4.2.2009 | 11:40
Baugsveldið riðar til falls ...
Þessi frétt raðar sér efst á forsíðu hins virta blaðs Financial Times í London. Þar seg m.a. að í gær, þriðjudag, hafi Landsbankinn hafnað endurlánapakka til handa Baugi, og í kjölfarið hafi greiðslustöðvunarkrafan verið sett fram - til þess m.a. að forða hruni og verðfalli eigna. Í raun er stjórn Baugs nú komin í hendur lánadrottna, þ.á.m. Landsbankanum. Hið opinbera er sem sagt orðin stór eignaraðili í verslunarkeðjum á borð við Hamleys, Mosaic, Iceland og House of Fraser og tískunafna eins og Jane Norman og All Saints.
Gengi þessara fyrirtækja er misjafnt. Iceland matvörukeðjan gengur mjög vel en Mosaic er stærsta vandamálið. Gert er ráð fyrir að því verði skipt upp, að sögn fjármálasérfræðings. Baugur á því sem næst helmings hlut í Mosaic en innan þess félags eru fyrirtæki á borð við Karen Millen, Oasis og nokkur fleiri. Fjármálaspekúlantar frá London hafa verið tíðir gestir við borð hins opinbera og forsvarsmanna bankanna í tilraunum til þess að koma skikki á skuldastöðu Baugs.
Greiðslustöðvun Baugs felur í sér fall viðskiptaveldis sem rekur upphaf sitt til þess að Jóhannes í Bónus opnaði matvöruverslun fyrir um 15 árum síðan. Á undraskömmum tíma fjölgaði Bónus verslunum svo um munaði, enda tóku Reykvíkingar og síðar landsmenn allir, því fegins hendi að geta keypt einföldustu matvörur á mun lægra verði en hafði þekkst fram til þess. Eftir því sem fyrirtækinu óx fiskur um hrygg hóf fyrirtækið eigin innflutning og braut jafnvel á bak aftur ýmsar heildsölur með óvægnum aðferðum.
Hvað sem framgangi Bónus, síðar Baugs, líður þá er ljóst að eftir um 10 ára samfellda sigurgöngu voru fyrirtæki í eigu Baugsveldisins orðin svo fyrirferðarmikil í íslensku viðskiptalífi að fjárútlát heimila, að sköttum og áfengiskaupum slepptum, gátu alfarið farið í gegnum hendur fyrirtækja í eigu Baugs. Þeir áttu verslanir með matvöru, allan fatnað, raftæki, húsgögn, bíla, búsáhöld, byggingavörur og jafnvel tryggingafyrirtæki - að ógleymdum sterkum fjölmiðlum og flugfélagi. Baugur var langstærsta fyrirtæki landsins.
Það var því e.t.v. ekki úr vegi að hinn ungi ofurhugi, sonur Jóhannesar, horfði út fyrir landsteinana. Velgengnin á heimamarkaði fyllti þá áræði og útrásin hófst með stuðningi banka hér heima (að hluta í eigu þeirra sjálfra) - sem á grundvelli gamals trausts gátu náð sér í ódýrt fjármagn erlendis. Þar með hófst sú uppbygging sem leiddi af sér skuldastöðu eins manns upp á þúsund milljarða króna. Upphæð sem nemur meira en 3 milljónum króna á hvert mannsbarn á Íslandi - um 13 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu!
Auk þess að nú er Baugsveldið rústir einar þá er vert að minnast þess að fyrir ekki löngu síðan tókst forráðamönnum þess að kaupa sér hæstaréttardóm á Íslandi. Það kostaði þá að vísu um 3 milljarða króna auk annars tilkostnaðar í gegnum fjölmiðlaveldið en það tryggði umfram allt annað að þeirra viðskiptahættir voru stimplaðir lögmætir af æðsta dómsvaldi Íslands. Dómurinn varð í raun til þess að íslenskir viðskiptamógúlar - sumir hverjir - þurftu ekki að hafa miklar áhyggjur af dómstólum né þeim stofnunum sem var gert að fylgjast með þeirra verkum.
Baugur í greiðslustöðvun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Facebook
Athugasemdir
Einnig er skrítið að Tryggvi Jónsson vinur og fyrrum samstarfsfélagi Jóns Ásgeirs hættir hjá Landsbankanum og stuttu seinna sjá þeir ekki hag sinn í að lána Baugi.. tilviljun?
Svavar (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 11:47
Ég trúi ekki á tilviljanir
Gullvagninn (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.