaldsamir finnist svo að sér þrengt, auk s.k. evangelista, að þeir geti allt eins snúið sér annað eða sleppt því að mæta á kjördag. Ann Coulter hefur m.a. sagst styðja Clinton frekar en McCain. En svo er nú valfyrirkomulagi Repúblikana að þakka að McCain gefst nú tími til þess að sameina flokkinn og safna kröftum fyrir átökin í haust á meðan Demókratar vita ekki hvorum draumnum þau eiga að fylgja ... nema Huckabee ákveði að hræra í pottunum mikið lengur.
Ólafur Als, 7.2.2008 kl. 18:55
Leitt er að sjá þessa frétt af mínum manni Romney og boðaðri kvöldræðu hans. Ég sem hélt hann hugðist halda áfram. Ætlar hann að ná bikarnum eftir fjögur ár? Svo kann hann að vera að tryggja sér varaforsetaembættið í þessum töluðum orðum mínum – það gæti nú orðið asset í varastöðu forseta á áttræðisaldri. – En góður þessi hjá þér, að Ann Coulter segist frekar styðja Clinton en miðjumoðskarlinn McCain!
Og PS: evangelisti = guðspjallamaður (og fjórir voru þeir); en 'evangelical' = mótmælendatrúarmaður sem leggur þunga áherzlu á trú sína.
Jón Valur Jensson, 7.2.2008 kl. 21:07
Miðjumoðskarlinn McCain teldist æði hægrisinnaður á skerinu okkar, Jón Valur. Annars er nú Paul uppáhaldið mitt en hann hefur vitanlega enga möguleika. Að honum slepptum hef ég hallað mér að McCain vegna þess að hann er maður sem hefur getað sameinað stóru flokkana í sumum málum, hann talar af nokkurri hógværð (en hörku gagnvart hryðjuverkum) - og svo tók hann fram að hann væri andvígur pyntingum, sem Romney gat t.d. ekki tekið undir. Hún Ann Coulter er nú bara sár, ásamt með Hannety og hinum, þessa dagana. Hún getur á endanum ekki stutt Clinton vegna afstöðu hennar til Irak en rétt er að í einstaka málum er Clinton meira "frjálshyggjusinnuð" en McCain en ekki endilega íhaldssöm - að mínu mati NB. Sama á við um Obama.
Einhverra hluta vegna hefur Romney gerst afar íhaldssamur síðustu misserin og ruglaði hann marga Repúblikana í höfðinu með því að tala á köflum sem væri hann "endurfæddur" kristinn. Það passaði ekki alveg hjá þeim sem annars hefðu stutt hann vegna hans þekkingar og reynslu úr viðskiptalífinu. Eins og þú eflaust þekkir er ég ekki hlynntur að menn blandi saman um of trúmálum og stjórnmálum - handhafar "sannleikans" hafa ekkert með það að gera að stjórna landsmálum - fæstir þeirra ráða við slíka ábyrgð og ég vil ekki að nokkur maður fái tækifæri til þess að stjórna í nafni hins algilda.
McCain hefur nú þegar spjallað við Romney og óskað eftir að spjalla við hann en ekki hefur hann beðið um stuðning. Sjáum hvað setur með varaforsetann. Margt vitlausara. McCain er við hestaheilsu og eins og þú veist á hann hátt í tíræða móður sem ku enn vera í sæmilegasta fjöri.
Varðandi innskotið: ég hef stundum kallað heittrúaða mótmælendatrúarmenn hvitasunnukristna - veit ekki alveg að hvaða leyti orðin endurfæddir (born again) eða endurskírðir kristnir á við hér - hér vantar okkur gott orð ...
Varðandi guðspjallamenn Bilblíunnar; eru ekki til skrif eftir fleiri postula? Er ekkert til eftir hann Jóhannes, eftirlæti meistarans?
Ólafur Als, 7.2.2008 kl. 21:49
Jú, Jóhannesarguðspjall, Óli, hvernig læturðu! Það er eitt hinna fjögurra, sem Nýja testamentið geymir og ein eru áreiðanleg.
Ég hef ekki tíma núna til að ræða kristindóm og stjórnmál, er sjálfur bloggandi um yfirlýsingu Romneys um að draga sig úr baráttunni, en vil þó nefna, að ég tel þetta mistúlkun að setja erindi kristinna gilda í samfélaginu og í stjórnmálum þannig fram, að þetta gangi út á það, sem þú kallar, "að nokkur maður fái tækifæri til þess að stjórna í nafni hins algilda."
Þakka þér samt svarið ýtarlegt, félagi, og hafðu það gott þar sem þú ert.
PS. Hillary Clinton er vinstrimanneskja í bandarískum stjórnmálum að mínu viti.
Jón Valur Jensson, 8.2.2008 kl. 03:44
Ég segi það með þér, hvernig læt ég? Hugur minn var annars staðar; beindist að öðru, þ.e. er til annað eftir hann, eða aðra postula, hversu "áreiðanlegt" sem það nú kann að vera. Vonandi líturðu Jón á að fleiri skrif en þau sem rötuðu í Biblíuna geti talist áreiðanleg? Hér er ég m.a. að vitna í Dauðahafsritin og Nag Hammedi fundinn, sem ég þekki ekki nógu vel en ætla mér að kynnast betur á næstunni.
Varðandi trúargildin: kristin gildi góð er ágætt að hafa, en þegar fulltrúar kjósenda, einstaklingar með mikil völd á borð við forseta Bandaríkjanna, eru farnir að hegða sér eftir skipunum að ofan er ekki von á góðu.
- og sömuleiðis, hafðu það gott heima á Fróni!
Ólafur Als, 8.2.2008 kl. 07:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.