27.3.2008 | 14:09
Klofningurinn eykst hjá Demókrötum
Við sérhverjar forsetakosningar er þess að vænta að hluti annars stóru flokkanna kjósi frambjóðanda hins flokksins. Nokkur hluti Demókrata kaus meira að segja Bush yngri fyrir hartnær fjórum árum en mest bar þó á þessu þegar allt að fjórðungur Demókrata kaus Ronald Reagan á sínum tíma. Mjög margir Demókratar studdu einnig Richard Nixon í kosningunum 1972. Nú horfir svo við að all margir ætla að styðja McCain, nái þeirra frambjóðandi ekki útnefningu. Allt að 19% stuðningsmanna Clintons hugleiðir að styrkja McCain nái Obama að sigra en allt að 28% stuðningsmanna Obamas segjast styðja McCain nái Clinton útnefningunni (CNN). Hillary virdist ekki einungis fara í taugarnar á flestum Repúblikönum, heldur einnig all mörgum í hennar eigin flokki.
McCain virðist sigla lygnan sjó þessa dagana. Helst er gert góðlátlegt grín að því hve illa hann ræður við hjálpartækin uppi í ræðustól. Hann virðist ekki hafa vald á að lesa ræðurnar sínar af alls kyns skjám, sem kann að skaða framboð hans ef hann þarf að mæta manni á borð við Obama, sem virðist líða hvergi betur en uppi í pontunni. Eins og gefur að skilja deilir McCain ekki áhyggjum Demókrata af slagnum á milli Clinton og Obama, sem harðnar með degi hverjum. Hann getur m.a.s. leyft sér að halda langar ræður um málefnin án þess að nefna forsetann með nafni og þannig skilja sig að nokkru frá persónu Bush yngri, jafnvel þó þeir deili skoðunum á einstaka mikilvægum sviðum.
Í ljósi óvinsælda núverandi forsetan hafa fjölmargir sagt sem svo að ef Demókratar vinni ekki forsetakosningarnar í haust, séu þeim allar bjargir bannaðar. Clinton hefur nú síðast sagst ætla að berjast áfram, þó svo að sigurlíkur hennar hangi á að eitthvað verulega slæmt gerist í herbúðum Obamas. Ef Obama heldur sínu striki næstu vikurnar og fáu mánuði er nánast útilokað að Clinton fangi 2/3 þeirra atkvæða sem eftir eru, sem hún þarfnast til þess að skríða fram úr Obama að fulltrúatölu. Með þessari yfirlýsingu mun Clinton tryggja að Demókratar mæti klofnir til flokksþingsins í Denver í lok ágúst og ef allt fer á versta veg munu Demókratar sjálfir hafa kastað frá sér sigrinum í haust.
Vinsældir Hillary Clinton minnka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.