8.2.2008 | 13:39
Óþægileg lífsreynsla!
Ég kannast við að hafa þurft að eyða nóttinni í Leifsstöð og það er ekki skemmtileg vist. Fyrir réttum átta árum skall á aftakaveður með snjókomu og roki. Nokkrir úr fjölskyldunni áttum pantað far með Flugleiðum (eins og það hét þá) til Bandaríkjanna um eftirmiðdaginn en fljótlega upp úr hádegi var ljóst að snjóstormur nálgaðist landið hraðbyri. Við biðum fregna af veðrinu, óviss um hvort fært yrði út á flugvöll eða hvort flogið yrði yfir höfuð. Ekkert frá flugvallaryfirvöldum og ekkert frá flugfélaginu og því ekkert annað að gera en að leggja út í óveðrið og vonast eftir að ná til Leifsstöðvar á fjölskyldubílnum.
Á leiðinni lagðist flutningabíll á hliðina fyrir framan okkur. Blautum snjónum kyngdi niður og öflugur vindur færði hann í stóra skafla. Flutningabíllinn lenti utan í einum slíkum og rann ofurhægt út af veginum og á hliðina, hvorki sá á bíl né manni. Þegar við komum að Leifsstöð var aðalinngangurinn lokaður án nokkurra viðvarana og fjölskyldubíllinn nánast fastur. Við ákváðum því að ganga yfir á hina hlið flugstöðvarbyggingarinnar, en það hefðum við ekki átt að reyna. Þegar við komum fyrir hornið greip vindurinn móður mína og kastaði henni tíu metra í loftkasti í átt að fuglsegginu, þar sem hún lenti sem betur fer á hliðinni og slapp með meiðsl á handlegg, tínt veski með farmiðum allra, kreditkorti og öllu lausafé. Við hin gættum nú betur að okkur og fórum nánast á fjórum fótum yfir á hina hlið byggingarinnar.
Er inn var komið tók óratíma að finna starfsmann til þess að liðsinna okkur, hvort heldur er varðaði meiðsl mömmu eða að fá útgefna nýja miða. Ljóst var að allt flug lá niðri og fátt annað að gera en að bíða af okkur versta óveðrið. Ófært var og aftur til Reykjavíkur. Pabbi, sem hafði keyrt okkur, var sem sagt strandaður með okkur ferðalöngunum og þegar okkur, sem höfðum flugmiða, var hleypt upp í aðalsalinn var karlinn látinn kúldrast niðri í farþegamóttöku fram á rauða nótt. Honum var loks hleypt upp til okkar hinna í sæmileg þægindi aðalsalarins seint um nótt. Til háborinnar skammar fyrir tollayfirvöld, sem væntanlega óttuðust að maðurinn gæti keypt sér bjór á fríhafnarverði og sömuleiðis starfsmenn Flugleiða, sem var í sjálfsvald sett að útbúa passa fyrir hann.
Einhver hundruð farþega sátum við eða lágum á gólfum í Leifsstöð fram á morgun við fátæklega upplýsingagjöf og óspennandi kost. Er leið á morguninn var ljóst að öllu flugi yrði frestað um einn sólarhring, veðrið var orðið skaplegt og í morgunsólinni gátum við keyrt heim á leið. Keyra þurfti mömmu á slysavarðstofuna þar sem hún var sett í umbúðir en sem betur fer óbrotin. Eftir að hafa lagt okkur um stund vorum til í slaginn á ný og héldum öðru sinni út á flugvöll og í þetta sinn náðum við alla leið vestur.
Eyddu nóttinni í Leifsstöð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.