9.9.2008 | 10:41
Kjarnakona tekur við stjórnartaumunum
Lene Espersen er vel að því komin að leiða íhaldsflokkinn danska. Hún er fylgin sér og býr yfir þokka en jafnframt ákveðni sem hefur komið henni vel í mörgum þeim málum sem hún hefur þurft að tækla í sínu embætti. Frammistaða hennar í t.d. málefnum ungmennahússins og þeirra "óeirða" sem fylgdu því lengi vel var til sóma. Eins hefur hún tekið á ýmsum málefnum löggæslu af festu, auk annars sem lítið hefur borið á. Hún er sæmileg vel liðin, jafnvel út fyrir raðir borgaralegra.
Íhaldsflokkurinn hefur ekki átt nema sæmilegu fylgi að fagna í undanförnum kosningum, Venstre hafa verið kjölfestan í borgarastjórn undangenginna missera og aldrei að vita nema henni takist að lyfta flokknum á hærra plan og gera tilkall til forystu í sveit borgaralegra flokka í Danmörku. Rasmussen mun vart leiða Venstre framyfir næstu kosningar en þar á bæ stendur mikill styrr um hugsanlegan eftirmann hans. Sósurnar hafa ekki náð fyrra flugi og því er nú tækifæri fyrir íhaldsmenn til þess að láta ljós sitt skína.
Þó svo að ráðherra umhverfismála, Hedegaard, sé ekki valin til forystu mun hún áfram verða á meðal fremstu manna. Líklega er Espersen sterkari á svellinu í hugmyndafræðinni en Hedegaard hefur í orði kveðnu, ásamt stærsta hluta hinna borgaralegu afla í Danmörku, gefist upp gagnvart áróðri umhverfiselítunnar. Á næsta ári mun Danmörk (Kuapmannahöfn) hýsa stóra umhverfisráðstefnu sem hefði að öðrum kosti verið prýðilegt tækifæri fyrir Hedegaard að festa sig í sessi sem mikilhæfur leiðtogi á því sviði. E.t.v. mun Rasmussen reyna að fanga það hlutskipti.
Bendtsen hefur þurft að glíma við þá staðreynd að Venstre hafa haft mikilhæfan leiðtoga, sem hefur gert það að verkum að Íhaldsflokkurinn hefur staðið Venstre langt að baki í öflun atkvæða. Hins vegar hefur flokkurinn haft þó nokkur völd og Bendtsen hefur verið nokkuð farsæll í sínum störfum. Hvort Espersen hafi þá leiðtogahæfileika sem þarf til þess að leiða Íhaldsflokkinn til fyrri afreka mun koma í ljós. Flokkurinn siglir um margt lygnan sjó en næsta víst að Espersen þarf að sigla skútunni á ný mið ef henni á að takast að afla flokknum meira fylgis en þeirra 10-15% sem hann hefur verið í að undanförnu.
Leiðtogi danska Íhaldsflokksins segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.