8.7.2008 | 11:35
Að kenna dönsku ungviði - Bandaríkin kaupa Jómfrúareyjar
Ég hef verið búsettur í Danmörku í rúm tvö ár og fengist þar aðallega við kennslu. Auk þess að kenna dönsku ungviði fög á borð við stærðfræði, ensku, sögu, íþróttir og annað, náði ég þeim merkilega áfanga að reyna að kenna þeim þeirra eigið móðurmál. E.t.v. er það ekki í frásögur færandi, annað en það að danskan hefur reynst mér erfið viðureignar. Á löngum köflum hefur mér beinlínis þótt málið fara illa með hljóðhimnur mínar, reynt um of á tungulipurð mína og viðkvæmt fegurðarskyn. Ef nokkuð tungumál verðskuldar titil á borð við hrognamál þá er það danskan. Vitanlega þykir Dönum sitt eigið mál fagurt, nema ef um er að ræða óskiljanlega Suðurjósku - af slíku hafa þeir meira gaman en annað og eigna þeim alls kyns sérkennilegheit.
Reyndar fór það nú svo að tilraunir mínar til þess að kenna dönsku ungviði dönsku fólust aðallega í því að vakta vinnuna þeirra í tímum en þess á milli gátu þau fremur leiðbeint mér, sérstaklega í framburði. Danir eru margir hverjir meðvitaðir um sinn danska framburð og danskir unglingar víla ekki fyrir sér að leiðrétta mann í tíma og ótíma. Nokkuð er liðið síðan ég kenndi á Íslandi en þrátt fyrir sumt ágætt í fari danskra ungmenna, efast ég um að íslensk börn standi þeim eitthvað að baki. Hér á ég í senn við framferði/hegðun og framgang/getu í skóla. Sérstaklega kom mér á óvart að enskan væri ekki betri hjá dönskum ungmennum.
Tvennt vakti athygli mína hvað hegðun og slíkt varðaði. Annars vegar virtist framkoma barna og unglinga tengjast yfirstjórn sérhvers skóla. Framkoman batnaði eftir því sem yfirstjórnin var tekin ákveðnari tökum - einnig kann persónuleiki stjórnenda hafa haft með málið að gera. Hins vegar reyndist erfiðara að halda góðri stjórn í kennslu eftir því sem fleiri börn voru af innflytjendaheimilum múslima í hverjum bekk. Þetta átti sérstaklega við um drengi á tilteknum aldri. Þessu viðhorfi voru allir þeir kennarar sammála sem ég ræddi við og voru þeir ófáir - engin undartekning! Þetta vakti nokkra furðu hjá mér því mín upphaflega hugsun var sú að innflytjendur hefðu það ofarlega í huga að innprenta hjá börnum sínum góða hegðun í nýju landi.
Vitanlega kom margt fleira upp á yfirborðið en hjá börnum múslima. En "dönsk" börn eru ekki alin upp á "kristnum" heimilum. Í Danmörku búa menn að vísu að kristnu siðferði en trúarlega séð standa þeir nær því að trúa á mátt sinn og megin - og þá sérstaklega velferðarkerfið sitt. Ég held að þeir tali um velferðina af meiri andagt en flest annað, nema ef vera skyldi gott gengi danskra íþróttamanna á alþjóðavettvangi þegar það er í boði. Þeir mega reyndar vera ánægðir með hve vel er hugað að fjölmörgum velferðarmálum en að sama skapi mættu þeir tileinka sér auknar áherslur í sjálfsábyrgð og að rétta sjálfum sér hjálparhönd. Það sem heldur uppi danska velferðarkerfinu er þrátt fyrir allt afar öflugir markaðstengdir atvinnuvegir, m.a. á sviði verslunar, alþjóðaviðskipta, iðnaðar o.fl.
Fleira er Dönum hagstætt. Þeir eiga gjöfular gasvinnslur í Norðursjó, landið er þéttbýlt, lágreist en að vísu all margar eyjar. Veðurfar er hagstætt, landið gjöfult og sjórinn umkring var alltént gjöfull í eina tíð - hann er þá bara gjöfull við Grænland í staðinn. Landið er í alfaraleið verslunar og viðskipta og Danir hafa löngum búið að auðugum nýlendum. Þeir eru sniðugir í viðskiptum og voru m.a. svo séðir að selja Jómfrúareyjar í Karíbahafi Bandaríkjamönnum árið 1917 fyrir metfé, 25 milljónir dollara í gulli. Það samsvaraði 48 tonnum í gulli og afhenti Bandaríkjastjórn danska ríkinu við hátiðlega athöfn tékka upp á framangreinda upphæð. Með því sparaðist m.a. flutningskostnaður gullsins.
Fimmtíu árum áður höfðu Bandaríkjamenn keypt Alaska fyrir 7 milljónir dollara af Rússum, sem verða að teljast bestu fasteignakaup allra tíma. Ef menn vilja leika sér að tölum geta menn séð, miðað við gengi gulls þessa dagana, að upphæðin fyrir Jómfrúareyjarnar fer vel yfir hundrað milljarða króna í stað þess ef miðað væri við dollaragengi. Sama hvernig á málið er litið voru þetta gríðarlegir fjármunir í þá daga - á tíma þegar heimsstyrjöldin fyrri var í algleymingi og einungis stutt þar til Bandaríkjamenn helltust sjálfir út í styrjöldina á vígvöllum Evrópu. Eyjarnar hétu reyndar "Danish West Indies" áður en bandaríski flotinn tók yfir og fljótlega urðu tengsl Dana við eyjarnar gleymskunni að bráð í Danmörku. Allra síðustu ár hafa Danir hins vegar uppgötvað á ný þessa paradís í Karíbahafi og hafa verið duglegir að heimsækja hana upp á síðkastið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.