Þetta mun einungis versna ...

Eins og gefur að skilja munu þessar auknu álögur hækka lánin. Um það þarf ekki að þrefa. Ég tel reyndar að hækkunin sé lítillega meiri en Gylfi rekur. Landsmenn verða að átta sig á að byrðar heimilanna munu aukast með einum eða öðrum hætti. Öðrum kosti verður ekki hægt að greiða fyrir "bjargráðin" dýru. Stór hluti skattpeninga okkar mun fara í að greiða upp krónubréfin, IceSave reikningana, lánapakka IMF og uppbyggingu bankakerfisins. Upphæðin nemur meira en þúsund milljörðum króna og greiðist væntanlega ekki upp fyrr en að einhverjum áratugum liðnum.

Farsælla er að hækka álögur í gegnum skatta heldur en með hækkunum gjalda hins opinbera. Með því móti er betur hægt að stýra á hvers herðar þetta lendir og tryggja að launalægstu heimilunum sé að mestu hlíft og umfram allt munu lánin ekki hækka að sama skapi. Þessu til viðbótar þarf að laga vísitölugrunninn sem allra skjótast að nýjum og mjög svo breyttum veruleika en hann er þessa dagana að mæla góðærisneyslu en ekki kreppuneyslu.


mbl.is Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þess að fikta í vísitölugrunninum, en því miður, ef það verður ekki gert má búast við að íbúðalánasjóður og aðrar lánastofnanir muni sitja uppi með meira en 10% allra íbúða á landinu innan tveggja ára. Þetta byggi ég á því að 20% landsmanna eiga minna en 20% í íbúðarhúsnæði sínu og verða komnir með neikvæða eign innan árs.  Þá hafa lánastofnanirnar um tvennt að velja sitja uppi með íbúðirnar sem þær hafa ekki efni á eða að selja þær sem mun þrýsta verðinu enn neðar. 

Hvor kosturinn er þá betri að breyta vísitölumælingunni eða keyra í þrot?

Sigurður Þórðarson, 13.12.2008 kl. 01:06

2 Smámynd: Ólafur Als

Nokkuð er um vert að vísitölugrunnurinn mæli ekki hærri verðbólgu en raunin er. Sérstaklega við núverandi ástand. Neikvæð eignastaða er í sjálfu sér ekki gjaldþrot en sú staða er þrælsástand og gefur fólki ástæðu til þess að pakka öllu saman og koma sér í burtu. Ef fólk telur sig ekki sjá fram úr ástandinu missir það von og trú, sem er svo mikilvægt þessa dagana að verði endurreist. Við megum ekki við brostnum vonum á þessu landi harðra náttúruafla, þar sem sjálfstæðið er undir því komið að menn geti gengið hér um beinir í baki en ekki hoknir af áhyggjum og skuldsetningu til allt of langs tíma.

Ólafur Als, 13.12.2008 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband