Hárrétt!

Árangur íslenska sundfólksins hefur til þessa valdið nokkrum vonbrigðum. Hver keppandinn á fætur öðrum nær ekki markmiðum sínum, sem verður að teljast mikil vonbrigði fyrir hvert og eitt þeirra. Þau eru glæsilegir fulltrúar sinnar íþróttar, myndarleg og bjartsýnt ungt fólk, en sú spurning hlýtur að vakna hvort þau eigi erindi á Ólympíuleika, nú þegar ljóst er að þau raða sér í neðstu sætin. Ekki er við því að búast að allir bæti sig í Peking en hví eru íslensku keppendurnir svona langt frá fyrrnefndum markmiðum? Þau hljóta að spyrja sig hvort ferðin hafi verið til fjár og við, sem borgum brúsann, hljótum að spyrja hins sama. Er ekki of langt seilst fyrir fámenna þjóð að senda sundmenn yfir hálfan hnöttinn, til þess eins að verma síðustu sætin?

Þátttakan í badmintoni þykir mér saga útaf fyrir sig. Hvers vegna í ósköpunum var þessi unga kona að leggja svona mikið á sig til þess eins að fara á Ólympíuleika hálf sködduð? Hún hefur látið það vera að koma lagi á hnéð á sér um langt skeið vegna þess að það gæti skaðað möguleika hennar að komast til Peking. Merkilegt þótti mér einnig að kennna andstæðingnum um að notfæra sér veikleika sinn. Nær lagi væri að hún kenndi sjálfri sér um og lofaði því að fara ekki á aðra Ólympíuleika illa gróin sára sinna. En viti menn, hún segist nú reiðubúin að ná sér af meiðslum og stefnir ótrauð á London 2012 - ekki má nú minna vera!

Nú, sem fyrr, vakna spurningar sem snúa að þátttöku íþróttafólks sem vitað er að ekki mun vera framarlega í sínum greinum, hvað þá að eiga möguleika á úrslitaviðureignum og verðlaunum. Það er ekki leiðinlegt að horfa á glæsilegt ungt íþróttafólk ganga inn til setningarathafnar hverju sinni en jafnframt því að íslensk þjóð leggur til mikla fjármuni í verkefnið verður að gera örlítið meiri kröfur en "að vera með" og verma neðstu sætin í hverri keppnisgreininni á fætur annarri. Íþróttafólkið sjálft verður og að gera þá kröfu til sjálfra sín. Vonandi munum við fá tækifæri til þess að gleðjast yfir árangri íslensks íþróttafólks á næstu dögum og sér í lagi vonar maður eftir góðum árangri handboltaliðsins.


mbl.is Erla Dögg: „Ekki nógu gott hjá mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mikil viðurkenning fyrir íþróttamann að vera sendur á Ólympíuleika. Þetta eru krakkar sem hafa náð lágmörkum, sem eru mjög erfið, þegar þau eru sett, eru þau oft undir gildandi íslandsmetum. Lágmörkin, og það að fá að fara á ÓL ef þeim er náð, eru frábær markmið. Þau eru reyndar að standa sig MJÖG vel, þó þau séu ekki að bæta sig, enn sem komið er, en á því geta verið margar skýringar.  

Hvernig borgar þú fyrir brúsann ? Er þetta allt greitt af almannafé ? hversu stór upphæð er það ? eru engir styrktaraðillar, eða safnanir gerðar áður en lagt er í hann ? ég er ekki alveg viss um að þú borgir svo stórann hluta af brúsanum, eins og þú ert að gefa í skyn.

reynir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 13:47

2 Smámynd: Ólafur Als

Íslensk þjóð ... ekki einungis skattfé, heldur eru styrktaraðilar og aðrir hluti af íslenskri þjóð. Skiptir ekki höfuðmáli hve stór hlutinn er fyrir mig persónulega.

Hér mega menn ekki halda að ekki sé skilningur á erfiðinu sem liggur að baka því að komast á Ólympíuleika en ekki fæ ég skilið að þau séu að standa sig "MJÖG" vel þegar þau segjast sjálf vera óánægð með árangurinn. Ungmennafélagsandinn dugar ekki alveg fyrir farmiðanum í mínum huga.

Við skulum vona að enn sé pláss fyrir bætingar en þess utan tel ég að gera eigi meiri kröfur en lágmarksviðmið Ólympíuleikanna. Ég fæ ekki skilið ánægjuna af því að lenda svona aftarlega á merinni, né sé ég tilganginn með því. Slíkt getur varla verið sérleg hvatning fyrir yngra íþróttafólk ... en hér er vitanlega um mitt persónulega álit að ræða.

Ólafur Als, 11.8.2008 kl. 14:03

3 identicon

Þau eru að standa sig mjög vel. T.d. bætti Örn Arnarson sig, frá því á síðasta stórmóti, og synnti á betri tíma en hann var skráður, þó hann hafi ekki synnt á íslandsmeti sínu (sem er nokkura ára gamalt), Erla synti á sínum næstbesta tíma. Auðvitað væri frábært ef þau væru að bæta sig, en það er alls ekki gefið að það gerist. Hugsanlega mætti skoða hvort mataræði og þjálfun sé í lagi þarna úti, í þessu samhengi.  Þessir afreksíþróttamenn, sem setja Íslandsmet og standa sig langbest í sínum greinum, eiga að fara á öll stórmót sem þau ná lágmörkum á, því það að taka þátt í stórmóti er mikil æfing fyrir næsta stórmót. Það er allt annað að synda 100m skriðsund í sundhöllinnni eða á ÓL, þó sundtökin séu þau sömu. Þessir krakkar, sem eru að keppa á stórmótunum, gengur stundum vel, auðvitað ekki alltaf, eru miklar fyrirmyndir yngri krakka.

Það að ná lágmörkum á ÓL er afrek í sjálfu sér, erfiðustu lágmörk sem þekkjast í þessum greinum.

Ég skil ekki hvaða bull þetta er með peningana í þér, ég held þetta snerti þína pyngju nánast ekki neitt. Það er bara gott mál að einhver fyrirtæki vilji styrkja þessa krakka, sem myndu annars borga sínar ferðir sjálf ef þau hefðu kost á. Ef ég skil þig rétt þá þykir þér verst hvernig fé er sólundað í þessa "vitleysu", þegar við vinnum ekki neitt. Liði þér í alvörunni betur með að borga "nánast ekki neitt af þessu" ef krakkarnir kæmu heim með medalíur ? 

Þegar öllu er á botnin hvolft getum við bara verið mjög stolt af því að eiga þarna krakka sem komust inn á ÓL á eigin styrk, þrátt fyrir að skoðanabræður þínir hafi eflaust lagt þeim steina í götur, til að gera þeim erfitt fyrir með það.  

Smá fróðleikur að lokum:
Það er reyndar ekki alveg nóg að ná lágmarki, heldur verður maður að vera sá sterkasti hérlendis í tiltekinni grein. Þannig að ef einhver annar hefur náð lágmarkinu líka, þá verður maður að vera með betri tíma en hann. Þessi regla er heimatilbúin regla, því þjóð má senda fleirri keppendur en 1 til þátttöku í hverri grein.  

reynir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 17:11

4 Smámynd: Ólafur Als

Reynir,

ég held að ég sé ekki einn um það að finnast við Íslendingar vera nokkuð góðir í afsökunum eða útskýringum á miður góðu gengi. Sem betur fer sýnast mér keppendurnir sjálfir vera raunsærri en þú - þeim finnst árangurinn alla vega ekki vera nógu góður. Ég er því sammála. Að því sögðu hlýtur að vakna sú spurning hvaða erindi þau eiga á leikana - því þar keppa hinir bestu í vel flestum greinum íþrótta. Ólympíuleikarnir eru keppni hinna albestu og því ávallt spurning hve langt á að teygja sig í að senda miðlungsíþróttamenn, þ.e. miðlungsíþróttamenn á alþjóðavísu. Við eigum íþróttamenn í fremstu röð, s.s. í handbolta, og við erum öll sammála um að senda slíkt afreksfólk, fái það tækifæri til þess.

Við erum sammála um að þessir ungu keppendur eru glæsilegir fulltrúar ungs fólks, um það er ekki efast. Ekki veit ég hvaðan þú hefur að ég eða aðrir hafi mögulega lagt stein í götu þessa unga fólks en ekki eru slíkar aðdróttanir, né tal um að fólk bulli, þér til framdráttar. Hvað fjármálin varðar, þá er hér um hápólitískt mál að ræða og varðar ekki einungis fjármuni sem hið opinbera leggur til, heldur samfélagið í heild sinni og hvernig þeim fjármunum verður best varið. Keppendur á leikunum eru fulltrúar ÍSLANDS - ekki sjálfra sín - ég held að það sé gott að halda því til haga.

Að öðru leyti verðum við að vera sammála um að vera ósammála - enda er ekki tilgangur þessa skrifa að kalla einungis fram jábræður og systur, heldur umræðu þar sem gagnrýnin hugsun er þátttakandi.

Ólafur Als, 11.8.2008 kl. 18:31

5 identicon

gott að edison ,einstein ofl hafi ekki verið með þetta hugarfar gefast upp áður en byrjað er ;)

steinar (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband