8.1.2009 | 13:24
Enn er hlustað ...
Mér er spurn. Munu greiningadeildir bankanna áfram vera sá álitsgjafi sem fjölmiðlarnir hafa til sanninda um ástand peningamála á Íslandi? Segir það ekki nokkuð um áreiðanleika greiningadeildanna, að forsvarsmenn þeirra voru í framvarðasveit þeirra sem leiddu íslenska þjóð á asnaeyrum inn í verðbréfakaup og fjárfestingu í íslenskri útrás? Er búið að hvítþvo þessa hagfræðinga af þeirri vitleysu sem þeir predikuðu? Hafa þeir komið fram og sagt að e.t.v. hefðu greiningadeildirnar gert mistök - dýr mistök - sem kostuðu marga allan sinn sparnað og jafnvel meira til? Um margra ára skeið kokgleypti þjóðin við orðræðu og spakmannlegu yfirbragði þessara einstaklinga í dýrkun sinni á gullkálfinum. Þetta voru á meðal æðstu presta þess trúnaðar.
Þeir eru þrír, þessir einstaklingar, sem einhverra hluta vegna virðast hafa fengið syndakvittun hjá íslenskum fjölmiðlum. Sem fyrr eru þeir ósparir á sín álit, en þeir skrifa m.a í sameiningu undir það að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils sé ekki gott fyrir þjóðina. Úr því að þau eru svona sammála er sem mig gruni að þau hafi rangt fyrir sér. Reyndar var þessi kór hagfræðinga ekki sannfærandi. Greining þeirra var ekki góð - það fór einna mest fyrir öllum myndunum af fólkinu. Ekki ósvipað og þegar forsvarsmenn greiningadeildanna voru að tjá sig - þeir komu vel fyrir í sjónvarpi. Enda var þetta fólk á himinháum launum til þess að froðan klæddist sannfærandi búningi - enda beit þjóðin á agnið og enn eru fjölmiðlar með öngulinn í kjaftinum frá þessu fólki.
Veik staða krónu meginástæða hárra stýrivaxta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Facebook
Athugasemdir
sammála þér Ólafur
Sigurjón Jónsson, 8.1.2009 kl. 13:38
Þetta eru ekki greiningardeildir fyrir 5 aura, heldur auglýsinga og áróðursdeildir og ekkert að marka þá vitleysu sem þær láta frá sér fara. Flest af því sem þaðan kemur er svo tröllvitlaust, sérstaklega þó hjá Glitni. Þar eru algjörir álfar við stýri
<>En auðvitað er þessi greiningardeild Glitnis sóun á almannafé og ætti að leggja hana niður sem fyrst. Það er ekki verjandi að vera með þessa óvita og kjána í atvinnubótavinnu á þessum tímum.Guðmundur Pétursson, 8.1.2009 kl. 14:19
Guðmundur:
Vitanlega er ekki svo að allt sem frá þessu fólki kemur sé vitleysa. Það er nú einu sinni svo að þegar á að matreiða vitleysu ofan í fólk er það best gert með því að blanda hana með þó nokkru af viti. En vitanlega eru þetta áróðursdeildir, sem nú eru komnar í eigu hins opinbera. Að hve miklu leyti þarf að reka upplýsingaveitu, í formi hinna gömlu greiningadeilda, veit ég ekki. Væri ekki ráð að einhverjir flyttu mál núverandi greiningadeilda, gerðu grein fyrir hlutverki þeirra nú og til framtíðar?
Ólafur Als, 8.1.2009 kl. 16:48
Að leita til þessara svökulluðu greiningardeilda er grátbroslegt við núverandi kringumstæður....
Hörður Þórðarson, 9.1.2009 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.