11.3.2008 | 20:08
Ótímabærar vangaveltur?
Forstjóri Kaupþings, fyrir hönd fyrirtækisins sem hann er í forsvari fyrir, kann að óska þess að íslensku krónunni verði skipt út fyrir nýja mynt. Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður, t.d. auðveldari reikningsskil, greiðari fjármagnsfærslur, aukið rekstrarlegt samræmi á milli landa o.s.frv. Bankinn kann að hafa hag af slíkri þróun og því eðlilegt að hann mæli fyrir slíku. Hins vegar er íslenska hagkerfið í heild sinni ekki að spila á sömu fiðlu og bankarnir - en það gæti þó breyst innan fárra ára. Þær sveiflur sem hafa einkennt íslenskt efnahagslíf hafa til þessa ekki verið í takt við stórar efnahagseiningar á borð við Efnahagssambandið, Bandaríkin eða önnur vestræn efnahagssvæði.
Gjaldmiðill er í eðli sínu afleidd stærð. Mynt tiltekins lands endurspeglar efnahagslegan veruleika sem ræðst af flóknu samspili. Ef íslenska krónan ætti sem dæmi að fylgja erlendri mynt á borð við evruna gæti það að óbreyttu leitt til óstöðugleika sem myndi hafa í för með sér skelfilegar afleiðingar, alla vega um tíma og e.t.v. einnig til langframa. Til þess að taka upp aðra mynt þyrfti að laga efnahagslífið að hjartslætti þess efnahagssvæðis sem miða ætti við. Það getur í sjálfu sér verið eftirsóknarvert en um leið alger forsenda fyrir gjaldmiðilsskiptum. Óæskilegar afleiðingar gætu t.d. falið í sér aukið atvinnuleysi, minnkandi kaupgeta, verðfall fasteigna o.fl.
Að halda úti örverpisgjaldmiðli á borð við íslensku krónuna felur í sér vissan fórnarkostnað. Ekki svo að skilja að gjaldmiðlar annarra landa feli ekki í sér fórnarkostnað, hann er bara minni þar sem efnahagsstærðirnar eru margfalt stærri en okkar. Upptaka annarrar myntar gæti markað upphaf stöðugleika, sem er öllum fyrirtækjum og heimilum nauðsynlegur. Slíkan stöðugleika höfum við ekki búið við um nokkurra ára skeið. Á Íslandi hefur verið hagvaxtarskeið sem hefur m.a. kynt undir verðbólgu. Þetta er þekkt víðar, sbr. ástandið í Kína og annars staðar þar sem mikill hagvöxtur hefur verið einkennandi.
Íslendingar búa við hagsæld sem flestir öfunda okkur af og myndu glaðir vilja skipta út sínu hlutskipti fyrir okkar, jafnvel í ljósi þeirrar efnahagsóvissu sem nú ríkir. Framundan skiptir höfuðmáli að festa í sessi þann efnahagsbata sem þjóðin hefur búið við og styrkja innviði efnahagsins. Það verður ekki gert nema að takast á við verðbólguna og til þess að svo megi verða þurfa Íslendingar að taka á sig tímabundinn skell, harða lendingu eða hvað menn vilja kalla það. Sá fjölbreytileiki sem einkennir nú íslenskt efnahagslíf getur orðið til þess að efnahagssveiflur okkar verði í framtíðinni frekar í takt við þau lönd sem við eigum viðskipti við og kjósum að bera okkur saman við. Þegar þeim áfanga er náð getum við fyrst hafið af alvöru umræðu um upptöku annars gjaldmiðils.
Nýr gjaldmiðill innan 3 ára? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Facebook
Athugasemdir
Skrýtin finnst mér vera þessi umræða um efnahagsmál og hvort við eigum að taka upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil.
það tala allir voðalega mikið um ágæti þess að breyta til en stöldrum aðeins við ,hvað fáum við í staðinn hefur nokkur nefnd það ,ekki svo ég viti .Hvað hefur gerst í þeim löndum sem hafa gengið í efnahagsbandalagið ,það er allt orðið miklu dýrara í þeim löndum en áður var s.s á spáni ,meira segja spánverjar kvarta yfir því ,Svíar eru að hugsa sinn gang og sjá eftir því að hafa gengið í efnahagsbandalagið ,og hvað eigum við bara sísvona þegar við vitum að ekki er allt gott sem kemur þaðan að hoppa um borð þegjandi og hljóðalaust,víst eru óveðurský sem hrannast upp í augnabilinu en það gengur yfir ,víst er um það að það eru miklir peningar til í landinu ,þó flestir bankar hafi nú stoppað allar fyrirgreiðslur en í staðinn sitja þeir uppi með þvílíkt magn af peningum sem þeir vita ekki hvað þeir eigi að gera við.
Það styttir up um síðir og hjólinn fara að snúast eðlilega ,reyndar held ég að þau snúist eðlilega nú þegar ekki er að sjá að um mikla kreppu sé að ræða miðað við öll kaup á bílum og ferðalög landans .
nei þetta er mest í munnum manna sem hafa tapað miklu á oforsi og óraunhæfum væntingum um skjótan gróða ,svokallaðri græðgi.
Guðmundur E.Jóelsson (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.