28.8.2008 | 11:25
Ny Alliance á nýjum klæðum
Hið nýja nafn, Liberal Alliance (Frjálslynda bandalagið), er í takt við þær pólitísku áherslur sem flokkurinn hans Khaders stendur fyrir. Í Danmörku er orðið "liberal" samtengt borgaralegum viðhorfum. Sá meðbyr sem hið nýja afl fékk í skoðanakönnunum í Danmörku á sínum tíma fór fyrir lítið skömmu fyrir kosningar. Þar lögðust á árar að Khader lenti í fjölmiðlarimmu út af því sem í raun mætti telja smámál og einnig að flokkurinn var nýstofnaður og hafði ekki fullmótað stefnuskrá sína eða náð að kynna almennilega til sögunnar sumar helstu stjörnurnar sem virtust ætla að styðja þetta nýja afl.
Mál það sem fjölmiðlar gerðu svo mikið úr varðaði reikninga fyrir þjónustu sem Khader hafði keypt - látið var að því liggja að svört vinna hefði verið innt af hendi. Ekkert sannaðist í málinu en fjölmiðlar fóru samt hamförum og eftir sat hinn nýi formaður pólitískt særður og fylgið hrundi af Ny Alliance rétt fyrir kosningarnar. Eitt af því sem hafði vakið athygli var að sumir afar frambærilegir einstaklingar höfðu hrifist af hinu nýja framtaki og buðu sig fram til þjónustu. Er á reyndi stóðu þeir ekki alveg undir væntingum í kosningabaráttunni og e.t.v. var framvarðasveitin ekki nægilega samstíga í ljósi hins stutta undirbúnings sem flokkurinn hafði til þess að móta sín mál.
Hin frjálslynda og borgaralega sýn Ny Alliance hugnaðist mörgum í upphafi kosningabaráttunnar enda litu sumir á þá sem valkost gegn Danska Þjóðarflokknum. Þeir keyrðu á frjálslyndi í innflutningsmálum og borgaralega efnahagsstefnu með dönsku velferðarívafi, svo nokkuð sé nefnt. Ágæt dönsk vinkona mín ein, sem alla jafna hefur verið vinstra megin við miðju hreifst mjög af hinu nýja afli í upphafi og sérstaklega aðkomu eins eða tveggja framámanna í dönsku þjóðlífi hjá flokknum. Að lokum reyndust hinar kratísku taugar sterkari en svo að hún gæti ljáð þeim atkvæði sitt. Svo fór og að flokkurinn rétt náði inn 5 mönnum, sem í raun voru mikil vonbrigði.
Nú vill flokkurinn festa í sessi hina frjálslyndu og borgaralega stefnu og ætla sér fyrir næstu kosningar að tilnefna borgaralegan forsætisráðherra en það er siður í Danmörku að flokkar skipi sér í rauðleita eða bláleita sveit með þeim hætti. Anders Fogh var sniðugur síðast og efndi til kosninga án þess að Ny Alliance gæti náð vopnum sínum. Fogh kom vel út úr kosningunum og hans borgaralega stjórn hélt velli. Nú er að sjá hvort Frjálslynda bandalagið nái að festa sig í sessi og verða það mótvægi við Þjóðarflokkinn sem honum var ætlað, þ.e. að tryggja borgaraleg og frjálslynd sjónarmið, einnig í innflutningsmálum.
Nýtt bandalag breytir um nafn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.