16.9.2008 | 11:15
Idíótar
Það er nú svo sem ágætt að menn geti skemmt sér yfir svona vitleysu í allri bölsýninni. Annars gef ég ekki mikið fyrir síendurteknar tilraunir manna til þess að klína einhvern víkingastimpil á íslenska þjóð. Það er með eindæmum hvimleitt að horfa upp á tilraunir manna til þess að koma því inn hjá þjóðinni, að ekki sé talað um útlendinga, að á þessari eyju hafi búið víkingar til forna. Hér voru menn bændur og það þótti sérstaklega eftirtektarvert ef einstaka höfðingjasonur villtist í barbarí suður eða austur um höf. Sérhver tilraun til vopnaskaks var um aldir léleg eftirlíking alvöru stríðsleikja og náði hámarki á Sturlungaöld þegar þjóðin kastaði frá sér efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði.
Grettir er best geymdur sem misskilinn snillingur og ofbeldisseggur og algerlega fráleitt að reyna að færa hann í annan búning en Grettissaga býr honum. Alþingi Íslendinga má svo sem fjalla um Gretti ef því sýnist svo en mikil sneypuför yrði það ef þessir drengir í Einherja ætla sér að mæta á fund núverandi Noregskonungs, afkomanda danskrar höfðingjastéttar, sem á ekkert skylt við rummunga og aðra ofstopamenn sem stýrðu Noregi fyrir þúsund árum. Er ekki nóg komið af ölmusugjöfum frá Norðmönnum, hvort heldur til uppbyggingar á kirkjum, fræðasetri Snorra eða öðru, sem hefur jú ekki annan tilgang frá þeim séð en að festa í sessi einhvers konar ímynd um að Ísland sé hluti af Noregi.
Við skulum vona að það mæli þeirra mæður að þeir haldi sig heima.
Vilja að Grettir verði náðaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.