27.12.2008 | 17:28
Blóði drifinn vígvöllur
Von um frið fyrir botni Miðjarðarhafs kviknaði fyrst eftir friðarsamninga á milli Egypta og Ísraels fyrir um 30 árum síðan. Eftir 2 blóðugar styrjarldir Ísraela og nágranna þeirra, undir forystu Egypta, 1967 og aftur 1973 virtist sem ferli hæfist sem gæfi Ísraelum von um e.k. frið við nágranna sína og um síðir að Palestínuarabar gætu öðlast í fyrsta sinn í sögunni sitt eigið ríki. Um svipað leyti færðist samúð umheimsins í átt frá Ísraelum yfir til Palestínuaraba. Ísraelar höfðu sýnt að þeir stóðu nágrönnum sínum framar á öllum sviðum hernaðar og ljóst var að yfirlýst áform margra Arabaríkja um gjöreyðingu Ísraels myndu ekki verða að veruleika.
Palestínuarabar hafa háð vopnaða baráttu til þess að vinna málstað sínum stuðning. Sá málstaður hefur í senn verið réttlátur og ranglátur. Annars vegar er ósk þeirra fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis og hins vegar hefur verið um að ræða vopnaða hryðjuverkastarfsemi undir gunnfána Islamista, sem unna sér ekki hvíldar, fyrr en eyðing Ísraelsríkis verður að staðreynd. Í krafti síns vopnavalds hafa Ísraelar svarað sérhverri ógn af hörku, sem er alla jafna ekki í samræmi við þá ógn sem þeir sjálfir verða fyrir. Það hefur m.a. orðið þess valdandi að stuðningsmönnum þeirra hefur farið enn fækkandi.
Réttur Ísraelsríkis til þess að verja sig er ótvíræður. Ísraelar hafa nú í 60 ár búið við ógnarástand, sem fól lengi í sér ótta um að ríki þeirra yrði afmáð af yfirborði jarðar. Seinni árin hefur öryggi almennra borgara verið ógnað af hryðjuverkaárásum af ýmsu tagi; eldflaugaárásum, sjálfsmorðsárásum o.fl. - en ekki hermanna. Bandaríkjamenn hafa alla jafna verið sá aðili sem stríðandi aðilar hafa þurft að leita til í viðleitni sinni til friðar og í lok forsetatíðar Clintons virtist sem stórt skref væri stigið í átt til friðar og stofnunar ríkis Palestínuaraba. Á síðustu stundu varð ekkert úr því og vilja sumir kenna fyrrum forystumanni Palestínumanna um það, þ.á.m. Clinton forseti.
Ísraelar hafa lýst yfir vilja sínum til þess að Palestínuarabar stofni eigið ríki. Það sem stendur m.a. í vegi fyrir því eru herská öfl Palestínumanna, studd af löndum á borð við Íran og Sýrland og áður Írak. Þessi samtök telja m.a. Hamas Al-Aqsa og fleiri. Það sem þau eiga sammerkt er yfirlýstur vilji þeirra til þess að eyða Ísraelsríki og reka Gyðinga í sjó fram. Knúnir áfram af trúarofstæki og reiði yfir framgangi Ísraela (Gyðinga) eru þeir ávallt reiðubúnir til þess að fórna ungu fólki á altari ofstækisins, hvort heldur er í formi sjálfsmorðsárása eða annars, sem veldur skaða og blóðbaði og kallar á hin hörðu viðbrögð Ísraelsmanna. Meira að segja þegar Ísraelsmenn sitja á höndum sér líta þeir á það sem veikleika og herða á aðgerðum sínum.
Ísraelsríki hefur verið í herkví í tæpan mannsaldur. Arabaríki og trúarleiðtogar Múslima hafa margir séð hag sinn í því að Palestínuarabar væru leiksoppar í stríðinu um landið fyrir botni Miðjarðarhafs. Mörgum Aröbum stendur því sem næst á sama um Palestínuaraba, en um það vitnar m.a. meðferð á þeim í mörgum Arabalöndum. Þó ekki öllum. Það er sárt til þess að vita að sverðið virðist eini gjaldmiðillinn í þeim átökum, sem birtast okkur nú í stórfelldum árásum Ísraelsmanna á Gasaströndina. Markmið þeirra er margþætt. Í fyrsta lagi að ráðast á herskáa meðlimi Hamas og í annan stað að minna á hernaðarmátt sinn - að eldflaugaárásum verður svarað með margföldum þunga hinnar ógnarsterku stríðsvélar Ísraelsmanna. Þetta vita forystumenn Hamas og á það treysta þeir.
Sem fyrr líða almennir borgarar á Gasaströndinni mest fyrir þessi átök. Það er blóð þeirra sem fóðrar hatrið og áframhaldandi stríðsátök. Núverandi Bandaríkjaforseti var sá fyrsti til þess að opinberlega lýsa yfir rétti Palestínuaraba til þess að stofna eigið ríki. Hann reyndi að leggja drög að áframhaldandi viðræðum á milli stríðandi aðila. En Hamas hefur ekki viljað taka þátt og hafa reyndar klofið Palestínumenn, sem hentar ofstækinu þeim megin vel. Hver veit nema nýr forseti vestra muni reynast farsælli í viðleitni sinni till þess að nálgast frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þangað til mun blóð og hörmungar saklausra borgara varða leiðina.
195 látnir, yfir 300 særðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Facebook
Athugasemdir
Ísraelar eiga bara að taka öll völd á Gazasvæðinu og elta uppi hvern einasta Hamasliða og hengja þá. Og beita allri þeirri hörku við þetta sem þeir hafa yfir að ráða...nota hernaðarlega yfirburði sína af fullum þunga í þessum aðgerðum. Þeir hætta kanski einhvern tíma á eftir...
Takk fyrir mjög góða færslu...
Óskar Arnórsson, 27.12.2008 kl. 21:22
Heil Hitler!
Nitwit!
Alfred Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.