8.2.2008 | 07:56
Hvað er til ráða, Vilhjálmur?
Sem áhorfandi að stjórnmálunum heima, héðan frá Odense, verð ég að treyst því litla sem mér berst í hendur. Orrahríðin í kringum REI-málið og tvennar valdatökur í borginni hafa valdið trúnaðarbresti á milli kjósenda í Reykjavík og fulltrúa þeirra í borgarstjórn. Gott er að skýrslan er sameiginleg afurð flokkanna (að Framsókn undanskilinni?) þó svo vitanlega ólíkir flokkar muni túlka hana, hver með sínu nefi. Ekki við öðru að búast. Auk þess lærdóms sem draga má af skýrslunni, stendur eftir sú megin spurning hvort draga eigi einstaklinga til ábyrgðar, annars vegar toppana í Orkuveitunni og hins vegar Vilhjálm, fyrrum borgarstjóra og jafnvel Björn Inga - sem hefur, að segja má, þegar tekið út refsingu sína.
Nú þykist ég viss um að Vilhjálmur hafi ekki verið stjórnað af öðru en skammsýni, ekki var hann að reyna að hagnast persónulega. Hann ber þó mikla ábyrgð sem æðsti fulltrúi hins pólitíska valds á sínum tíma og ef refsa á yfirmönnum Orkuveitunnar, er honum þá stætt áfram í borgarstjórn? Sumir vilja meina að svo sé ekki og innan Sjálfstæðsflokksins heyrast raddir sem óska þess að hann dragi sig í hlé. Vitanlega yrði slíkt áfall fyrir Vilhjálm, draumurinn um borgarstjórastólinn var allt of stuttur og hann hefur jú viðurkennt mistök sín í REI-málinu. En ... er það nóg að hafa viðurkennt mistök, Vilhjálmur? Getur verið að á endanum muni áframhaldandi vera í borgarstjórn skaða flokkinn þinn meira en ásættanlegt er?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.