18.3.2008 | 23:11
Erlendir markaðir taka við sér - mun vart hafa áhrif á Íslandi í bráð
Aðgerðir Alríkisbankans bandaríska (Federal Reserve) höfðu jákvæð áhrif á mörkuðum um allan heim í dag. Ársfjórðungsuppgjör stóru fjárfestingabankanna gerðu einnig sitt til þess að auka trú fjárfesta á mörkuðum, en Goldman Sachs og Lehman Brothers skiluðu báðir hagstæðara fjórðungsuppgjöri en búist var við. Samfara stýrivaxtalækkuninni voru vextir sem liggja til grundvallar kreditkortaviðskiptum, bílaviðskiptum og húsnæðisviðskiptum einnig lækkaðir þar vestra. Eins og gefur að skilja munu lánveitingar aukast í kjölfarið, sem er jú hin hliðin á aukinni neyslu. Hins vegar má búast við að dalurinn lækki enn frekar og að neysluvörur muni hækka í verði.
Stýrivaxtalækkunin vestanhafs kann að hafa hjálpað verðbréfamörkuðum víðast hvar, alla vega um skeið. Hins vegar munu þeir varla hafa mikil áhrif hér, því verðbréf íslenskra fjármálafyrirtækja eru væntanlega enn of hátt skráð. Þess utan hefur krónan lent í afar hraðri gengisaðlögun, frjálsu falli nánast, sem skýrist m.a af vantrú og mikilli skuldasöfnun íslenska hagkerfisins undanfarin ár. Fleira mætti og telja sem skýrir aðlögun krónunnar en hraði aðlögunarinnar liggur væntanlega í vantrúnni, ekki bara erlendis, heldur og heima á Íslandi. Stjórnmálamenn, viðskiptajöfrar og fleiri hafa jú verið duglegir við að grafa undan trausti á íslensku krónunni undanfarið.
Allt þetta hefur gert það að verkum að krónan hefur verið í frjálsu falli síðustu daga og hefur nú hugsanlega lent í yfirskoti - en við sjáum til hverju fram vindur næstu daga. Erfitt verður fyrir Seðlabankann íslenska að meta stöðuna fyrir næstu ákvörðun stýrivaxta. Umrótið er mikið og erfitt að henda reiður á framvindu efnahagsþátta. Ríkisstjórnin getur varla annað en beðið af sér storminn - en í ljósi verðhækkana sem eiga eftir að dynja yfir íslenska neytendur er eins gott að hún mæti henni að einhverju leyti með þeim ráðum sem henni standa til boða. Hún gæti t.d. lækkað bensínskattinn innan ekki langs tíma og í leiðinni lækkað skattprósentuna á allt íslenska hagkerfið.
Hlutabréf hækkuðu vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.