28.2.2008 | 14:47
Verðbólgan gæti dregist á langinn
Á meðan hin s.k. krónubréf eru látin rúlla á alþjóðamörkuðum minnkar þrýstingur á aðlögun krónunnar. Hún gæti jafnvel hækkað lítillega á næstunni, sérstaklega ef útgáfa krónubréfanna heldur áfram í sama mæli og verið hefur. Slíkt gæti seinkað, eða dreift, verðbólguskotinu sem reyndar er þegar hafið á Íslandi og því útlit fyrir að verðbólgan dragist ekki saman fyrr en seint á árinu og e.t.v. ekki fyrr en að ári liðnu. Mikið er í húfi að stýrivextir verði lækkaðir, ekki einungis til þess að smyrja efnahagshjólin sem hafa hægt á sér, heldur hitt að á næsta ári munu fram koma endurskoðunarákvæði fasteignalána í fyrsta sinn hjá bönkum og sparisjóðum.
Raunvexti verður að fá niður með nær öllum tiltækum ráðum, ekki bara til þess að losa okkur við hina hvimleiðu umræðu um upptöku evru, heldur fremur hitt að fjölmörg heimili landsins hafa ekki efni á að vextirnir hækki á húsnæðislánunum sínum. Slíkt myndi éta upp launahækkanir margra og gott betur, og skapa óvissu í efnahag margra fjölskyldna. Efnahagslegur framgangur síðastliðinna ára hefur byggst á því að skrúfa upp launavísitöluna meira en aðrar vísitölur og launasamningarnir nú viðhalda þeirri hugmyndafræði. Allra leiða verður því að leita til þess að hægja á þessari vítisgöngu víxlverkana, samhliða því að vernda kaupmáttinn.
Hið opinbera hefur vissulega búið í haginn fyrir magurt tímabil. Bráðnauðsynlegt er að endurvekja traust á íslenskum fjármálastofnunum á næstu vikum og misserum, ellegar mun starfsemi þeirra hljóta verulegan skaða af. Eins og ég hef vikið að áður hefði ég kosið beittari aðkomu ríkisins að kjarasamningunum, til þess m.a. að minnka þrýsting á launahækkanir. Hætt er við að með aðkomu umönnunarstétta, kennara og fleiri munu launahækkanir valda tugmilljarða kostnaðarauka hjá hinu opinbera og fjölda fyrirtækja í framleiðslugreinum og víðar. Eins og við má búast fara þessir milljarðar aftur út í verðlagið með alkunnum afleiðingum.
Alþjóðabankinn gefur út krónubréf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.