Það mun versna áður en það batnar ...

Bent hefur verið á að framundan megi búast við verðbólguskoti, m.a. í skrifum mínum hér. Ljóst er að það er þegar hafið enda mælist verðbóglan nú hærri en fjármálastofnanir spáðu fyrir um. Hvers vegna þær voru svo "jákvæðar" í sínum útreikningum átta ég mig ekki á. Fasteignaverðsliðurinn í útreikningum á vísitölunni er sem fyrr að hrella okkur með hækkun raunvaxta og ekki útlit fyrir að þeir lækki alveg á næstunni. Sjálft fasteignaverðið mun væntanlega standa í stað og jafnvel lækka síðar á árinu en sem stendur er raunvaxtaliðurinn að halda verðbólgunni uppi. Annað ætti ekki að hafa komið mönnum á óvart.

Framundan eru frekari hækkanir á verðlagi margs kyns neysluvöru og einungis spurning um hve hratt þær munu berast út í verðlagið. Sumt er þegar hafið á meðan annað kemur síðar. Krónan hefur fallið um rúm 10% á skömmum tíma og öll erlend aðföng munu hækka sem því nemur, auk þess sem framleiðslukostnaður hefur aukist í ljósi hækkandi orkukostnaðar um allan heim (á að vísu ekki við um orku ísl. fallvatna og gufuaflsvirkjana) - ekki óvarlegt að sú hækkun nemi nokkrum prósentustigum yfir línuna. Því er ekki óvarlegt að áætla að verð á erlendri neysluvöru og aðföngum muni hækka um ca. 15% á þessu ári og mun meira á sumum hlutum.

Eitt af því sem hefur hækkað verulega er erlendur áburður til notkunar í landbúnaði. Þetta mun sérstaklega snerta mjólkurvöruframleiðsluna og segjast bændur munu þurfa að hækka vörur sínar um tíu til tuttugu hundraðshluta til þess eins að mæta þessum auknu útgjöldum. Hækkun á mjölkurafurðum hefur þegar átt sér stað á meginlandi Evrópu, mjólkurverð hækkaði um alla vega 15% í Danmörku í vetur og svipaða sögu að segja annars staðar. Hækkanir á öðrum landbúnaðarafurðum, s.s. kjötvörum, hafa einnig komið neytendum fyrir sjónir. Við munum því sjá hækkun á landbúnaðarafurðum á Íslandi innan skamms.

Það er því fjölmargt í pípunum til þess að viðhalda verðbólguskotinu sem er þegar hafið og allt eins líklegt að verðbólgan sveiflist nokkuð á næstu mánuðum, allt eftir því hve hratt áhrifanna gætir af hækkun neysluverðs. Víxlverkunin mun síðan sjá til þess að fasteignaliðurinn mun ekki hafa áhrif til lækkunar enn um sinn. Þegar líður á árið má hins vegar búast við að verðbólgan hjaðni og fari jafnvel að nálgast viðmið Seðlabankans sem virðast í ljósi undanfarinna ára heldur brosleg og til marks um að endurskoða megi lögin um Seðlabankann.

Vitanlega gæti krónan fallið enn frekar og enn fleiri óvissuliðir sett strik í reikninginn, sbr. olíuverð og annað sem við höfum engin áhrif á. Að því sögðu er ljóst að hið opinbera hefur ýmis ráð til þess að takast á við verðbólguna í gegnum alls kyns neysluskatta og gjöld. Betra hefði mér þótt að þrýst hefði verið á slíkt í yfirstandandi samningum, í stað þess að þrýsta enn frekar á hækkun launa og verðlags - því ekki er víst að stöðugleikinn, sem af samningunum hlýst, muni duga til þess að halda aftur af skriðu kaupgjalds og verðlags, sem eins og allir vita er það versta sem getur komið fyrir almenning.


mbl.is Verðbólga mælist 6,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband