25.1.2009 | 16:23
Nýtt lýðveldi - táknræn aðgerð?
Í kjölfar efnahagshrunsins hefur hver grunnstoð samfélagsins á fætur annarri brugðist eða laskast verulega. Í yfirstjórn landsins ríkir óvissa, sem líkja má við glundroða, og tiltrú almennings á stjórnmálamönnum og flokkum er sem næst horfin. Staðan er í raun uggvænleg því þörfin fyrir traustri landsstjórn hefur aldrei verið meiri. Efnahagslegt og hugmyndafræðilegt skipbrot virðist blasa við.
Sumir kalla nú eftir nýrri stjórnarskrá. Það er auðveldara sagt en gert, enda íslensk þjóð bundin af þeirri stjórnarskrá sem hún hefur nú. En vissulega hljóta að vera til leiðir til gagngerra endurbóta, sem beinlínis er ætlað að taka á þeim meinum sem nú er helst rætt um og varðar aðgreiningu og beitingu hins opinbera valds, kosningalöggjöf o.fl. Hvort menn vilji ganga svo langt að kalla eftir nýju lýðveldi tel ég á þessari stundu snúast um fagurfræði. En vissulega gæti slíkt haft táknræna merkingu og að því leitinu gott mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Athugasemdir
Nýtt lýðveldi er komið lýðveldi sem skikkar þingmenn til að vinna fyrir fólkið í landinu.
Offari, 25.1.2009 kl. 16:27
Táknræn aðgerð segirðu. Við búum í þjóðfélagsergð sem stendur á grunni sem gerður var fyrir áratugum síðan og þá hefur verið til hans vandað af þeim sem þá voru uppi. Tú er kominn annar tími og allt önnur þjóðfélagsgerð svo ekki sé talað um heiminn í kring um okkur. Þess vegna er nauðsynlegt að smíða nýjann grunn og það er markmið þess hóps sem fór af stað með undirskriftasöfnuina.
Það er auðvitað alveg rétt að það eru fjöldinn allur af vandamálum sem þarf að taka á og mörg þeirra hrikalega stór. Það ekkert sem hindrar uppbyggingu samfélagsins samhliða vinnu Stjórnlagaþings við að semja nýjar grunnreglur fyrir samfélagið.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2009 kl. 16:51
Hólmfríður, þetta er eins og þú sérð sett fram í spurningarformi. Um leið og ég get tekið undir fjölmargt sem þú setur hér fram þá minni ég sjálfan mig á að stjórnarskráin er í eðli sínu framsetning hugmynda sem eiga að lifa lengur en við sjálf. Í því ljósi hef ég miklu fremur áhyggjur af fljótfærni í ljósi aðsteðjandi vandamála á sviði efnahags og stjórnmálalífs.
Menn skyldu gefa sér þann tíma til þess að skoða málið til hlítar - greina vandann og í framhaldi af því setja fram tillögur. Ef leyfa á þjóðinni að taka þátt í þeirri umræðu er næsta víst að næstu mánuðir verða umvafnir kosningaundirbúningi og athygli sem beinist að björgun efnahags einstaklinga, heimila og fyrirtækja.
En vitanlega er hægt að fara í gang með vinnu, sem lýtur að endurskoðun stjórnarskrárinnar á meðal valinkunnra einstaklinga sem standa fyrir utan stjórnmál líðandi stundar.
Spurningin er væntanlega, hver á að velja þetta mæta fólk, auk annarra spurninga sem koma upp í hugann er varðar þeirra störf.
Ólafur Als, 25.1.2009 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.