Mistök við stjórn efnahags- og peningamála - og hin innihaldslitla útrás

Hávaxtastefna Seðlabanka Íslands hefur um margt beðið skipbrot. Þessa dagana hamlar hún ekki verðbólgu, heldur ýtir undir hana, um leið og hún gerir atlögu að fyrirtækjunum í landinu og þar með efnahag landsmanna. Framundan eru gjaldþrot fjölda fyrirtækja, uppsagnir í stórum stíl og almenn lífskjaraskerðing á borð við það sem e.t.v. sást síðast í síldarhruninu mikla. Útrásin hefur og gert það að verkum að Seðlabankinn og ríkissjóður eru vanmáttugir að takast á við vanda fjármálastofnana nema að leggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar að veði.  

Mistök Seðlabanka Íslands

Í fyrsta lagi hefur hávaxtastefna bankans stuðlað að óeðlilega sterkri krónu undanfarin misseri. Það, ásamt með aðkomu erlends fjármagns á útsöluverði, hefur ýtt undir gríðarlega innlenda neyslu, dregið úr útflutningi og samanlagt hlaðið upp viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis sem á sér engin fordæmi í sögu landsins.Samhliða innspýtingu erlends fjármagns, m.a. vegna gjaldeyrisútsölu fjölmargra erlendra seðlabanka, gætti Seðlabanki Íslands þess ekki að auka bindiskyldu bankanna hér heima og þeir gátu óáreittir stundað sín lánaviðskipti án viðeigandi ábyrgða. Tilhneiging Seðlanbankans í þá veru að koma í veg fyrir að bankar og stærri fyrirtæki geri upp í erlendri mynt hefur haft sín áhrif á að skapa ójafnvægi og óvissu um starfsemi fyrirtækjanna. Ætli Landsvirkjun þakki ekki sínum sæla fyrir að gera upp í dollurum þessa dagana?

Til viðbótar þessu mætti nefna það ósamræmi sem ríkir um skráningu eigna og skulda inn og út úr landinu og ýmsa aðra tölulega upplýsingagjöf. Aukinheldur hefur Seðlabankastjóri á köflum talað í véfréttastíl og reyndar ekki fylgt eftir sumum yfirlýsinga sinna. Stjórnvöld hefðu, í samráði við Seðlabankann, fyrir löngu átt að leggja fram áætlun um það hvernig íslensk króna ætti að lifa af í ólgusjó alþjóða fjármálaheims. Og ef ekki, hvernig mætti skipta henni út fyrir lífvænlegri gjaldmiðil. Sú skylda hvílir enn á herðum ráðamanna.

Yfirvöld leggja útþenslunni lið

Kosningavíxill Framsóknarflokksins frá árinu 2003 hefur reynst dýrkeyptur. Með aðkomu bankanna að húsnæðislánakerfinu í krafti útsölufjárins, en húsnæðislánasjóður gerði hvað hann gat til þess að verða ekki undir í þeirri samkeppni, skapaðist þrýstingur á fasteignaverð langt umfram þá leiðréttingu sem eðlileg var. Þeir sem tóku lán í erlendri mynt sitja nú uppi með lán sem hækka upp úr öllu valdi á meðan verðmæti fasteigna þeirra stendur í stað eða fellur. Að lokum standa einstaklingar og fjölskyldur uppi eignalausar og e.t.v. með skuldahala til lífstíðar ellegar gjaldþrot.

Mikilsverð er aðkoma Reykjavíkurlistans á íbúðaverð á þessu tímabili. Með stefnu sinni og úrræðum ýtti Reykjavíkurborg upp lóðaverðinu, sem hafði sín áhrif á fasteignaverðsbóluna, en venjulegar fjölskyldur gátu ekki byggt sér eigið húsnæði, jafnvel þó svo að þau hefðu til þess bolmagn. Þessa stefnu hafa sveitarfélög allt í kring lapið upp og þarf nú orðið að fara rúmlega þingmannaleið frá Reykjavík til þess að komast í lóðir á viðráðanlegu verði.

Sá mikli afgangur, sem varð af rekstri ríkissjóðs á allra seinustu árum, var fjármagnaður að stórum hluta með gengdarlausri eyðslu landsmanna (viðskiptahalla) og hefðu stjórnvöld átt að gera allt sem í hennar valdi stóð til þess að draga úr þenslunni með ýmsu móti, s.s. með enn meiri kaupum á gjaldeyri, frekara aðhaldi í ríkisrekstri, standa gegn útþenslu hins opinbera, e.t.v. slá á frest skattalækkunum og leggja bönkunum strangari línur um starfsemi sína. Fleira mætti og nefna, t.d. seinheppni núverandi stjórnvalda sem gat ekki beðið eina stund eftir að lækka matvælaskattinn, m.a. vegna þrýstings frá s.k. Evrópusinnum.

Fleiri orð mætti hafa um aðkomu ríkisins og alþingis að reglugerðarverkinu og þeim eftirlitsstofnunum sem ætlað er að fylgjast með starfsemi fjármálastofnana og stærstu fyrirtækja. Sérstaklega er horft til þess aðskilnaðar sem á að vera á milli lánastarfsemi banka og áhættusækins rekstrar þeirra. Einnig hefur lengi verið fundið að skörun eignatengsla, sem eins og hver heilvita maður sér að getur falið í sér slæmar keðjuverkanir.

Útrásin byggð að hluta á sandi

Nú er komið á daginn að hinir eitursnjöllu viðskiptajöfrar hafa spilað að nokkru með efnahagslegt fjöregg þjóðarinnar. Einhverra hluta vegna töldu þeir, og jafnvel þjóðin öll, að þeir hefðu yfir að ráða getu og hæfileikum til þess að stýra fyrirtækjum á erlendri grund betur en þarlendir einstaklingar. Í krafti verðbréfabólu og í upphafi nokkurs fjár stóð þeim erlent lánsfé alls staðar til boða - og það nýttu íslenskar fjármálastofnanir sér óspart í viðleitni sinni til þess að laða til sín viðskiptavini og ýta undir neyslu almennings, viðlíka og aldrei hefur áður sést.

Nú, þegar kreppir að á lánamörkuðum, hefur komið á daginn að ekki er til fyrir stórum hluta lánanna að baki fjárfestingum útrásarinnar. Íslendingar hafa margir hverjir ekki reynst betri stjórnendur en fyrirrennarar þeirra og þeir hafa í ofanálag haft sérstakt lag á að fjárfesta í greinum sem nú standa illa. Í öllu þessu hafa hluthafar keypt þau rök að borga ætti þessum einstaklingum ofurlaun og kaupréttarsamninga upp á hundruðir milljóna króna, jafnvel milljarða - sem svíður mörgum þessa dagana.

Hvað er til ráða?

Hávaxtastefnan veldur enn búsifjum. Hún hefur átt sinn þátt í hruni gjaldmiðilsins ásamt með stöðunni á lánamörkuðum heimsins. Fyrirtæki landsins hafa ekki aðgang að fé nema á okurvöxtum. Veiking krónunnar mun sjá til þess að verðbólga helst hér enn há og kynda undir það bál sem brennur nú á efnahag landsmanna. Háir vextir gera ekki annað en að hægja á hjólum efnahagslífsins, að því marki að í óefni er komið.Nú ríður á að stjórnvöld sýni festu í orði og á borði. Vandræði á fjármálamörkuðum heimsins eru ekki á valdi forsætisráðherra en þessi annars grandvari og ágæti maður þarf að spýta í lófana og hefja upp raust sína.

Kalla þarf til aðila atvinnulífsins og leggja drög að bjargráðaáætlun, ekki einungis fyrir fjármálafyrirtækin, heldur einnig heimilin í landinu. Sú áætlun sem nú er verið að smíða mun vonandi blása lífi í gjaldeyrismarkaðinn en án hans stöðvast efnahagshjólin fljótt og við blasir hrun. Að auki gæti tafarlaus lækkun vaxta e.t.v. slegið á þann kúf gjaldþrota og þrenginga sem þegar steðja að hjá fyrirtækjum landsins. Í ljósi endurskoðunar á húsnæðislánum bankanna þolir sú aðgerð ekki mikla bið.

Það er ekki ofsögum sagt að efnahag landsmanna sé nú stefnt í voða og framundan sé marséring yfir til Brusselvaldsins með skottið á milli hælanna - ef þeir á annað borð vilja okkur. Ekki glæsileg niðurstaða, ef það reynist eina leiðin úr þeim ógöngum sem íslenskt efnahagslíf er nú í. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll. Ég má til með í ljósi pistils þíns benda þér á bút úr fróðlegum pistli hins hagfróða Gunnars (með því að smella á fyrirsögnina má sjá pistilinn í heild sinni). Ég hvet menn til að lesa ótal önnur góð skrif hans um efnahagsmál og evru sem og esb aðild. :

Gunnar RögnvaldssonGunnar Rögnvaldsson      Sunnudagur, 14.9.2008

Frjálst fall skoðana á efnahagsmálum

2) Handafl í gengisskráningu krónu (gamla aðferðin): Verðbólgan er þarna og það er verið að vinna að því að ná henni niður með háum stýrivöxtum. Hvernig hún kom skiptir ekki máli því hún er hér, hefur einnig komið til allra annarra landa sem hafa verið að aðhafast eitthvað að ráði, og til allra þeirra landa sem eru ekki að fækka sér í mannfjölda eða sem eru stöðnuð. Ef Íslendingar fjölga sér um 2% á ári þá má allavega gera ráð fyrir að verðbólga verði að minsta kosti 2%. Það er enn mikið púður i tunnunni á Íslandi, og meira en víðast annarsstaðar í hinum vestræna heimi, verið þrátt fyrr allt ánægð með það.

Lettland, er núna með 16,5% verðbólgu, Búlgaría með 14,4%, Litháen með 12,4% (ESB lönd). Kína, Indland, Brasilía og Tyrkland eru einnig með mikla verðbólgu. Brasilía er með 13% stýrivexti og stýrivextir í Tyrklandi eru enn hærri en á íslandi eða 16,75%. Lúxemburg og Belgía eru með um 6% verðbólgu og því neikvæða vexti eins og er því þau hafa jú ekkert að segja um stýrivexti myntbandalagsins. Sjálft elliheimilið ESB er með 4% verðbólgu í heild.

Að taka handaflið í notkun mun þýða flótta allra fjármuna úr þjóðfélaginu. Þið þyrftuð því einnig að loka dyrunum til umheimsins. Þá gætuð þið labbað um á lakkskónum um tóma kauphöll, kassar allra væru eins galtómir og á hausnum eins og þeir voru á handaflsárunum. Þetta yðri sannkölluð handsprengja eins og Eyþór Arnalds svo réttilega nefnir á blogg sínum.

Það er ekkert atvinnuleysi á Íslandi, það er ennþá meiri hagvöxtur á Íslandi en í flestum öðrum löndum, kaupmáttur er góður þrátt fyrir rýrnun vegna gengisfalls. Allar afurðir frá Íslandi eru eftirspurðar á mörkuðum, og útflutningur blómstrar vegna þeirra góðu fræja sem sáð var á undanförnum árum. Eina sem er að er verðbólga og afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakreppu. Þið vilduð kanski óska ykkur verðhruns á fiskmörkuðum sem kallaði alltaf á hand- og heimagerðar gengisfellingar á handaflsárunum og væruð kanski fegin endurkomu Fjallfossa Bæjarlækja fjármagns skattgreiðenda í ekki neitt. Núna er virk mynt landsins að afrugla of hátt gengi krónunnar, það tekur smá tíma, en árangurinn verður vonandi góður. Þetta kemur.

Já Seðlabankinn er með verðbólgumarkmið. Þetta er markmið og ekki náttúrulögmál. Þýski seðlabankinn náði í 50% tilfella markmiðum sínum á 20 árum frá 1980-1999. Seðlabanki evrópusambandsins er núna með verðbólgu 100% yfir markmiðum bankans og mun verða yfir þeim næstu 2 árin. Íslenska krónan var sett frjáls árið 2001. Stöðugleiki gengismála er langhlaup og ekki spretthlaup. Þetta kemur.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 5.10.2008 kl. 02:48

2 Smámynd: Ólafur Als

Gunnar er glöggur og vildi ég gjarnan trúa því að "þetta komi". Ég er bara ekki viss um að svo sé, tel að of mörg mistök hafi verið gerð, sem ein og sér valdi hér erfiðleikum, án nokkurrar skírskotunar til aðsteðjandi vanda á fjármálamörkuðum heims. Okkar litla hagkerfi er sérlega veikt fyrir því ástandi, eins og raunin hefur orðið allra síðustu daga, en þrátt fyrir allt hef ég tröllatrú á að ástandið muni batna um síðir og í framhaldi af því ná góðu flugi. Hér ræður miklu hve atvinnugrunnurinn er sterkur en mest er um vert að læra af mistökum undangenginna missera, sem í mínum huga eru ekki einungis stjórnvalda, heldur allrar þjóðarinnar.

Ólafur Als, 5.10.2008 kl. 03:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband